Ferðafélagar Augnabliks á Kringilsárrana.
Ferðafélagar Augnabliks á Kringilsárrana.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skiptar skoðanir eru meðal landsmanna um Kárahnjúkavirkjun og hafa margir lagt þangað leið sína undanfarið. Gönguferð um fyrirhugað lónsstæði virkjunarinnar sannfærði þær Þóru Leósdóttur, Þuríði Einarsdóttur og Önnu Líndal um mikilvægi þeirrar náttúruperlu sem þar fer undir vatn.

Ílok júlímánaðar síðast liðins lagði hópur fólks af stað í leiðangur á vegum ferðafélagsins Augnabliks. Ætlunin var að fara í sex daga göngu um fyrirhugað lónstæði Kárahnjúkavirkjunar, suður með Jöklu (Jökulsá á Brú) frá Kárahnjúkum, meðfram Kringilsá, upp fyrir upptök hennar upp á Brúarjökul og inn á friðlandið í Kringilsárrana. Síðan hugðumst við ganga til baka yfir jökul og koma niður austan við Kverká og ganga þaðan í Grágæsadal. Í hópnum voru 35 manns, fólk með ólíkan bakgrunn, sá elsti 75 ára og tvær 14 ára stöllur voru yngstar. Sumir voru þaulvanir göngumenn, aðrir ekki. Við höfðum ólíkar hugmyndir um svæðið en áttum það sameiginlegt að vilja sjá með eigin augum landið sem hverfur.

Sól skein á bláhimni og upptakturinn á flugvelli Egilsstaða jók hjartslátt okkar og eftirvæntingu. Leiðsögumenn og frumkvöðlar að ferðinni voru þær Ásta Arnardóttir og Ósk Vilhjálmsdóttir. Hér viljum við deila með lesendum ferðasögunni og nokkrum hugrenningum ferðafélaga.

Við Kárahnjúka

Ekið var á bíl frá Egilsstöðum að stíflustæðinu. Þar var staldrað við uppi á formhreinu Sandfelli sem breytist í litla eyju ef svokallað Hálslón verður að veruleika. Gott skyggni var og vel sást inn eftir Brúardölum í átt að því svæði sem ætlunin var að ganga um. Hugur manna varð þungur og dapur við að líta þau spellvirki sem verið er að vinna á landinu. Við stíflusvæðið sameinuðust ferðafélagarnir í þögulli mótmælastöðu. Í þögninni urðu hljóðin frá stórvirkum vinnuvélum sem níddust á bjargbrúninni yfirgnæfandi. Kolsvartir fossar úr möl og grjóti runnu án afláts niður bjargbrúnina og steyptust ofan í gljúfrin. Þessi blæðandi sár voru í hrópandi andstöðu við hvítflissandi fossana, sem við upplifðum stuttu seinna þegar við gengum niður gil Sauðár. ,,Alla þessa fossa er búið að selja fyrir ál," varð einum ferðafélaga að orði í lok dagsins.

Eftir að hafa rölt á þægilegum hraða meðfram hlæjandi Sauðánni var haldið upp með Jöklu í suðurátt að Tröllagilslæk, en þar var fyrsti náttstaður. Á augabragði risu skrautlegar tjaldbúðir í víðivöxnum hlíðum. Margir í hópnum höfðu ekki gert sér grein fyrir umfangi fyrirhugaðs Hálslóns. Einn ferðafélaganna hafði meðferðis kort og hafði merkt inn á það landsvæði sem kemur til með að hverfa undir vatn. Þegar við gengum fram á hvítar stikur ofarlega í gróðursælum hlíðum vorum við minnt harkalega á umfang þess lands sem áætlað er að hverfi - óafturkræft. Gert er ráð fyrir að lónið verði 57 ferkílómetrar að stærð, en það samsvarar stærð Hvalfjarðar. Þessi tilfinning magnaðist þegar við fengum okkur kvöldgöngu og könnuðum gljúfur Jöklu neðan við Tröllagil. Þar mátti sjá mikilfenglegar stuðlabergsmyndanir og flúðir. Ofan í gljúfrinu voru einstakar bergklappir í rauðum og appelsínugulum litum, en það er sjaldgæf og ótrúleg sjón. Hér urðum við næstum steinrunnin eins og Gljúfrabúinn sem stendur hljóður sinn vörð. Við buðum honum góða nótt, meðan við máttum enn hreyfa okkur, héldum til baka og slógum okkur til rólegheita enda langt liðið á kvöld.

