5. október 1991 | Innlendar fréttir | 393 orð

Ríkisútgjöld lækka um 5 milljarða að raungildi Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir

Ríkisútgjöld lækka um 5 milljarða að raungildi Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, sem lagt var fram á Alþingi á miðvikudag, eiga tekjur ríkissjóðs að verða 106,4 milljarðar króna samanborið við 101,9 milljarða króna í endurskoðaðri áætlun fyrir...

Ríkisútgjöld lækka um 5 milljarða að raungildi Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, sem lagt var fram á Alþingi á miðvikudag, eiga tekjur ríkissjóðs að verða 106,4 milljarðar króna samanborið við 101,9 milljarða króna í endurskoðaðri áætlun fyrir yfirstandandi ár. Heildargjöld verða 110,1 milljarður og halli á ríkissjóði því 3,7 milljarðar. Útgjöld ríkisins lækka um 5 milljarða króna að raungildi á næsta ári og einnig er áætlað að skatttekjur, metnar á föstu verðlagi, verði ívíð lægri en á þessu ári. Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs er áætluð 4 milljarðar á næsta ári.

Forsetinn heimsækir Írland

Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands fór í sína fyrstu opinberu heimsókn til Írlands í vikunni. Í Írlandi dvaldi hún í þrjá daga í boði Mary Robinson sem kjörin var forseti fyrir tæpu ári.

Tjón af völdum veðurs

Óveður sem gekk yfir landið á fimmtudag olli tjóni víða á Norður- og Vesturlandi. Gömul beinamjölsverksmiðja á Siglufirði hrundi og rafmagns- og símasambandslaust varð í bænum um tíma. Beiðni SAS hafnað

Samgönguráðuneytið hefur hafnað beiðni SAS um sex nátta fargjald til Norðurlanda á sama verði og Flugleiðir bjóða fyrir þriggja nátta helgarferðir. Birgir Þorgilsson ferðamálastjóri og formaður flugeftirlitsnefndar segir að ekki megi gleyma að hér sé einungis eitt íslenskt flugfélag sem haldi uppi ferðum alla daga árið um kring og tillit beri að taka til þess.

Segja sig úr útvarpsráði

Tveir sjálfstæðismenn, þeir Magnús Erlendsson og Friðrik Friðriksson, sögðu sig úr útvarpsráði til að mótmæla þeirri ákvörðun menntamálaráðherra, Ólafs G. Einarssonar, að skipa Heimi Steinsson í embætti útvarpsstjóra en ganga fram hjá Ingu Jónu Þórðardóttur formanni útvarpsráðs.

Alþingi í einni málstofu

Forseti Íslands Vigdís Finnbogadóttir setti Alþingi Íslendinga á þriðjudag. Þingið er 115. löggjafarþing og sem slíkt hið fyrsta sem starfar í einni málstofu.

Útboð á olíuviðskiptum undirbúið

Fjármálaráðuneytið áformar að bjóða út kaup á olíuvörum fyrir ríkisstofnanir og fyrirtæki og hefur Innkaupastofnun ríkisins verið falið að vinna gögn til útboðs sem á að geta farið fram fljótlega.

Erlendar skuldir 58% af landsframleiðslu 1995

Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1992 kemur fram að samkvæmt spá um aukningu erlendra skulda fram til ársins 1997 nær hlutfall þeirra af landsframleiðslu hámarki 1995 eða 58%. Hæst hefur þetta hlutfall orðið árið 1985 er það náði 53%. Án strangasta aðhalds í ríkisfjármálum og peningamálum almennt gæti hlutfall erlendra skulda af landsframleiðslu náð 70% árið 1995.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.