27. ágúst 2003 | Bílablað | 432 orð | 4 myndir

Bræður, feðgar, mæðgin og feðgin

Elsa Kristín Sigurðardóttir er útskrifuð úr Húsmæðraskólanum, leikur á trompet í Lúðrasveit Grafarvogs og er aðstoðarökumaður föður síns, Sigurðar Óla Gunnarssonar.
Elsa Kristín Sigurðardóttir er útskrifuð úr Húsmæðraskólanum, leikur á trompet í Lúðrasveit Grafarvogs og er aðstoðarökumaður föður síns, Sigurðar Óla Gunnarssonar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eru hæfileikar og áhugi fyrir akstursíþróttum arfgengt fyrirbæri? Þessu veltir Páll Halldórsson fyrir sér þessa dagana.
Sá sem þetta skrifar hefur oft velt því fyrir sér hvort þeir hæfileikar og áhugi sem akstursíþróttamenn hafa, séu í genunum. Í því sambandi má nefna bræður, systur, feðga, mæðgin og feðgin. Sennilega eru þekktastir bræðra hér á landi þeir Jón og Ómar Ragnarssynir, sem óku í rallkeppnum um árabil og oftast til sigurs. Nú hafa bræðurnir og synir áðurnefnds Jóns, þeir Rúnar og Baldur, verið mjög áberandi í akstursíþróttaheiminum hér á landi síðustu ár og auðvitað þeir feðgar saman og oftast þá Rúnar og Jón.

Einnig hafa börn Ómars sýnt hæfni sína fyrr á árum í aksturkeppnum og ekki má gleyma henni frú Helgu Jóhannsdóttur eiginkonu Ómars, sem sýndi það og sannaði að kvenkyns ökumenn eru ekki síðri en karlarnir. Úlfar Eysteinsson stórkokkur er búinn að vera lengi viðloðandi rallkeppnir og er enn að.

Finnast seint þeir menn sem virðast hafa jafngaman af íþróttinni. Guðný dóttir hans hélt um nokkurt skeið uppi heiðri kvenna undir stýri keppnisbíla. Sigurður Óli Gunnarsson, (stundum kallaður Siggi Síðasti meðal vina sinna), ekur þetta árið á nokkuð öflugri Toyotu og vonandi fær hann annað viðurnefni sem fyrst. Hefur Elsa dóttir hans verið með sem aðstoðarökumaður í nokkur ár. Þorsteinn McKinstry er gömul rallkempa sem hefur nú á þessu ári komið aftur til leiks eftir að hafa verið burt frá sportinu í allnokkur ár. Bróðir hans Þórður og sonurinn Guðmundur hafa verið að reyna fyrir sér í sumar sem aðstoðarökumenn. Allir ralláhugamenn muna eftir dalabóndanum Erni sem keppti mörg ár á Trabant með ótrúlegum árangri.

Ægir sonur hans hefur haft óþrjótandi áhuga á sportinu og mætt með marga óvenjulega bíla til leiks.

Út í hinum stóra heimi þar sem keppt er til heimsmeistara þekkjum við nöfn bræðra eins og Schumacher í formúlunni, Mcrae í rallinu en þeir Colin og Alister eru kannski í kunnuglegri stöðu, en Jimmy pabbi þeirra var einn af fremstu rallökumönnum Bretlands fyrr á árum. Frá Noregi koma bræður sem heita Petter og Henning Solberg. Þeir eru báðir úrvals ökumenn og sennilega er "Pétur frændi okkar" hugsanlegur heimsmeistari á næstu árum, en hann ekur fyrir Subarukeppnisliðið. Til gamans má geta að pilturinn sá arna var víst hér á Íslandi á dögunum í brúðkaupsferð, ef marka má fréttir af Rally.is.

Eflaust eru fleiri einstaklingar sem greinarhöfundur man ekki eftir nú, en getur þó staðfest að ung börn þeirra akstursíþróttamanna sem hann þekkir hafa svo sannarlega þessa bakteríu. Íslenskt mótorsport þarf því ekki að gjalda þess í framtíðinni að geta ekki blómstrað þess vegna. Hins vegar mættu stjórnvöld sjá sóma sinn í að koma upp almennilegri aðstöðu fyrir þetta fólk.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.