Gróður allt um kring

Annar dagur ferðalagsins heilsaði okkur með hlýjum sólargeislum. Fararstjórarnir vöktu mannskapinn með tvírödduðu "Mér um hug og hjarta nú", blítt sungið - er hægt að vakna á mýkri hátt? Nú skyldi iðkað morgunjóga. Að því loknu var föggum pakkað. Tók það dágóða stund enda margir ekki komnir í "allt á bakinu" gírinn. Það gerði ekkert til, enginn var að flýta sér. Það sem beið okkar var enn meiri náttúra og ekki lá henni á.

Gengið var áfram í suðurátt meðfram Jöklu og staldrað við hjá Gljúfrabúanum sem var nú orðinn eins og góður vinur. Áfram skyldi haldið í átt að Töfrafossi í Kringilsá sem reyndist breiður og kraftmikill eins og Dettifoss þótt fallhæðin sé minni. Hið dulúðuga sjónarspil í kröftugum úðanum frá fossinum var töfrum líkast. Aldursforsetinn í ferðinni skírskotaði til þess þegar virkja átti Gullfoss. "Hver einasti ferðamaður sem kemur að Gullfossi skilur eftir fjárhæð sem er arður af því að hann var ekki virkjaður. Sama myndi verða við Stóruflúð, Gljúfrabúann, Töfrafoss og fjölmarga aðra staði sem sökkva á undir lón. Svæðið er allt eins og bankainnistæða sem við getum tekið út af þegar okkur þóknast eins og við gerum daglega af Gullfossi, bara ef því yrði ekki sökkt."

Þótt við værum búin að ganga alla þessa leið þá hékk vinnuvélagnýrinn í loftinu og fylgdi okkur eins og draugur. Þessi hrópandi mótsögn, ósnortin náttúran framundan og manngerð spjöllin að baki. "Það er óhugsandi að þeir stjórnmálamenn, sem bera ábyrgð á framkvæmdunum hafi gengið um þetta svæði. Þetta er nefnilega ekki hægt að upplifa út um jepparúðu!", gall í einni á göngunni. Nú tók að rigna og vitin fylltust ilmi af gróðrinum sem var allt um kring, mosi og lyng, mjúkt undir fót. Blautt og hljótt! Við vorum fegin að koma loks í náttstað í nágrenni Þorláksmýra og Hrauköldu.

Þriðji dagur brast á og jökulganga fram undan. Veður var grámyglulegt og við í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Þegar við nálguðumst Brúarjökul fóru leiðsögumenn ítarlega yfir þau atriði sem hafa skal í huga þegar gengið er á jökli. Áð var um stund og broddar settir undir skó. Varast skyldi sprungur og halda alltaf hópinn í einfaldri röð. Hugur var í fólki þótt allir vissu að þetta yrði dálítið erfitt. Við gengum í þögn, bæði til að halda einbeitingu og til að geta betur notið umhverfisins. Eftir sjö kílómetra göngu á jökli sáum við loks inn á friðland Kringilsárrana, þar skyldi tjaldað til tveggja nátta. Það rigndi töluvert auk þess sem bætti í vindinn. Nú reyndi á kunnáttu við að tjalda, strekkja stög og bera grjót á hæla. Leiðangursmenn voru hvíldinni fegnir og bjuggu sig undir vætusama nótt, enda var hann búinn að snúa sér í norðaustan.

