Jón Þórarinsson
Jón Þórarinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TÓNLEIKAR bassasöngvarans Kristins Sigmundssonar og Jónasar Ingimundarsonar píanóleikara í Salnum, 7. september, marka upphaf Tíbrár-tónleikaraðarinnar að þessu sinni. Tónleikarnir eru helgaðir minningu Halldórs Hansen barnalæknis og tónlistarfrömuðar.

TÓNLEIKAR bassasöngvarans Kristins Sigmundssonar og Jónasar Ingimundarsonar píanóleikara í Salnum, 7. september, marka upphaf Tíbrár-tónleikaraðarinnar að þessu sinni. Tónleikarnir eru helgaðir minningu Halldórs Hansen barnalæknis og tónlistarfrömuðar. Þeir flytja tvo stóra lagaflokka eftir Schumann, Liederkreis op. 39 og Kernerljóðin op. 35. Í Söngvasveig op. 39 er að finna nokkra af hans þekktustu söngvum. Lögin eru tólf að tölu, öll við ljóð Josephs von Eichendorf.

Í kjölfarið, eða hinn 10. september, þreyir Ástríður Alda Sigurðardóttir frumraun sína á píanó. Hún flytur verk eftir Beethoven, Bartók og Chopin. Franz Schubert verður í aðalhlutverki söngtónleika 14. september. Þeir hafa yfirskriftina Fagra veröld, hvar ert þú? Þar koma fram Renate Burtscher, sópran, Maria Bayer, alt, Bernd Oliver Fröhlich, tenór, Kurt Widmer, baríton, og Jónas Ingimundarson, píanó. Flutt verða sönglög, dúettar, tríó og kvartettar.

Tríó Nordica fagnar 10 ára afmæli sínu með tónleikum 23. september. Tríóið skipa Auður Hafsteinsdóttir, fiðla, Bryndís Halla Gylfadóttir, selló, og Mona Sandström, píanó. Þar verður Brahms-veisla; Píanótríó í c-moll op. 101 og tríó í H-dúr op. 8, Píanótríó eftir Þórð Magnússon (frumflutningur á Íslandi) og verk eftir Piazzolla.

Á tónleikum 28. september verða þrjú tónskáld í aðalhlutverkum. Sigurður Ingvi Snorrason, klarinett, Pavel Panasiuk, selló, og Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanó, flytja Tríó í B-dúr op. 11 eftir Beethoven, Tema senza variazioni eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Tríó op. 114 eftir Brahms.

Erling Blöndal, Rúdolf og Jorma Hynninen

Átta tónleikar verða í október. Hinn 5. október kl. 20 koma fram Erling Blöndal Bengtsson sellóleikari og Nina Kavtaradze píanóleikari og flytja Sónötu í A-dúr op. 69 eftir Beethoven, Sónötu í g-moll op. 65 eftir Chopin, Elegíu op. 24 eftir Fauré og Sónötu í d-moll op. 40 eftir Schostakovich. Þriðjudaginn 7. október syngur Söngkvartettinn Rúdolf með þau Sigrúnu Þorgeirsdóttur, sópran, Soffíu Stefánsdóttur, alt, Skarphéðin Þór Hjartarson, tenór, og Þór Ásgeirsson, bassa, innanborðs. Fluttar verða dægurperlur frá 20. öld eftir Bítlana, Ólaf Gauk, Sigfús Halldórsson, Magnús Eiríksson og Spilverk þjóðanna. Laugardagur 11. október verða söngtónleikar mezzósópransöngkonunnar Nönnu Hovmand. Undirleikari er Jónas Ingimundarson píanóleikari. Þau flytja íslensk sönglög og söngva eftir Heise, Nielsen, Grieg, Rangström, o.fl.

Sunnudaginn 12. október verður Sigrún Hjálmtýsdóttir gestur KaSa-hópsins og flytja þau kammertónlist og sönglög eftir Richard Strauss.

Á tónleikum 15. október verða flutt stórvirki 20. aldar. Helene Gjerris, mezzósópran, og Caput-hópurinn undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Efnisskrá: Pierrot Lunaire eftir Arnold Schönberg og Le Marteau sans Maître eftir Pierre Boulez.

19. október verða píanótónleikar með ungum píanista frá Lettlandi, Liene Circene. Flutt verður Sónata í G-dúr eftir Schubert, Rondo a capriccio eftir Beethoven, Tónar í nóttinni eftir Vasks, Ballatan í h-moll og Feneyjar og Napólí eftir Liszt.

