Afkvæmi guðanna á Airwaves-tónlistarhátíðinni 2002.
Afkvæmi guðanna á Airwaves-tónlistarhátíðinni 2002.
"Þessi gaur... Eminem, hann hefur sýnt mönnum fram á hvað hægt er að gera, gert heila kynslóð spennta, ekki bara með ágengum textum heldur með orkunni sem felst í þeim," sagði nóbelsskáldið Seamus Heaney og í kjölfarið hlýtur að þurfa að athuga hvort það sé skáldskapur í rappinu. ÁRNI MATTHÍASSON tók verkið að sér.

ÞEGAR nóbelsskáldið Seamus Heaney fór lofsamlegum orðum um skálkinn Eminem á dögunum hlupu menn upp til handa og fóta til að kanna hvað skáldið væri að fara, hvort verið gæti að í þeim óhróðri sem streymdi úr munni Eminems leyndust perlur sem vert væri að skoða og reyna að skilja. Samkvæmt BBC lét Heaney þessi orð falla þegar hann var spurður um hvort hann sæi einhvern tónlistarmann sem ætti eftir að vekja eins mikla athygli ungmenna á bókmenntum og skáldskap nú um stundir og Bob Dylan og John Lennon gerðu á sjöunda og áttunda áratugnum. Heaney svaraði: "Þessi gaur... Eminem, hann hefur sýnt mönnum fram á hvað hægt er að gera, gert heila kynslóð spennta, ekki bara með ágengum textum heldur með orkunni sem felst í þeim."

Þeir sem þegar þekktu vel til Eminems og til rappsins létu sér ekki bregða, vissu mætavel hve hann væri snjall textasmiður og gagnorður og ekki síst að innan rappsins væri nóg til af röppurum sem hefðu meira til málanna að leggja en mörg þeirra skálda sem helst er hampað.

Löng saga og fjölskrúðug

Rappið á sér langa sögu og fjölskrúðuga; það hefur tekið stakkaskiptum oftar en tölu verður á komið, innan þess rúmast ólíkar lífsskoðanir og -stefnur, það svíður og brennir, líknar og græðir og er lífvænlegra en nokkru sinni. Þegar meta á skáldskapargildi rapptexta lenda menn aftur á móti iðulega í vandræðum; er megnið af því nokkuð nema hagyrðingamál, eru menn að gera meira en að tvinna saman blótsyrði, er rapp ekki bara orðafimleikar frekar en skáldskapur?

Víst er það kúnst að vera hagmæltur, orðheppinn, en það þarf meira til ef menn vilja semja ljóð sem hreyfa við áheyrendum, óma innra með þeim. Dylan sagði eitt sinn að Smokey Robinson væri mesta skáld Bandaríkjanna þeirra sem þá voru uppi og var þá ekki síst að vísa til þess hve Robinson var lipur að spila saman andstæðum, hversu vel hann fór með orðaleiki, hve honum var lagið að leika á allan tilfinningaskalann. Eins er því farið með rapplistamenn eins og Eminem, Aesop Rock, Eyedea, Sage Francis, BlazRoca, Hr. Kaldhæðinn, Bent, Dóra DNA og Móra; þeir eru hagmæltir og oft býsna beittir og þegar við bætist kraftmikill flutningur þá lifnar textinn svo við að ljóðskáld falla í stafi.

Ekki verður hér sögð saga rappsins eða rakið hvernig hiphop varð til úr rappi, graffi og breakdansi, en gaman er að velta aðeins fyrir sér upprunanum, hvaðan textahefðin er komin.

Mönnum er gjarnt að vísa til griota, söngskálda í Vestur-Afríku, þegar segja á sögu rappsins. Með þeim barst talsöngurinn til eyja í Karíbahafi, annars vegar í kalypsotónlist og síðar í því sem menn kölluðu toasting í reggítónlist. Í kalypsótónlist, sem er upp runnin er á Trinidad og Tobago, skipti og skiptir textinn miklu máli og því betri sem hann er beinskeyttari og hefur sem mesta pólitíska og þjóðfélagslega skírskotun. Þegar leikið var fyrir dansi voru þeir söngvarar í mestum metum sem gátu spunnið viðstöðulaust nýjan texta við vinsæl lög og helst snúið þeim upp á viðstadda eða nýlega atburði. Algengt var að menn tækjust á í slíkri spunakeppni þar sem tveir eða fleiri söngvarar, kalypsoskáld, kepptust um að snara fram svo mergjuðum textum, öryrkja eins og menn kalla það í íslensku hiphopi, að andstæðingurinn stæði á gati. Til að gera keppnina meira spennandi urðu menn að vera viðbúnir því að flétta inn í rímurnar frammíköll áheyrenda. Til að halda ríminu og gefa sér andartaks umhugsun skutu menn síðan inn orðlausum hrópum eða merkingarlausum smáorðum, ekki ósvipað sem þeir gera rímnasmiðir vestan hafs með sín jeah, fokk og álíka eða með staðalfrasa og rímnabrot (tíðkast reyndar í tónlist um allan heim, sjá bandarískan sveitablús, grískt rebetiko, alsírska raitónlist o.s.frv.).

Varðveittu þjóðsagnahefð

Þessi hefð á sér langa sögu og þannig er til frásögn fuglafræðings sem kom til Trinidad 1859 og varð það á að segja tónlistina sem hann heyrði, og kallaðist þá cariso, ekkert nema útúrsnúning á breskum þjóðlögum. Sama kvöld birtist fyrir utan glugga hans söngvari, Sirisima að nafni, með fjölmennan hóp með sér og söng níðvísur samdar á staðnum og fjölluðu aðallega um útlit fræðingsins, Williams Moores, og vanþekkingu hans á menningu landsmanna.