Friðlandið Kringilsárrani

Fjórði dagur og sólin heilsaði okkur á ný, útsýni til allra átta, hvílík fegurð! Konungur íslenskra fjalla, Snæfell, reif af sér og heiðraði okkur með ásýnd sinni í austri. Í vestri stóðu Kverkfjöllin í allri sinni dýrð og í norðri Herðubreið, drottningin sjálf. Allt þetta höfðum við fyrir augunum á göngu okkar um friðlandið Kringilsárrana þar sem við áttum heilan dag til að skoða hrauka, jökulmenjar, gróður og dýralíf. Við sáum hreindýrahjarðir og gæsir í sárum lágu í hópum við tjarnirnar.

Og þarna, mitt í dýrðinni og hamingju, þyrmir fyrirvaralaust yfir mann þyngslunum yfir því að svæðinu skuli fórnað. Það er þó ástæða til að gleðjast yfir því að í undirbúningi er stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls, sem tekur til alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum og allir stjórnmálaflokkarnir nema Sjálfstæðisflokkurinn styðja. En þó er ljóst að þetta verður þjóðgarður rúinn kórónu sinni. Einhver í hópnum minnti á sjónvarpsmynd Ómars Ragnarssonar frá því í vetur um þjóðgarða og Vatnajökul ásamt svæðinu norðan hans. Þar kemur fram að þurft hefur að hætta við virkjanir og virkjanaáform í Bandaríkjunum og Noregi sem voru komin mun lengra áleiðis en Kárahnjúkavirkjun. Svo enn er von.

Í ljósi þessa rifjaðist upp frá því í umræðunni í vetur hversu margir óvissuþættir þjaka þessa stærstu og dýrustu framkvæmd Íslandssögunnar eins og t.d. hversu traust er Impregilo? Hversu traust er bergið undir stíflustæðinu? Hversu traustar eru spár um álverð, sem Landsvirkjun byggir arðsemismat sitt á? Mun álverð örugglega snarhækka árið 2007? Vonandi, því verðið á raforkunni okkar er beintengt því. Hversu traustar eru mótvægisaðgerðirnar gegn uppblæstri og jarðvegseyðingu af völdum Hálslóns, sem ógnar öllu gróðurlendi á stórum hluta Norðausturlands? Hversu sterk er félagsgerðin og aðrar atvinnugreinar á Austurlandi að taka á móti stóriðju og öllu þessu erlenda vinnuafli? Einn nefndi Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, þar sem Kárahnjúkavirkjun kom út sem einn alversti virkjunarkosturinn á landinu vegna umhverfisskemmda. Ekki furða að Skipulagsstofnun hafi eindregið lagst gegn virkjuninni.

Hvað um ímynd Íslands? spurði einn í hópnum, og hvað um sjálfsmynd okkar? Hefðum við eignast Halldór Laxness, Kjarval, Björk án ósnortins hálendisins? Ein úr hópnum skrifaði nú eftir að við komum heim: ,,Hingað til höfum við, kynslóð eftir kynslóð greipt óbyggðirnar í undirmeðvitundina. Það að eiga ósnerta óræða stærð af víðáttu, óbyggðum, hefur verið ákveðinn hornsteinn að íslenskum þjóðarkarakter sem hefur mótast af þessari vitund um óbyggðir, þetta stóra yfirnáttúrulega svæði sem getur verið hvort heldur sem er himnaríki eða hvelvíti. Eftir því sem við dvöldum lengur á þessum yndislega stað varð tilhugsunin um að hann myndi brátt hverfa nánast óbærileg."

Beðið fyrir hálendinu

Við tókum fimmta daginn snemma. Það hafði rignt um nóttina og enn rigndi. Nú var að hafa hraðann á, vera rösk því framundan var að ganga aftur yfir jökul og var leiðin lengri en síðast. Tíu klukkustunda dagleið fram undan þar af 9 km á jökli. Við náðum fljótt að jökulbrún. Nú var að nesta sig og broddbúa.Viti menn, sólin braust fram úr skýjunum. Hún ætlaði sér greinilega að fylgja okkur yfir jökulinn. Geislar hennar yljuðu kinn og léttu lund. Gengið var í vesturátt og stefnan tekin á Grágæsadal. Upp með sólgleraugu, derhúfur og sólvörn makað á nefbrodda, kinnar og varir.

