HINSEGIN dagar - gay pride - eru haldnir í dag í miðborg Reykjavíkur fimmta árið í röð. Gay pride mætti einnig útleggja sem gleðidaga eða daga stoltsins. Fyrstu gay pride-göngurnar voru farnar í upphafi 8.

HINSEGIN dagar - gay pride - eru haldnir í dag í miðborg Reykjavíkur fimmta árið í röð. Gay pride mætti einnig útleggja sem gleðidaga eða daga stoltsins. Fyrstu gay pride-göngurnar voru farnar í upphafi 8. áratugarins í Bandaríkjunum og nokkrum ríkjum Vestur-Evrópu. Göngurnar voru farnar til að vekja athygli á mannréttindabaráttu samkynhneigðra og þjónuðu einnig þeim tilgangi að gera lesbíur og homma sýnilegri. Fram á sjónarsviðið stigu einstaklingar úr öllum þjóðfélagshópum sem þorðu og gátu verið þeir sjálfir, stoltir af þeim tilfinningum sem þeir báru í brjósti.

Fyrstu göngurnar voru fámennar. Einungis nokkrir tugir eða hundruð baráttuglaðra mannréttindasinna stigu fyrstu skrefin í stórborgunum. Þegar líða tók á 9. áratuginn fjölgaði verulega í hópnum og þátttakendur fóru að skipta hundruðum þúsunda og jafnvel milljónum í hverri borginni á fætur annarri. Kröfugöngurnar breyttust smám saman í sigurhátíðir. Kröfuspjöldin viku til hliðar fyrir fögnuði yfir áfangasigrum í mannréttindabaráttunni. Lesbíur og hommar gleðjast yfir því að vera þau sjálf og fá að njóta lífsins á sínum eigin forsendum eins og hinir gagnkynhneigðu. Pólitískur raunveruleiki er þó aldrei langt undan. Baráttan fyrir fullum mannréttindum dregur milljónir lesbía og homma fram í dagsljósið á hverju ári sem í raun vilja ekkert frekar en að fá að lifa í friði í sátt við sig og umhverfi sitt.

Í dag taka lesbíur og hommar hér á landi þessi mikilvægu skref. Þramma niður Laugaveginn stolt af sjálfum sér og því þjóðfélagi sem við búum í. Það eru ekki einungis samkynhneigðir sem taka þátt í fögnuðinum, þúsundir gagnkynhneigðra hafa slegist í hópinn. Ég þori að fullyrða að hvergi annars staðar í heiminum er hlutfall gagnkynhneigðra í gay pride jafn hátt og í Reykjavík. Sú spurning hverju þetta sætir hefur leitað á mig í öllum gay pride-göngunum til þessa. Hvað fær þúsundir gagnkynhneigðra Íslendinga til þess að taka höndum saman með samkynhneigðum í tilefni hinsegin daga? Hvað fær á þriðja tug þúsunda Íslendinga, um tíu prósent þjóðarinnar, til þess að stíga upp úr hversdagsleikanum og mæta til leiks? Hvaða félagslegu og pólitísku þættir liggja þessu til grundvallar?

Eflaust liggja margar og mismunandi ástæður að baki þessari miklu þátttöku en ég leyfi mér að nefna þrjár til sögunnar. Í fyrsta lagi leggur stór hluti þátttakenda leið sína í miðborgina til að leggja mannréttindabaráttu samkynhneigðra lið. Mannréttindasinnum blöskrar að í upphafi 21. aldar skuli samkynhneigðir Íslendingar ekki njóta mannréttinda til jafns við gagnkynhneigða. Það hefur verið sérstaklega áhugavert að fylgjast með gagnkynhneigðum mannréttindasinnum í göngum undanfarinna ára. Þeir ganga á pólitískum forsendum, taka mann tali og býsnast yfir því að full mannréttindi hafi ekki þegar verið tryggð. Hér er svo sannarlega um sannkallaða mannréttindasinna að ræða og manni hlýnar um hjartarætur að sjá þegar fólk er viljugt til að leggja sitt af mörkum til þess að tryggja náunganum full réttindi. Samkenndin er sterk í þessu litla þjóðfélagi okkar. Þegar okkur þykir halla á meðbræður okkar og systur tökum við höndum saman.

