Kristinn Magnússon sundkappi.
Kristinn Magnússon sundkappi.
KRISTINN Magnússon, sjósundkappi úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, synti á laugardag frá Vestmannaeyjum til lands á rúmum fjórum klukkustundum. Leiðin sem Kristinn synti, úr Heimaey upp í Bakkafjöru í Landeyjum er um 14 kílómetrar.

KRISTINN Magnússon, sjósundkappi úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, synti á laugardag frá Vestmannaeyjum til lands á rúmum fjórum klukkustundum. Leiðin sem Kristinn synti, úr Heimaey upp í Bakkafjöru í Landeyjum er um 14 kílómetrar.

Kristinn lagðist til sunds af Eiðinu í Vestmannaeyjum klukkan 12.50 og náði landi við Bakka klukkan 15.55. Kristinn synti skriðsund allan tímann, var heppinn með veður fyrri hluta leiðarinnar en það versnaði í sjóinn á seinni hlutanum en þá var ölduhæð orðin 1,5 metrar.

Kristinn sagði í samtali við Morgunblaðið að sundið hefði verið erfitt fyrsta klukkutímann, á meðan hann hafi verið að róa sig niður, vitandi hvað langt væri eftir. Síðan hafi hann ekki velt þessu mikið fyrir sér og verið orðinn hluti af náttúrunni.

Guðlaug eiginkona Kristins fylgdi honum og færði honum næringu á tuttugu mínútna fresti og hvatti hann til dáða alla leið. Drakk Kristinn þrjá lítra af vatni á leiðinni en léttist engu að síður um 6 kíló á sundinu, að því er fram kemur í tilkynningu félaga Kristins að sundafrekinu loknu.

Háhyrningavöður sveimuðu kringum bátana tvo sem aðstoðarmenn Kristins voru á þegar sundið var um það bil hálfnað. Héldu þeir sig í um 50 metra fjarlægð en nærvera þeirra hafði ekki áhrif á sundkappann sem reyndar hafði ekki hugmynd um félagsskapinn. Auk háhyrninga var töluvert af marglyttum á leiðinni.

Nokkurt brim var við land sem hafði engin áhrif á sundið. Var Kristinn þreyttur að sundi loknu en að öðru leyti við hestaheilsu. Kristinn var alveg búinn að ná sér í gær en sagðist þó enn vera með harðsperrur.

Kristinn sagði að nú hefði hann náð öllum þeim markmiðum sem hann hafi sett sér síðasta sumar og væri hættur sjósundum í bili enda sæi hann ekki hvernig hann gæti toppað sjálfan sig, eins og hann komst að orði.

Síðast var þetta sund þreytt 1961 er Axel Kvaran synti milli lands og Eyja og þar áður Eyjólfur Jónsson tveimur árum fyrr.