Samlokur eru hluti af daglegu mataræði margra Íslendinga enda fátt einfaldara en að smyrja brauðsneið með áleggi. Hins vegar vill bregða við að hugmyndaflugið fái ekki að njóta sín við samlokugerðina og hún verði nokkuð einhæf.

Samlokur eru hluti af daglegu mataræði margra Íslendinga enda fátt einfaldara en að smyrja brauðsneið með áleggi. Hins vegar vill bregða við að hugmyndaflugið fái ekki að njóta sín við samlokugerðina og hún verði nokkuð einhæf. Þær Heiða Björg Hilmisdóttir og Bryndís Eva Birgisdóttir hafa nú bætt úr því. Þær eru báðar menntaðir næringarfræðingar og segjast hafa fengið þá hugmynd fyrir þremur árum að kominn væri tími til að efla hugmyndaflugið við samlokugerðina. Hins vegar komust þær að því að engin bók var til sem hentaði þörfum þeirra í þessum efnum. "Samlokur eru fljótlegur matur og þær geta verið fullgild máltíð. Fólk er hins vegar oft að kaupa sér skyndibita þegar það hefur í raun allt sem þarf í eldhúsinu til að búa til góðar samlokur. Með bókinni viljum við hvetja fólk til að elda sjálft, það fer fram mikilvægt starf í öllum eldhúsum landsins. Hver sá sem er að búa til mat er í ábyrgðarstöðu. Því fylgir líka gleði og hamingja, hvort sem maður eldar einn fyrir sjálfan sig, fjölskyldu eða vini," segja þær Heiða og Bryndís.

Þær hafa áhyggjur af því að fólk sé stundum að temja sér lífsstíl undir því yfirskini að hann sé "hollur" en sé það í raun ekki þegar betur er skoðað. "Það er kannski heppni að þessi bók skuli koma út núna þegar Atkins-kúrar eru mikið í umræðunni. Það er ekki lífsstíll sem fólk á að temja sér," segja þær.

Í bókinni má finna mikinn fjölda af uppskriftum. Samlokur sem henta jafnt sem hversdagsmatur eða veislumatur og sérkafli er um samlokur fyrir börn. "Það þarf ekki að vera flókið að búa til góðar samlokur og því viljum við reyna að gefa fólki hugmyndir um hvernig megi brydda upp á nýjungum. Markmiðið var að gera bók eins við viljum hafa bækur."

Samlokubók Heiðu og Bryndísar er fáanleg í öllum verslunum Hagkaupa.

Taj Mahal

(fyrir fjóra)

400 g kjúklingakjöt

½ paprika, skorin í bita

½ rauðlaukur, skorinn í sneiðar

½ banani, skorinn í sneiðar

½ avókadó, skorið í bita

8 dl blandað salat, skorið í strimla

½ dl saltaðar jarðhnetur

Sósa

1 dl 10% sýrður rjómi

1 tsk sterkt karrí eða karrí Bombay

2 msk eplamús eða chutney að eigin vali

Blandið saman karríi og sýrðum rjóma ásamt chutney og eplamús. Blandið öðrum hráefnum vel saman í aðra skál. Setjið salatið í pítubrauð og setjið sósuna yfir. Heiða og Bryndís segja þetta vera frábæran partírétt í litlum pítubrauðum og góðan rétt í veisluna.