Fremstu kalypsosöngvarar voru meira en bara vinsælir söngvarar; þeir varðveittu þjóðsagnahefð Vestur-Indía, fléttuðu gömlum þjóðsögnum og minnum saman við frásagnir af daglegu lífi. Þeir voru líka rödd fólksins, tæptu á málum sem brunnu á fólki, atvinnuleysi, fátækt og kúgun. Fyrst og fremst voru þeir þó fréttaveitur, álíka og rappið var vestan hafs undir lok níunda áratugar síðustu aldar - meira um það síðar.

Kalypsotextar eru eðli síns vegna yfirleitt ekki merkilegur skáldskapur, þeir eru tækifærisvísur, ortir í hita leiksins og til að lifa skamma hríð, en nokkra fremstu textasmiði kalypsotónlistarinnar má þó kalla skáld, sjá til að mynda texta Neville Marcano sem kallaði sig Growling Tiger.

Kalypso náði einna mestum blóma á millistríðsárunum, í það minnsta var þá mest spunnið í texta og tónlist að mínu mati, en tónlistarformið náði þó mestum vinsældum eftir seinni heimsstyrjöldina þegar bandarískur hermaður stal laginu Rum and Coca Cola frá Lord Invader, skrifaði það niður og skráði sem sitt eigið þegar hann kom heim til Bandaríkjanna, en lagið varð geysivinsælt í flutningi Andrews-systra (Lord Invader vann síðan höfundarréttarmál vegna þess).

Gríðarlegar vinsældir kalypsotónlistar urðu meðal annars til þess að menn tóku að beina sjónum að öðrum eyjum í Karíbahafi og þar tóku framagjarnir tónlistarmenn formið upp á sína arma, meðal annars á Jamaica þar sem fyrir var í landinu tónlist sem kallaðist mento. Mento átti síðan eftir að þróast yfir í ska, sem pólitískir textar voru snar þáttur í, síðar rocksteady og loks reggí.

Dub verður til

Í Kingston, höfuðborg Jamaica, ráku menn svonefnd hljóðkerfi, sound systems, í harðri samkeppni en slíkt kerfi byggðist á plötuspilurum, magnarakerfi og mjög stórum hátölurum. Baráttan á milli hljóðkerfagengjanna snerist þó ekki bara um að vera með bestu og háværustu græjurnar, heldur urðu menn að vera vel vakandi fyrir nýjum hugmyndum í tónlist. Reglulega voru menn gerðir út af örkinni til Bandaríkjanna að kaupa plötur sem síðan var gætt af vopnuðum vörðum til að tryggja að aðrir gætu ekki nælt sér í eintök. Þeir sem ekki áttu kost á að vera sífellt að kaupa plötur frá Bandaríkjunum tóku upp á því að gera sjálfir tónlist sem naut mun meiri hylli en sú innflutta og þau kerfi voru vinsælust, sem komið höfðu sér upp hljóðveri eða ígildi þess og gátu sífellt verið með ný lög.

Ekki leið á löngu að helstu hljóðkerfin voru ýmist komin með eigin plötuútgáfur eða í gott samstarf við slík fyrirtæki og þá reið á að finna upp á einhverju nýju. Osbourne Ruddock, sem kallaður var King Tubby, var almennt talinn með fremstu upptökustjórum þess tíma. Hann sá um plötuskurð fyrir Treasure Island-útgáfuna og hafði því aðgang að öllum frumupptökum fyrirtækisins. Hann tók upp á því að skera plötur fyrir sjálfan sig, teygði á bassalínum, klippti út söng eða teygði hann til, hægði á takti og bjagaði með bergmáli og drunubassa. Hann fékk síðan vin sinn, plötusnúð, Ewart Beckford sem kallaðist U-Roy, til að skjóta frösum frá eigin hjarta inn í eyður í lögunum. Eftir að hafa reynt það heima í hljóðverinu kynntu þeir nýja stílinn á dansleik og eins og einn viðstaddra lýsti því þá varð allt vitlaust á staðnum. Þeir voru bara með fjögur lög sem var búið að meðhöndla á þennan hátt, fjórar dub-útgáfur eins og það var síðar kallað, og annað var ekki spilað það kvöld og fram á nótt, aftur og aftur.

Þótt menn séu ekki á eitt sáttir um uppruna rappsins eru fyrstu upptökur á slíkri tónlist frá því í lok áttunda áratugarins og byrjun þess níunda. Margir nefna Kool DJ Herc sem einn helsta frumherja stefnunnar nýju, enda var hann með þeim fyrstu sem teygðu úr slagverksköflum á fönk- og R 'n B-lögum, break eins og þau kölluðust. Hann var líka frumherji í því að nýta frammíköll til að halda fólki í stuði og hvetja það áfram, en þeir sem það gerðu kölluðust snemma MC, Master of Ceremonies eða Mic Controller, sem er notað enn þann dag í dag.

Old-School

Þegar menn fóru að flytja fyrirframsaminn texta, rappa, en ekki bara skjóta inn setningu á stangli, voru textarnir einfaldir, líkari söngtextum í uppbyggingu en því sem menn þekkja í dag. Textalínur voru yfirleitt jafn langar og rímið einfalt. Yrkisefnið var líka léttvægt alla jafna en stöku rapparar, þeirra fremstur Grandmaster Flash, höfðu meira undir, sögðu sögur úr hverfinu sem ekki voru allar fagrar, hvöttu fólk til að standa saman og berjast gegn fátækt og fáfræði. Fyrsta lag sem eitthvað kveður að var Rapper's Delight frá 1979 með Sugarhill Gang, en það gekk einmitt aftur illa afskræmt í vinsælu lagi á þarsíðasta ári, Tómatsósulaginu.