Í öðru lagi tekur fólk þátt í hinsegin dögum til þess að skemmta sér og öðrum og fagna um leið nýfengnu frelsi. Þátttakendur samgleðjast yfir þeim mikilvægu sigrum sem áunnist hafa í mannréttindabaráttu samkynhneigðra hér á landi á undanförnum árum: Lögum um staðfesta samvist frá 1996, banni við mismunun einnig frá 1996 og rétti til stjúpættleiðinga frá 2000. Gleðin ræður ríkjum, fjöldinn skartar sínu fegursta og skálar í kampavíni að lokinni göngu.

Í þriðja lagi tekur hópur fólks þátt í hátíðarhöldunum ýmist til þess að fylgjast með göngunni af einskærri forvitni, horfa á skemmtidagskrána eða til þess eins að njóta góðrar götuhátíðar í miðborginni. Pólitískur bakgrunnur hátíðarhaldanna er hins vegar aldrei langt undan.

Þær þúsundir Íslendinga sem taka þátt í hinsegin dögum senda frá sér skýr skilaboð. Skilaboðin eru þrenns konar og er beint í þrjár ólíkar áttir að mínu mati.

Skilaboðum er beint til samkynhneigðra sjálfra: Verið þið stolt af því sem þið eruð, verið þið sjálf. Þið þorið, viljið og getið.

Skilaboð eru send til samfélagsins í heild sinni: Fordómar gagnvart samkynhneigðum eru með öllu ólíðandi.

Síðast en ekki síst eru skilaboð send til stjórnvalda: Það er ekki sæmandi nútíma upplýstu lýðræðissamfélagi að vera með lög í landinu sem brjóta með beinum hætti gegn grundvallarmannréttindum borgarana. Full mannréttindi samkynhneigðra eru það sem koma skal: Réttur til ættleiðinga, réttur lesbía til tæknifrjóvgunar, réttur til giftingar í kirkju og réttur til giftingar á nákvæmlega sömu forsendum og réttur gagnkynhneigðra til giftingar.

Síðan hefur hver og einn eflaust sínar ástæður fyrir þátttöku í hinsegin dögum. Ég mun til dæmis skilja kröfuspjaldið eftir heima en efst í huganum verður baráttan fyrir rétti samkynhneigðra barna og unglinga, sérstaklega réttindum þeirra í skólakerfinu. Nær algjör þögn ríkir um málefni samkynhneigðra barna og unglinga í skólum landsins. Samkynhneigð börn og unglingar virðast ekki vera til að mati skólakerfisins. Um þau er aldrei talað. Við þau er ekki rætt. Það heyrir til undantekninga ef kennarar og skólastjórar gera ráð fyrir því að til séu samkynhneigð börn og unglingar.

Þau börn skipta hundruðum sem myndi líða betur innan skólans, sem utan hans, ef fjallað væri um málefni samkynhneigðra í skólum eins og til dæmis fjallað er um málefni fólks af erlendum uppruna. Er ekki kominn tími til að við sem erum fullorðin tökum á okkur rögg og tölum um samkynhneigð við börn og unglinga eins og ekkert sé sjálfsagðara? Er ekki kominn tími til þess að við hættum að gera sjálfkrafa ráð fyrir því að börnin okkar séu gagnkynhneigð? Er ekki rétt að doka aðeins við og spyrja sjálfan sig að því hvernig þeim unglingi líði sem er samkynhneigður en er stöðugt sagt af mömmu, pabba, afa, ömmu, félögunum og kennurunum að hann sé gagnkynhneigður? Sú togstreita sem margur unglingurinn þarf að glíma við af þessum sökum er honum um megn.

Með opinni fordómalausri umfjöllun um samkynhneigð og samkynhneigða má stórbæta líðan fjölda barna og unglinga, draga úr fordómum, minnka líkur á ofneyslu vímugjafa og síðast en ekki síst bjarga fjölda mannslífa. Það hlýtur að vera þess virði.

Gleðilega hátíð.

BALDUR ÞÓRHALLSSON