Dr. Ólafur R. Dýrmundsson
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson fæddist árið 1944. Hann lauk doktorsprófi í sauðfjárrækt frá Wales árið 1972. Ólafur starfaði við Bændaskólann á Hvanneyri í 5 ár, frá árinu 1972. Árið 1977 hóf hann störf hjá Bændasamtökum Íslands þar sem hann gegnir nú starfi landsráðunautar í lífrænum búskap og landnýtingu. Hann hefur nú umsjón með markaskrám í þriðja sinn. Ólafur er giftur Svanfríði S. Óskarsdóttur bókasafnsfræðingi og eiga þau fjögur börn.
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson fæddist árið 1944. Hann lauk doktorsprófi í sauðfjárrækt frá Wales árið 1972. Ólafur starfaði við Bændaskólann á Hvanneyri í 5 ár, frá árinu 1972. Árið 1977 hóf hann störf hjá Bændasamtökum Íslands þar sem hann gegnir nú starfi landsráðunautar í lífrænum búskap og landnýtingu. Hann hefur nú umsjón með markaskrám í þriðja sinn. Ólafur er giftur Svanfríði S. Óskarsdóttur bókasafnsfræðingi og eiga þau fjögur börn.

SENN hefst undirbúningur nýrra markaskráa sem áætlað er að komi út um land allt fyrir næsta haust. Það eru svokallaðir markaverðir og Bændasamtök Íslands sem standa að gerð þeirra, uppsetningu og útgáfu. Dr. Ólafur R. Dýrmundsson er landsráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands.

Hvert er hlutverk slíkra markaskráa?

"Í markaskrám eru skrár yfir öll búfjármörk sem skráð eru á hverjum tíma. Þær eru endurbættar og endurútgefnar á átta ára fresti en hefð er fyrir slíkum skrám frá því seint á 19. öld. Í kjölfar þeirra gefa Bændasamtökin einnig út svokallaða landsmarkaskrá. Mörkum hefur farið heldur fækkandi en þó eru enn á skrá yfir 17.000 mörk í landinu. Þau eru flest sauðfjár- og hrossamörk og í fáeinum tilvikum eru nautgripir markaðir. Markaskrárnar eru mjög góðar heimildir um það hverjir eiga mörkin og eru vísbending um það hverjir eiga sauðfé og jafnvel hross."

Hverjir annast undirbúning markaskráa?

"Markaverðir sjá um að safna saman mörkum en einn slíkur er í hverju svokölluðu markaumdæmi. Þeir eru ætíð tiltækir við að skrá mörk, bæði við gerð nýrra skráa og eins á mili þeirra. Markaverðir sjá einnig um að koma í veg fyrir óleyfilegar sammerkingar."

Hafa orðið breytingar á mörkun sauðfjár?

"Mörkunin er byggð á fornum grunni og eitt af því fáa sem ekki hefur breyst á Íslandi í aldanna rás. Hún tengist náið afréttaskipulagi okkar sem er best þekkt fyrir göngur og réttir. Það er nauðsynlegt að eyrnamerkja féð þar sem það er rekið til fjalls og blandast þar af leiðandi saman. Plötumerking úr plasti eða málmi er seinni tíma þróun sem við viljum gjarnan að bændur noti. Þá er gert gat í eyrað og platan sett í líkt og eyrnalokkur. Á eyrnamörkunum hefur helst orðið sú breyting að nú marka menn í auknum mæli með töngum en ekki hnífum. Mörkun hefur verið aflögð víðast hvar erlendis nema helst í Færeyjum og á Bretlandi. Færeysku mörkunum svipar til þeirra íslensku en þau eru byggð á sama norræna grunninum."

Hvað reglur gilda um mörkun sauðfjár?

"Í fyrsta lagi er öllum skylt að eyrnamarka lömbin á vorin og það skal gert, eins og segir í lögununum "eigi síðar en í tólftu viku sumars". Bændur marka yfirleitt lömbin strax eftir fæðingu, áður en þeir sleppa fénu. Skýrar reglur eru um hvaða mörk má nota og eru myndir af þeim í markaskránum. Sum mörk eru ekki notuð lengur þar sem að þau þóttu mikil særingarmörk eða mörg hnífsblöð eins og sagt er eða þá að þau voru mjög ógreinileg. Ég hvet menn til þess að að draga úr notkun soramarka og reyna jafnvel að finna sér smærri mörk. Það verður auðveldara eftir því sem mörkum og fjáreigendum fækkar. Sökum sauðfjársjúkdómavarna þarf að gæta þess að ekki sé sammerkt, þ.e. að sama mark sé ekki notað á tveimur nálægum stöðum. Viss ákvæði segja til um það hversu langt bil skuli vera á milli sammerkinga. Það væri t.d. heimilt að hafa sama markið í Borgarfjarðarsýslu og á Austurlandi. Mörk eru einnig eign manna og þess eru dæmi að þeir selji eða gefi mörk séu þau góð. Það er gengið hart að því að hvert einasta lamb sé eyrnamerkt. Í réttunum á haustin koma alltaf fram nokkur lömb sem eru ómerkt. Helgi ærnar sér lömbin geta menn eignað sér þau. Ef ekki er skylda að slátra þeim ásamt öðru óskilafé sem kemur til af sauðfjárveikivörnum. Það er því miður af sem áður var að ómerkingar séu seldir í réttunum. Á seinni árum hefur það komið fyrir að bændur hafa talið sér trú um að þeir þyrftu ekki eyrnamerkja sem er hinn mesti misskilningur og gróft lögbrot. Í göngum og réttum reynir mikið á mörkin og eru sumir hverjir mjög glöggir á mörk og þekkja gríðarlegan fjölda þeirra. Það lítur út fyrir að eyrnamerking verði notuð um ókomna framtíð. Hún er enn mikils virði íslenskum sauðfjárbúskap og þáttur í íslenskri menningu."

Hefur skráin notið vinsælda?

"Margir hafa haft ánægju af Landsmarkaskránni og eins af því að safna markaskrám. Arnór Guðlaugsson úr Kópavogi, sem nú er látinn, hafði t.d. safnað markaskrám frá upphafi og voru Bændasamtökin svo lánsöm að hann gaf samtökunum veglegt safn sitt. Þá hafa menn gaman af að safna mörkum, markakóngur markaskrárinnar á ein tuttugu mörk. Það er þó ekki algengt enda flestir bændur með um þrjú mörk að meðaltali. Mörk er einnig hægt að skrá þótt viðkomandi eigi ekki fénað. Stundum þegar ættingjar falla frá og erfingjar ætla ekki að halda áfram búskap eru þeir tregir við að láta mörkin frá sér. Þetta sýnir að mörkin hafa ekki einungis eignalegt heldur líka ákveðið tilfinningagildi."