Eins og getið er voru textar þessarar frumgerðar rappsins, sem menn kalla old-school, ekki beysnir þótt þeir séu í sjálfu sér merkileg heimild um líf blökkumanna á áttunda áratugnum, vonir þeirra og þrár (á líkan hátt og textar Þorsteins Eggertssonar og Ómars Ragnarssonar eru ómetanleg heimild um íslenskar rokkkynslóðir).

Meira var spunnið í texta listamanna eins og Grandmaster Flash sem er einn höfuðmeistara hiphopsins, ekki bara fyrir texta sem voru veigameiri en almennt tíðkaðist, fjölluðu um skuggahliðar daglegs lífs, heldur einnig fyrir flutningstækni; hann var brautryðjandi í að nota plötuspilarann eins og hljóðfæri og frumherji í plötusnúðstækni sem enn er notuð.

Einn fyrsti rapptextinn sem eitthvað kvað að var einmitt með Grandmaster Flash and The Furious Five, The Message, sem Melle Mel flutti 1981, en í textanum rekur Mel daglegt líf í fátækrahverfi þar sem allt er þakið glerbrotum, fólk mígur í stigaganginn, berst við rottur, kakkalakka og sprautufíkla - síendurtekin samlíkingin er:

It's like a jungle sometimes

It makes me wonder how I keep from goin' under

Í slíku umhverfi er lítil sem engin von til þess að ungmenni nái að brjótast úr fátækt og vonleysi, einu fyrirmyndirnar eru þeir sem eiga peninga, bófar og fíkniefnasalar:

You'll grow in the ghetto livin' second-rate

And your eyes will sing a song called deep hate

The places you play and where you stay

Looks like one great big alleyway

You'll admire all the number-book takers

Thugs, pimps and pushers and the big money-makers

Drivin' big cars, spendin' twenties and tens

And you'll wanna grow up to be just like them, huh

Smugglers, scramblers, burglars, gamblers

Pickpocket peddlers, even panhandlers

Áhrif frá götuskáldunum

Í fyrstu mótmælatextum þessa tíma, ef kalla má þá svo, eru greinileg áhrif frá "götuskáldunum" svonefndu. Áhrifamest þeirra var Gil Scott-Heron, ekki síst fyrir ótrúlega kraftmikinn flutning, en hann flutti ljóð sín við djassaðan undirleik framan af en færði sig síðar yfir í bundnari takt. Áhrifavaldar hans, menn eins og LeRoi Jones, sem enn er umdeildur, áttu einnig eftir að hafa bein áhrif á þróun rapptexta, þótt Scott-Heron hafi staðið nær tónlistarmönnunum.

Enn meiri áhrif hafði ljóðskáldasveit sem kallaðist Last Poets. Þar fór fremstur Jalal Mansur Nuriddin, sem sat inni fyrir að neita herþjónustu og snerist til islam í fangelsinu. Hann stofnaði ljóðspunatríó með tveimur öðrum föngum, Omar Ben Hassan og Abiodun Oyewole, og eftir að þeir losnuðu úr fangelsi tóku þeir sér nafnið Last Poets. Fyrsta plata þeirra félaga, samnefnd sveitinni, vakti mikla athygli og var ákveðinn vendipunktur í rappinu, kveikti pólitískan áhuga og hvatti menn til að láta allt flakka.

Á seinni hluta níunda áratugar síðustu aldar varð mikil uppsveifla í pólitísku rappi, stéttabaráttan hélt innreið sína í texta tónlistarmanna eins og Chuck D og sveitar hans Public Enemy. Fyrsta plata þeirrar hljómsveitar er jafnan talin með bestu rappskífum sögunnar, ekki bara fyrir magnaðar útsetningar, heldur aðallega fyrir afdráttarlausa textana, þá skýru heimsmynd sem lýst er þar sem blökkumenn eru hvattir til að rísa upp og brjótast undan kúgun hvítra, en textarnir eru mjög litaðir af byltingarkenndri múhameðstrú, hvítir menn gjarnan kallaðir djöflar og svo má telja. Rauður þráður í textum Public Enemy, sem flestir voru eftir Chuck D, Carlton Ridenhour, var að svartir og hvítir ættu ekki samleið, heimur og þjóðfélag hvítra væri ekki fyrir svarta og því ættu litir Bandaríkjamenn að neita að taka þátt í samfélaginu og skapa eigin heim. Ágætt dæmi er lagið Black Steel in the Hour of Chaos frá 1988 þar sem Chuck D segir frá því er hann var kallaður í herinn, en algengt var meðal róttækra blökkumanna að þeir neituðu herþjónustu:

I got a letter from the government

The other day

I opened and read it

It said they were suckers

They wanted me for their army or whatever

Picture me given' a damn I said never

Here is a land that never gave a damn

About a brother like me and myself

Andúðin á hvítum í rappinu fól í sér ákveðna þversögn því þeir sem helst keyptu plötur Public Enemy voru hvítir miðstéttarunglingar; líkt og önnur tónlistarform svartra, djassinn og blúsinn (rokkið var frekar hvít tónlist en svört og því ekki talið með), voru helstu áheyrendur, plötukaupendur og tónleikagestir, afkomendur kúgaranna en ekki hinir kúguðu. Það er svo önnur þversögn hve mikið kynþáttahatur var í mörgum textum Public Enemy, þ.e. óvild í garð gyðinga, en sú óvild var áberandi hjá mörgum frammámönnum í hreyfingu byltingarsinnaðra múslima.