Sunnudaginn 26. október verða ljóðatónleikar með finnska barítonsöngvaranum Jorma Hynninen. Undirleikari á píanó er Gustav Djupsjöbacka. Efnisskrá: Sönglög eftir Vaughan-Williams, Hugo Wolf, Gothoni, Rautavaara og Sibelius.

Hynninen er í hópi eftirsóttustu baritonsöngvara heims og á að baki glæsilegan söngferil. Gustav Djupsjöbacka er einnig mjög vel þekktur á sínu sviði.

Síðustu tónleikarnir í október verða föstudaginn 31. október. Þá koma fram Rússíbanarnir: Guðni Franzson, klarinett, Jón Skuggi, bassi, Kristinn H. Árnason, gítar, Matthías Hemstock, slagverk, og Tatu Kantomaa, harmonika. Rússíbanar leika bræðing af heimstónlist og nýju efni.

Fyrstu tónleikarnir í nóvember verða sunnudaginn 2. en þá verður Sónötukvöld. Greta Guðnadóttir, fiðla, og Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanó, flytja Sónötu í C-dúr KV 46d og Sönötu í A-dúr KV 526 eftir Mozart og Sónötu í A-dúr op. 100 eftir Brahms.

Sunnudaginn 9. nóvember verða kvikmyndir og leikhús í sviðsljósinu. KaSa-hópurinn flytur tónlist úr íslenskum kvikmyndum og sviðsverkum eftir Jón Ásgeirsson. Tónskáldið spjallar um verkin og tilurð þeirra. Að tónleikunum loknum mun Jón svara fyrirspurnum frá áheyrendum.

Laugardaginn 15. nóvember verður franskt-kanadískt tvíeyki við flyglana tvo í Salnum: Mélisande Chauveau og Suzanne Fournier.

Efnisskrá: Dúó nr. 1 eftir César Franck, Valsar op. 39 eftir Brahms, Sónata eftir Poulenc, Dolly Suite op. 56 eftir Fauré og Trois morceaux en forme de poire eftir Satie, Valse de la Suite eftir Tchaikovsky og Rhapsody in blue eftir Gershwin.

Signý og Garðar Thór

19. nóvember verða ljóðatónleikar systranna Signýjar Sæmundsdóttur sópransöngkonu og Þóru Fríðu Sæmundsdóttur píanóleikara. Þær flytja Söngva eftir Franz Liszt og Hugo Wolf, og söngperlur eftir Ravel, Viardot, Kilpinen og Merikanto.

Yfirskrift tónleikanna 25. nóvember er Britten fyrir tenór og hörpu. Garðar Thór Cortes tenór syngur við undirleik Elísabetar Waage hörpuleikara. Þau flytja Svítu fyrir hörpu op. 83, A Birthday Hansel op. 92, sem samið var að beiðni Elísabetar Bretadrottningar, og flokk þjóðlaga fyrir háa rödd og hörpu eftir Benjamin Britten.

Jólabarokk verður 29. nóvember. Barokkhópurinn flytur létta hátíðartónlist, svítur og sónötur. Gestur hópsins er Arngeir Heiðar Hauksson, barokkgítar, lúta, teorba. Barokkhópinn skipa Martial Nardeau, barrokkflautur, Guðrún Birgisdóttir, barrokkflauta, og Ólöf Sesselja Óskarsdóttir, viola da gamba.

Öll sönglög Jóns Þórarinssonar verða flutt fyrsta dag desembermánaðar. Flytjendur eru Auður Gunnarsdóttir, sópran, Gunnar Guðbjörnsson, tenór, Ólafur Kjartan Sigurðarson, baríton, og Jónas Ingimundarson, píanó.

KaSa-hópurinn býður til jólaveislu 14. desember, þar sem leiknar verða sígildar perlur og jólalög.

Gestur hópsins er Skólakór Kársness undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur.

Sigurbjörn Bernharðsson fiðluleikari og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari flytja fiðlusónötur Brahms á síðustu tónleikum ársins 18. desember: Sónötu nr. 1 í G-dúr op. 78, Sónötu nr. 2 í A-dúr op. 100 og Sónötu nr. 3 í d-moll op. 108.

Fjallað verður um vordagskrá Salarins síðar.