29. ágúst 2003 | Baksíða | 287 orð | 5 myndir

Gamlar búðir blómstra enn

Gamlar búðir

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
GAMLAR búðir með sögu og upprunalegt nafn eru nokkrar í miðborginni. Hver kannast ekki við Eymundsson, Guðstein, Bernhöftsbakarí og Liverpool, að ekki sé talað um Lífstykkjabúðina eða Andrés?
GAMLAR búðir með sögu og upprunalegt nafn eru nokkrar í miðborginni. Hver kannast ekki við Eymundsson, Guðstein, Bernhöftsbakarí og Liverpool, að ekki sé talað um Lífstykkjabúðina eða Andrés?

Fullt verslunarfrelsi frá einokunarverslun Dana komst á hérlendis á árunum 1854-1855, en nokkurt frelsi fékkst fyrr. Í bókinni Íslenzk verslun eftir Vilhjálm Þ. Gíslason frá 1955, kemur fram að í Reykjavík var Knudtzonsverzlun elst, stofnuð 1792 en Knudtzon þessi stofnaði fyrsta brauðgerðarhúsið í Reykjavík sem Daníel Bernhöft stjórnaði og er grunnur hins góðkunna Bernhöftsbakarís, sem talið er að sé elsta starfandi verslun í Reykjavík, stofnuð árið 1834.

Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar á sér eins og Bernhöftsbakarí langa sögu og hefur gengið í gegnum miklar breytingar en verslunin var stofnuð á áttunda áratug nítjándu aldar. Annað fyrirtæki er gengið hefur í gegnum miklar breytingar frá stofnun, heitir nú TVG-Zimsen og er flutningafyrirtæki, en rætur þess liggja allt til ársins 1894 þegar Jes Zimsen stórkaupmaður hóf rekstur verslunar í Reykjavík.

Um og upp úr aldamótunum 1900 stofnuðu Íslendingar verslanir í auknum mæli og enn er t.d. starfandi Jón Sigmundsson skartgripaverslun á Laugavegi sem var stofnuð árið 1904. Kjörbúðin Vísir er einnig meðal elstu starfandi verslana í Reykjavík og fleiri eiga sér langa sögu.

Á tímum innflutningshafta og gjaldeyrisskorts á krepputímum og fram eftir liðinni öld, voru klæðskerar á meðal þeirra sem gátu gert mikið úr litlu með því að flytja inn efni og sauma í stað þess að flytja inn tilbúin föt eins og nú. Andrés Andrésson klæðskeri og síðar Bernharð Laxdal klæðskeri voru á meðal þeirra sem ráku saumastofur og verslanir. Verslanirnar starfa enn og eru þekktar undir upphaflegum nöfnum. Á sama hátt var rekin saumastofa samhliða Lífstykkjabúðinni sem stofnuð var árið 1916, en lífstykkjasaumur er nú aflögð iðngrein.

Nöfnin þekkt að góðu 4

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.