Róttæknitímabilið í rappi stóð ekki lengi því þegar fjórða breiðskífa Public Enemy kom út 1991 má segja að allur vindur hafi verið úr hreyfingunni. Víst voru gefnar út fjölmargar góðar hápólitískar skífur á þessum tíma, nefni Disposable Heroes of Hiphoprisy sem sendi frá sér eina snilldarskífu, Hypocrisy Is the Greatest Luxury, þar sem gagnrýnin náði ekki aðeins til yfirvalda, stórfyrirtækja og heittrúarhræsnara heldur einnig þess hvernig róttæknin varð að tísku og menn skreyttu sig með barmmerkjum, hálsmenum og innantómum slagorðum. Sjá lagið Famous and Dandy (Like Amos 'n' Andy):

My pockets are so empty I can feel my testicles

cause I spent all my money on some plastic African necklaces

and I still don't know what the colors mean...

RED, BLACK AND GREEN

Samhugur og samvinna

Meðfram pólitíska rappinu varð til hreyfing rappara sem voru ekki eins gefnir fyrir harkalegar lausnir, lögðu frekar áherslu á samhug og samvinnu; Jungle Brothers, Afrika Bambaataa, De La Soul, Brand Nubian og svo má telja. Jungle Brothers var brautryðjendasveit í hreyfingu sem kallaðist Native Tongues, en í textum sveitarinnar var lögð áhersla á að blökkumenn ættu að vera stoltir af uppruna sínum, þeir væru í raun Afríkumenn en ekki Ameríkanar:

Educated man, from the motherland

You see, they call me a star but that's not what I am

I'm a jungle brother, a true, blue brother

Jungle Brothers og fleiri Native Tongue-sveitir tilheyrðu margar hreyfingu sem kallaðist Five Percenters, 5%, en það var klofningshópur úr helstu hreyfingu svartra múslima, Nation of Islam. Hópurinn sleit sig frá Nation of Islam 1964 og var um tíma undir eftirliti bandarísku alríkislögreglunnar sem glæpagengi á árunum upp úr 1967. Nafn trúar þeirra er þannig til komið að guð hafi skapað svartan mann fyrst og síðan hvítan. 85% mannkyns viti ekki sannleikann um þetta en 15% viti hann. Af þessum 15% noti tveir þriðju, 10% af heildinni, sannleikann til að kúga þá sem ekki vita, en þau 5% sem eftir standa viti sannleikann og reyni að uppfræða þau 85% sem vaða í villu og svíma.

Leiðtogi hópsins var Clarence 13X og kennisetningar hans byggðust meðal annars á bókstafalyklum (A = Allah o.s.frv.). Hver lykill hafði sína lykilsetningu sem trúaðir þuldu eða röppuðu. Þetta hafði talsverð áhrif á fleiri en þá sem aðhylltust trúna og mátti glöggt heyra í textum margra Native Tongue-sveita, aukinheldur sem það átti eftir að hafa áhrif á rappsveitir löngu síðar, til að mynda Wu-Tang Clan, sem síðar verður vikið að.

Eitt af helstu einkennum texta Native Tongue-sveita var trú á að fólk geti sjálft miðað málum til betri vegar, menn séu ekki fórnarlömb nema þeir vilji það, með góðum vilja geti allir brotist út úr erfiðleikunum. Sjá til að mynda texta De La Soul af fyrstu plötu sveitarinnar, 3 Feet High and Rising, sem kom út 1989:

Ghetto gained a ghetto name from ghetto ways

Now there could be some ghetto gangs and ghetto play

If ghetto thang can have its way in ghetto rage

Then there must be some ghetto love and ghetto change

Bófarapp

Native Tongue-hreyfingin var fyrst og fremst austurstrandarhreyfing, enda helstu sveitirnar frá New York og þar í kring. Ekki voru þó allir landsmenn að rappa um bjarta framtíð og nokkru áður en frumraun Da La Soul kom út kom út fyrsta bófarappplatan, smáskífa Schooly D P.S.K., What Does It Mean? en PSK var skammstofun bófagengisins Park Side Killers í Fíladelfíu, en Scholly var einmitt í klíkunni áður en hann vann sér orð sem rappari. Boðskapur hans fékk góðan hljómgrunn en vestur í Los Angeles voru menn aftur á móti ekki í neinum sáttahug, þar ríkti eins konar stríð á milli svarta og hvítra yfirvalda eins og átti eftir að koma rækilega í ljós. Á meðan menn trúðu á mannkynið austur í New York blasti ekkert við nema byssur og dóp vestur í Compton, blökkumannahverfi Los Angeles. Þar kom fram ný kynslóð rappara sem gaf frat í alla vitundarvakningu og jákvæðni, og tónlistin sem þeir fengust við kallaðist bófarapp.

Framarlega í flokki höfuðpaura bófarappsins er Tracy Morrow sem tók sér nafnið Ice-T. Hann var dæmdur melludólgur og fíkniefnasali, en í bófarappinu var eftirsóknarvert að eiga sér fortíð sem glæpamaður og helst að hafa verið skotinn eða stunginn.

Í viðtali við Morgunblaðið fyrir mörgum árum lét Ice-T þau orð falla að fyrir sér, og öðrum þeim sem fengust við hið svokallaða bófarapp á þessum tíma, væri rappið leið til að segja frá þeim raunveruleika sem blasti við íbúum Compton og annarra álíka hverfa sem væru eins og borgarhverfi í hersetinni borg; atvinnuleysi gríðarlegt og vonleysið að segja algert. "[É]g og aðrir rapparar höfum verið að benda mönnum á að það sé ýmislegt í ólagi meðal blakkra Bandaríkjamanna, en þegar svo uppþotin urðu í Los Angeles [vegna Rodney Kings-dómsins] fóru þeir að kenna mér um að hafa æst til óeirða."

