Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins lætur úr höfn í Grundarfirði. Bæjarbúar kvöddu það með virktum.
Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins lætur úr höfn í Grundarfirði. Bæjarbúar kvöddu það með virktum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÖRYGGISMÁLIN eru í fyrirrúmi í Grundarfjarðarhöfn, en þar hafa einnig verið miklar framkvæmdir undanfarin ár og er aðstaðan við höfnina með því bezta sem gerist.

ÖRYGGISMÁLIN eru í fyrirrúmi í Grundarfjarðarhöfn, en þar hafa einnig verið miklar framkvæmdir undanfarin ár og er aðstaðan við höfnina með því bezta sem gerist.

"Við leggjum mikla áherzlu á öryggismálin hér við höfnina," segir Hafsteinn Garðarsson hafnarvörður í samtali við Verið. "Við vorum til dæmis fyrsta höfnin sem gaf út sérstaka öryggishandbók fyrir hafnir. Siglingastofnun hefur stuðzt við þessa bók okkar og nú stendur til að lögleiða notkun slíkra bóka fyrir allar hafnir ásamt öryggisplani sem við höfum einnig sett upp fyrstir manna. Við tókum svo upp þá venju fyrir nokkrum árum að lána pollunum björgunarvesti þegar þeir koma á bryggjuna að veiða.

Átta metra dýpi

Það hafa verið miklar framkvæmdir hjá okkur en fyrir þremur árum byrjuðum við á stækkun á norðurgarðinum. Hann hefur verið lengdur um 100 metra og dýpi við hann er átta metrar við stórstraumsfjöru. Við bryggjuna er 4.000 fermetra steypt plan og hefur það gjörbreytt allri aðstöðu hjá okkur, til dæmis fyrir gámaflutninga og fleira. Þá hefur þetta leitt til fjölgunar skemmtiferðaskipa hér. Nú er síðasta skip ársins hérna og það er hið áttunda í sumar. Í fyrra voru skipin fimm og þrjú árið þar áður. Við bjóðum upp á góðar aðstæður og þess vegna koma stóru skipin.

15.000 tonn í fyrra

Þetta skapar líka aukatekjur fyrir höfnina en fiskiskipum hefur fækkað. Það er þó nokkuð um aðkomuskip á haustin og veturna sem eru þá aðallega að fiska í gáma. Það var landað um 15.000 tonnum af fiski hérna í fyrra, en 16.000 tonnum árið þar áður og það var langstærsta árið hérna. Það sem af er þessu ári er það nokkru minna. Nú bætast við um 1.200 tonn við kvóta heimamanna á nýja fiskveiðiárinu, en á móti töpum við skelinni. Það er töluvert áfall fyrir byggðarlagið. Fiskiðjan Skagfirðingur er því eingöngu að vinna rækju og hefur svo verið frá áramótum. Það er ýmist unnið af heimabátum eða innflutt iðnaðarrækja. Svo eru Soffanías Cecilsson hf. og Guðmundur Runólfsson hf. með stöðuga og góða fiskvinnslu allt árið nema yfir blásumarið, þegar lokað er. Svo það er töluvert að gera. Auk þess eru hér tveir litlir verkendur og loks eru hér að hefjast veiðar og vinnsla á beitukóngi. Það er mjög líflegt hjá okkur á haustin og veturna og það skapast af því hvað við erum með góða þjónustu hérna. Það er flutningafyrirtæki á staðnum, við bjóðum upp á ís, hér er þjónusta við fiskileitar- og siglingatæki og allt er þetta á góðu verði," segir Hafsteinn Garðarsson.