Rekstur Blönduvirkjunar hefst REKSTUR Blönduvirkjunar hefst með formlegum hætti klukkan fimm í dag þegar Jóhannes Nordal stjórnarformaður Landsvirkjunar ræsir fyrsta hverfil af þremur í rafaflsstöðinni.

Rekstur Blönduvirkjunar hefst

REKSTUR Blönduvirkjunar hefst með formlegum hætti klukkan fimm í dag þegar Jóhannes Nordal stjórnarformaður Landsvirkjunar ræsir fyrsta hverfil af þremur í rafaflsstöðinni.

Framkvæmdir við virkjunina hófust 1984, með jarðgangagerð og var þá stefnt að því að rekstur gæti hafist haustið 1988. Vegna breyttra markaðsaðstæðna var stíflugerð og niðursetningu véla frestað og gangsetning ákveðin í byrjun október 1991.

Hornsteinn var lagður að virkjuninni fyrir rúmu ári. Hún 150 megavött að afli þegar allir hverflarnir hafa verið teknir í notkun, í mars á næsta ári. Áætlaður heildarkostnaður við Blönduvirkjun miðað við verðlag á miðju þessu ári er 13,2 milljarðar króna.

Um næstu áramót verður önnur vél tilbúin til notkunar og hin þriðja í mars á næsta ári. Stjórn og forstjóri Landsvirkjunar, Halldór Jónatansson, verður viðstödd er hverfillinn verður ræstur, en stjórnina skipa Alfreð Þorsteinsson, Árni Grétar Finnsson, Finnbogi Jónsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Gunnar Agnars, Páll Gíslason, Páll Pétursson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.