Chuck D úr Public Enemy sagði eitt sinn að rappið væri CNN svartra Bandaríkjamanna og í áðurnefndu viðtali tók Ice-T undir það. "Ef rappið kæmi ekki til væri það eina sem þið vissuð um það sem er að gerast í raun og veru í Bandaríkjunum það sem er í fréttum stóru fréttastofanna, og það er mestanpartinn lygi."

Ice-T var umdeildur en enn umdeildari voru ungir rapparar frá Los Angeles sem kölluðu sig Niggaz With Attitute, NWA, en lag á fyrstu skífu þeirra sveitar, Fuck tha Police, olli miklum deilum:

Fuck tha police

Comin straight from the underground

Young nigga got it bad cuz I'm brown

And not the other color so police think

They have the authority to kill a minority

Ofbeldið dýrkað

Í textum bófarappara eins og NWA, Ice-T og fleiri var ofbeldið dýrkað og gjarnan fært í þann búning að það væri nauðsynlegt til að komast af og sá sem mestu ofbeldi beitti væri því mestur allra. Fíkniefni voru líka vinsælt yrkisefni og kvenfyrirlitning óð uppi, konur yfirleitt stimplaðar sem "ho's", hórur, leikföng töffara. Slangur hafði alltaf verið áberandi í rapptextum en gekk nú enn lengra. Fjöldi orða var notaður yfir kynlífsiðkan og fíkniefnaneyslu, chronic og herb yfir marijúana. Lögreglukóði var gjarnan notaður, t.d. 211 fyrir vopnað rán, 187 fyrir morð:

Try to set me up for a 211,

Fuck around and get caught up in a 187

Áður er getið um kynþáttafordóma sem leyndust í textum margra rappara sem þó voru að berjast gegn kúgun og ofríki, ekki var bara að bleiknefjar voru kallaðir "hvítir djöflar", heldur var algengt að amast væri við gyðingum og einnig hamast að fólki af öðrum kynþáttum:

So don't follow me, up and down your market

Or your little chop suey ass'll be a target

Of the nationwide boycott

Juice with the people, that's what the boy got

So pay respect to the black fist

Or we'll burn your store, right down to a crisp

And then we'll see ya!

Cause you can't turn the ghetto - into Black Korea

Svo orti Ice Cube um kóreska verslunareigendur á skífunni Death Certificate sem kom út 1991. Þá var bófarappið að syngja sitt síðasta sem vinsældatónlist, því þótt fjölmargir héldu áfram að gefa út þannig skífur tók nýtt afbrigði af rappi við, svonefnt G-Funk, að vísu bráðskylt bófarappinu, í það minnsta hvað texta varðaði.

Bakkus hylltur

Ein af merkilegustu plötum rappsögunnar er The Cronic með Dr. Dre frá 1992, sem var eitt sinn í NWA með Ice Cube. Dre var fyrst og fremst lagasmiður þótt hann gæti rappað, og platan byltingarkennd fyrir það hvernig hann hægði á taktinum, notaði billega hljóðbúta og hljóðgervla og sótti hugmyndir í gömul fönklög frekar en soul og R 'n B. Platan seldist metsölu um heim allan, ekki síst fyrir það að á skífunni kynnti Dre nýjan rappara, Snoop Doggy Dog, sem var með fullkomna G-Funk-rödd, letilega drafandi. Textarnir voru hylling Bakkusar og neysluhyggjunnar - lífið snerist um að eiga nóg að drekka og reykja (marijúana), hafa sæg af gellum við höndina og eiga flotta bíla, dýran fatnað og mikið af skartgripum. Til þess að komast svo langt voru öll meðul leyfilegt og ef einhver var að þvælast fyrir var lítið mál að stúta honum. Svo orti Snoop:

My homey Dr. Dre came through with a gang of

Tanqueray

And a fat ass J, of some bubonic chronic that made me choke

Shit, this ain't no joke

I had to back up off of it and sit my cup down

Tanqueray and chronic, yeah I'm fucked up now

But it ain't no stoppin, I'm still poppin

Dre got some bitches from the city of Compton

To serve me, not with a cherry on top

Cause when I bust my nut, I'm raisin up off the cot

Don't get upset girl, that's just how it goes

I don't love you hoes, I'm out the do'

Bylting í aðsigi

Þegar hér var komið sögu var vesturstrandarrappið að segja allsráðandi, naut í það minnsta mestra vinsælda. Á austurströndinni voru menn líka að fást við rapp og þar var bylting í aðsigi. 1993 kom út í New York plata með hópi rappara frá Staten Island sem höfðu allir tekið sér sérkennileg nöfn og búið sér til sérstakan heim. Sá heimur byggðist á japönskum og kínverskum slagsmálamyndum og heiti sveitarinnar, Wu-Tang Clan, er þannig beint út úr gamalli Jackie Chan-mynd, og þeir skreyttu plöturnar og textana með vísunum í þær myndir. Alls voru félagarnir í Wu-Tang Clan níu, RZA, GZA, Ol' Dirty Bastard, Method Man, Raekwon the Chef, Ghostface Killah, U-God, Inspectah Deck og Masta Killa, og allir fyrirtaks textasmiðir og flytjendur. RZA var höfuðpaur sveitarinnar, sá um tónlistina að mestu á fyrstu skífunum, og einn hæfileikamesti tónlistarmaður rappsögunnar.