Á móti okkur streymdi ferskur svali jökulsins og óvænt gleði yfir þeim litum og formum sem ásjóna hans býður upp á. Oft var staðnæmst til að njóta og varð maður hljóður yfir rausn útsýnisins - við blöstu Kverkfjöllin, Fagradalsfjall, Herðubreið, Snæfell og öll Brúaröræfin. Við jökulrótina komum við að jökulá sem við óðum undir styrkri stjórn leiðsögumannanna og þaðan gengum við síðasta spölinn að rútunni. Ekið var inn í Grágæsadal, sem reyndist vera unaðsfagur reitur mitt í uppblásnu hálendinu, sem er svo einkennandi fyrir hálendið vestan Jökulsár á Brú. Þar hittum við fyrir Völund Jóhannesson, sem hafði dregið íslenska fánann að húni og tók okkur fagnandi með heitt á könnunni. Hann bauð hópnum að dvelja eina nótt á þessum griðastað þar sem hann hefur ræktað garð með jurtum og blómum í um 640 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar mátti m.a. finna rabarbara, stjúpur og fjólur, skessujurt og risavalmúa. Í garði sínum hefur Völundur reist um 6 fermetra bænahús í torfbæjarstíl og þangað fór allur hópurinn, sjö og sjö í einu, og bað fyrir hálendinu. Hver veit nema við verðum bænheyrð? Að góðum sið var slegið upp grillveislu um kvöldið, skrafað, rætt og sungið fram á rauðan morguninn.

Það tapa allir á virkjun

Hálendið norðan Vatnajökuls - stærstu ósnortnu víðerni Evrópu - býr yfir töfrum, líkt og Þingvellir búa yfir helgi. Þarna uppi á hálendinu er eins og náttúran ein ríki, við erum hennar börn og tilfinningin er hamingja. Þetta er hamingju-auðlind, endurnýjanleg auðlind sem er stöðugt að verða fágætari, eftirsóknarverðari og dýrmætari.

Tilgangurinn með Kárahnjúkavirkjun er að hún beri arð, en miklar efasemdir hafa komið fram um arðsemismat Landsvirkjunar. Raunsætt mat hagfræðinga, sem þó miða við forsendur Landsvirkjunar, sýnir tap upp á 40-50 milljarða. Því viljum við, sem eigendur/hluthafar í Landsvirkjun, að birt verði reglulega 6 mánaða uppgjör, líkt og gert er hjá öðrum fyrirtækjum. Ef í ljós kemur að verkefnið verður ekki arðbært og að við töpum að lágmarki 40-50 milljörðum króna skorum við á tilheyrandi yfirvöld að gefa okkur landsmönnum, eigendum hálendisins, tækifæri á að velja milli eftirfarandi kosta í þjóðaratkvæðagreiðslu:

Kostur A) Borga a.m.k. 40-50 miljarða með rafmagninu til Alcoa

eða

Kostur B) Nota hluta af þessari sömu upphæð til að rifta samningnum við Alcoa og kaupa þar með til baka það landsvæði sem selt hefur verið undir Hálslón.

Í kaupbæti munum við hlífa Norðausturlandi við náttúruhamförum og landauðn vegna uppblásturs af völdum hins 57 ferkm. lóns. Afganginn af 40-50 miljörðunum getum notað til að styðja við atvinnulífið á Austfjörðum. Til eru hugmyndir um að reisa þar háskóla, efla má ferðamennsku auk alls þess frumkvæðis sem Austfirðingar búa sjálfir yfir.

Gönguferð okkar í hjarta þessa stærsta ósnortna víðernis Evrópu hafði djúpstæð áhrif á okkur, meiri en við gátum átt von á. Hverfi þetta land, getum við vitnað um að Ísland, og þeir sem það munu byggja, mun missa mikið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Að lokum viljum við þakka Ástu og Ósk fyrir næma og skemmtilega leiðsögn.

Þessi grein er sett saman úr mörgum mismunandi greinum. Í ritstjórn voru: Þóra Leósdóttir iðjuþjálfi, Þuríður Einarsdóttir kvikmyndagerðarmaður og Anna Líndal myndlistarmaður og prófessor við Listaháskóla Íslands.