Eins og getið er sóttu þeir félagar mikið af myndlíkingum úr gömlum slagsmála- og samúræjamyndum, en hjá sumum þeirra, aðallega GZA, mátti greina áhrif frá 5 Percenters-hreyfingunni, sérstaklega hvað varðaði áherslu á orðalykla og talnagildi bókstafa. Þeir sóttu líka hugmyndir og líkingar í bandaríska auglýsinga- og poppmenningu og oft getur verið erfitt fyrir þá sem ekki hafa alist upp þar vestan hafs að greina hvað þeir eru að fara. Dæmi úr 7th Chamber af fyrstu skífunni, Enter the Wu-Tang - 36 Chambers, GZA orti:

My Clan is thick like plaster

Bust ya, slash ya

Slit a nigga back like a Dutch Master Killer

Style jumped off and Killa, Hill-er

I was the thriller in the Ali-Frazier Manilla

I came down with phat tracks that combine and interlock

Like getting smashed by a cinder block

Blaow! Now it's all over

Niggaz seeing pink hearts, yellow moons

orange stars and green clovers

Á næstu árum má segja að engin ein stefna hafi verið ráðandi. Djassrapp, þar sem menn sóttu hugmyndir og hljóðbúta í bop-tónlist og svalan djass, naut talsverðrar hylli, en textar í þeirri tónlist minntu nokkuð á það sem Native Tongue-sveitir gerðu á sinum tíma. Bófarappið lifði og góðu lífi um tíma, en textar í því snerust æ meira um ofbeldi og dauða, sjá til að mynda plötur The Notorious B.I.G. Ready to Die sem kom út 1994 og Life After Death sem kom út 1997. Mesta stjarna þessara ára var 2Pac, sérlega snjall flytjandi og rímnasmiður, bryddaði upp á nýjungum í flæði, línulengd og innrími, en hann var myrtur 1996. The Notorious B.I.G. var myrtur ári síðar og segja má að þar með hafi bófarappið sungið sitt síðasta, í bili að minnsta kosti.

Bleiknefjar láta í sér heyra

Fram undir miðjan tíunda áratug síðustu aldar má segja að rapp hafi nánast eingöngu verið blökkumannatónlist, í það minnsta voru allir helstu flytjendur svartir. Víst voru dæmi um bleiknefja sem náð höfðu vinsældum, til að mynda Vanilla Ice sem sló í gegn óforvarandis 1990 og hvarf að segja jafnskjótt aftur, og svo þremenningarnir í Beastie Boys sem náðu gríðarlegum vinsældum 1986 og hafa að mestu haldið þeim síðan, þótt lítið hafi heyrst frá sveitinni lengi. Hjá Beastie Boys voru textarnir ekkert sérstakir, víst súrir og skemmtilegir í sjálfu sér, en þeir eru fyrst og fremst byltingarmenn í tónlist og áttu eftir að hafa talsverð áhrif á því sviði. Fyrsti hvíti rapparinn sem náði að slá í gegn fyrir texta sína en ekki bara flutning og tónlist var aftur á móti Eminem sem sendi frá sér fyrstu breiðskífuna 1997.

Ekki er bara að Eminem er afbragðs flytjandi, einn sá besti sem nú er starfandi, heldur er hann góður textasmiður, flæðið gott og rímið frumlegt á köflum. Þegar honum tekst best upp standast fáir honum snúning. Það var þó ekki bara það sem menn hrifust af heldur hvað hann var óheflaður og mergjaður í textum. Ólíkt þeim svörtu röppurum sem hann ólst upp við leitaði Eminem innávið, orti um sitt eigið líf og vandamál af miskunnarlausri hreinskilni, en sú afstaða, að höfundurinn er miðpunktur textans, er áberandi hjá hvítum textasmiðum sem síðar verður komið að. Ágætt dæmi um það hversu snjall hann er í textagerðinni er í laginu No One's Iller Than Me af fyrstu smáskífunni:

New Lugz, give the crew hugs, guzzle two mugs

Before I do drugs that make me throw up like flu bugs

True thugs, rugged unshaven messy scrubs

Whippin' 40-bottles like the fuckin' Pepsi clubs

Fyrsta plata Eminem seldist í milljónaupplagi og þær næstu slógu öll sölumet. Fjölmargir hafa amast við því hve berorður hann er í textum, en eins og hann hefur sjálfur bent á í texta þá er hann aðeins að segja það upphátt sem unglingarnir segja sín á milli þegar þeir fullorðnu heyra ekki til. Á skífunum hefur hann líka eytt talsverðum tíma í að svara þeim sem hamast hafa á honum samhliða því sem hann hefur greitt úr sálarflækjunum, en fátt virðist fara meira í taugarnar á honum en að hann sé kallaður fyrirmynd ungmenna:

Follow me and do exactly what the song says:

smoke weed, take pills, drop outta school, kill people and drink

Óhlutbundið hiphop

Talsverð gróska hefur verið undanfarin ár í því sem sumir hafa vilja kalla óhlutbundið hiphop, þar sem menn segja ekki bara skilið við rímið, heldur einnig taktinn, sjá til að mynda plötu cLOUDDEAD, nýja plötu why, oaklandazulasylum, og sitthvað fleira sem Anticon-útgáfan bandaríska hefur gefið út. Á bak við slíkar tilraunir standa bleiknefjar, hvítir rapparar sem ólust upp við svarta rapptónlist en líka við hvítt rokk og tilraunatónlist. Víst eiga flestar af þeim tilraunum sem nú ber hæst eftir að gleymast þegar frá líður, en þær benda til þess að menn séu enn að endurnýja formið. Sjá til að mynda kanadíska rapparann Noah23:

check the junglistic jibber jaw

at the drum and bass seminar

with the troubadour peep the metaphor

less is more when you're at the reservoir

glass half empty glass half full

keep your eyes out for the crystal skulls

rock the riddim with thoughts intelligent

carve my name in it on the wet cement

i triple the syllable with a titanium telescope

medicine vehicle then i defeated the simpletons

taking a chance on the nanobot bicycle

delegate melting your element into a vacuous nebula

gravity gripping up everything

retina spotting the obvious entity

coagulate caligula

boiling point gwan culminate

sustain the pulserate with a dubplate

Fleiri kanadískir rapparar eru eftirtektarverðir, til að mynda Josh Martinez sem samið hefur ótrúlega magnaðan texta um helförina og það hvernig stjórnvöld víða um heim sáu í gegnum fingur sér þar til sannleikurinn varð ekki umflúinn:

See many Europeans felt that Jews were just pollution

A problem finally solved by the Final Solution

Where Communists, Jews, gypsies, and handicapped queers

All became the target of irrational fears

fed by the flames of state-sponsored propaganda

Pólitískt rapp er reyndar í nokkurri uppsveiflu hvort sem menn eru að berjast gegn alheimsvæðingu viðskipta, stríði í Írak eða Afganistan, skerðingu persónufrelsis eða bara almennt að amast við græðgi og mannfyrirlitningu. Fróðlegt var til að mynda að fylgjast með viðbrögðum manna vestan hafs við árásinni á tvíturnana í New York 11. september 2001. Mjög algengt var að rekast á það viðhorf meðal svarta rappara að atburðurinn kæmi þeim ekki svo mikið við og að samkenndin sem skapaðist í kjölfarið væri til þess fallin að tefja réttindabaráttu þeirra.

Sage Francis, einn besti textasmiður í rappinu í dag, sendi frá sér lagið Makeshift Patriot ári eftir árásina þar sem hann dregur fram mótsagnirnar í því að til þess að standa vörð um lýðræði og frelsi beiti menn aðferðum sem skerða lýðræði og frelsi:

So get your tanks and load your guns and hold your sons in a family huddle,

Because even if we win this tug of war and even the score... humanity struggles.

There's a desperate need of blood for what's been

uncovered under the rubble,

Some of them dug for answers in the mess... but the rest were looking for trouble.

Byrjað á ensku

Íslenskt rapp á sér ekki svo ýkja langa sögu. Fyrstu sveitirnar sem nokkuð kvað að voru Subterranean og Quarashi sem báðar urðu til um líkt leyti. Báðar komu fram um líkt leyti, 1995-1996, en þá varð hér ákveðin vakning og fleiri sveitir stofnaðar þótt ekki hafi borið eins mikið á þeim. Quarashi gaf út fyrstu íslensku rappskífuna, en aðal sveitarinnar hefur jafnan verið tónlistin frekar en textarnir sem voru á ensku líkt og hjá Subterranean. Textar þessara sveita voru alla jafna ágætlega saman settir en náðu ekki eins til áheyrenda og íslenskir textar áttu síðar eftir að gera. Greinilegt var að frumherjarnir í íslensku rappi þurftu að móta nýtt orðfæri og kynna nýja hugsun; ekki var hægt að sækja í sameiginlegan frasa- og slangursjóð eins og tíðkaðist í rappinu vestan hafs. Eins og liðsmenn Quarashi orðuðu það í viðtali skömmu áður en fyrsta plata hljómsveitarinnar kom út: "[Þ]ó Vesturbærinn sé eins og Bronx, þá erum við [bara] á Íslandi."

Bandarískt rapp var allsráðandi hér á landi eins og víða annars staðar, en fyrir atbeina bræðranna Erps og Eyjólfs Eyvindarsona bárust hingað evrópskir straumar í útvarpsþættinum Skjaldbökunni sem þeir sáu um en þeir höfðu heillast af hiphopi löngu áður. Báðir áttu eftir að koma mjög við sögu í íslensku rappi.

Með fyrstu sveitum sem ég heyrði rappa almennilega á íslensku var Tríó Óla Skans sem tók þátt í Músíktilraunum Tónabæjar 1997. Eftir það fór að bera meira á íslensku rappi og árið 2000 sigraði rappsveitin 110 Rottweilerhundar af öryggi í Músíktilraunum, en sveitin tók sér síðar nafnið XXX Rottweilerhundar.

Á næstu mánuðum var nokkuð um að sveitir gæfu út heimabrennda kynningardiska eða smáskífur, nefni Skytturnar og Mezzias, en fyrsta eiginlega rappskífan á íslensku, Stormurinn á eftir logninu, kom út 2001. Flytjandi var áðurnefndur Eyjólfur Eyvindsson, sem tekið hafði sér listamannsnafnið Sesar A. Á Storminum er meðal annars að finna eftirfarandi línur:

Gerðusvovel og keyptu yfirlýsingu um óvirkan smekk

merkjagalla sniðnir

svo þú líkist helst týndum hlekk

sem ekki næga athygli í æsku fékk

áttu erfitt með skapa þinn eigin stíl

situr bara og bíður eftir meðaljónslíf

sæki þig í Volvoskutbíl

Rottweilerhundarnir sendu líka frá sér plötu fyrir þessi jól og vöktu gríðarlega athygli á ámóta forsendum og Eminem á sínum tíma; textar voru ótrúlega kraftmiklir og krassandi, ekki var til sú goðgá að ekki væri hún viðruð, nafngreindir menn dregnir sundur og saman í háði. Húmorinn var svo beittur og beiskur á köflum að önnur eins plata hefur ekki komið út á Íslandi fyrr eða síðar. Margt er vel gert í textum, þótt sumt eldist ekki vel eins og siður er með dægurpólitíska texta. Sjá til að mynda þennan bút úr Bent nálgast af fyrstu skífunni þar sem Ágúst Bent Sigurbertsson fer á kostum:

Ég er Hann, Ég er Jahve, Jah, ég er fokking Óðinn...

Ég skapaði heiminn á sjö dögum og eyði honum á jafnmörgum

náttúruhamfarir á fyrsta degi og engisprettur

á öðrum

þriðja, fjórða, fimmta, sjötta bæti á ykkur kvölunum

kem svo sjálfur á sjöunda degi til að ráða ykkur af dögunum.

Glímt við hinstu rök tilverunnar

Meðal stofnenda 210 Rottweilerhunda var Elvar Gunnarsson, sem notar listamannsnafnið Hr. Kaldhæðinn. Hann stofnaði síðar rappsveitina Afkvæmi guðanna með félaga sínum og þeir hafa til að mynda flutt pólitíska texta, meðal annars gegn stríðsrekstri í Írak. Þar á bæ hafa menn líka glímt við hinstu rök tilverunnar:

Ég fékk bréf frá Guði skrifað með ósýnilegu bleki

Gat þó ekki greint rithöndina skrifað með

óskiljanlegu letri

Sá síðar að það var fullt af stafsetningarvillum

bréfið var lýsing af honum klæddan einræðis-

herransskikkju

Hvernig hann gat leitt mig og tekið mínar ákvarðanir

Hvernig hann fyrirgefur mér það sem ég gerði honum eintómar ásakanir

Hvernig það væri einhver annar sem sýnir mér

freistingar

Í daglegu lífi, kvenhold, eign annarra og vínveitingar

Í textum Rottweilerhundanna er oft að finna vísanir í áfengisneyslu og kvennafar, mikið rætt um rommkokteila og lauslætisdrósir, beyglur, og í þeim er víða sótt fanga, vísað í barnabækur og -leikrit, gamla söngtexta og íslenskar glæpasögur. Alla jafna tekst hljómsveitinni vel upp að skapa nýjan hugmyndaheim, en of snemmt er að segja til um hvort hér eigi eftir að myndast textalegur menningarkimi líkt og erlendis þar sem sumir textar eru ekki nema samansafn almennra rappfrasa. Pólitísk afstaða textahöfunda er nokkuð áberandi á plötum hljómsveitarinnar og þá hörð vinstrimennska sem á þó meira skylt við anarkíska róttækni, enda eru menn líka gagnrýndir á vinstri vængnum.

Róttækni er reyndar alláberandi í textum margra íslenskra rappsveita og vekur að vissu leyti athygli því pólitík er jafnan víðsfjarri í íslenskum rokktextum. Dæmi um pólitíska texta er til að mynda lagið Jihad á plötu Rottweilerhundanna, en þar er að finna þessa setningu: "Vestrænt frelsi er að mega segja hvað sem er meðan enginn heyrir það," sem á sér samsvörun í orðum Ice-T í Morgunblaðsviðtalinu forðum: "Menn leggja einungis áherslu á að ég hafi rétt til að tala, en í því felst að það skipti ekki máli sem ég er að segja, bara að ég hafi rétt til að segja það."

Verður til séríslenskur rappstíll?

Eins og getið er hafa íslenskir rappsmiðir þurft að fara eigin leiðir í að skapa séríslenskan rappstíl og svo er einnig með bófarappið; það hljómar ekki trúverðugt að menn séu að chilla í Breiðholtinu með byssu í vasanum, krakk í pípunni og beyglur upp á arminn. Það er þó ýmislegt sem hægt er að amast yfir, meðal annars peningamál, og svo er það krytur milli rappara, sem er jafnan vinsælt yrkisefni, sjá eftirfarandi dæmi úr laginu Þú skuldar með XXX Rottweilerhundum, Erpur yrkir:

Í íslensku hipphoppi þá geturðu bara tapað

það er eins og lána Lalla Johns pening, þú færð ekkert

til baka menn bara taka

án þess að þakka fyrir sig og sína

en ég ver það sem mér ber eins og Palestína

svo gegn mér áttu ekki séns eins og Taívan gegn Kína

tilgangslaust eins og spila með teninga upp á tyrkneska peninga

ég er ekki maðurinn svo ekki benda

það er ekki mér að kenna

að tippið á mér sé lengra

en ferill Stuðmanna

Þó ekki sé til á Íslandi eiginlegt fátækrahverfi og ekki sífelldir skotbardagar eigum við þó okkar bófarapp eins og sannaðist með fyrstu breiðskífu Móra, sem sendi frá sér plötu á síðasta ári með svo svæsnum textum að mönnum stóð ekki á sama. Plötunni var gríðarvel tekið, ekki síst fyrir áreynslu- og æsingalausan textaflutning, og fyrir vikið vöktu mergjaðir textarnir enn meiri ógn og ótta:

Ég er steiktasti mannfjandi

á þessu landi

stundum er það blessun

oftast vandi

ekki halda að mér standi á sama

mér finnst ekkert gaman

að vera alltaf til ama

en hey

jafnvel Dalai-Lama hefur sína galla

þótt hann hafi þá fáa

en ég sé með þá alla.

Móri á einnig þá góðu línu sem yfirskrift þessarar samantekar er fengin úr:

og þótt ég þegi

þá fær ekkert því breytt

að ef íslenskan er notuð rétt þá verður tungan

hárbeitt

Íslenskt rapp og íslenskt hiphop er enn að mótast og óljóst hvort það á eftir að ná þeim þroska að til verði sameiginlegur hugmyndasjóður sem menn eru ófeimnir við að sækja í. Rapptextasmiðir eru misjafnir, sem vonlegt er, en þeir bestu eru vissulega prýðileg skáld, hafa vald á sterku líkingamáli, kunna það góða íslensku að þeir geta leyft sér að teygja á málinu og sveigja það að hugmyndunum sem þeir eru að tjá. Víst njóta þeir ekki enn sömu virðingar og þeir sem bókmenntafræðingar kalla skáld, en skáldin öfundast út í þá fyrir gróskuna, hugrekkið og ekki síst áhrifin sem textar þeirra hafa.

arnim@mbl.is