18. september 2003 | Minningargreinar | 195 orð | 1 mynd

ARI GUÐMUNDSSON

Ari F. Guðmundsson fæddist í Reykjavík 18. september 1927. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 6. september síðastliðinn og var útför hans gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík 15. september.

Kæri pabbi, með ást og virðingu vil ég kveðja þig í síðasta sinn. Þú munt alltaf lifa í huga mínum fyrir það hve traustur og yfirvegaður þú varst. Ég leitaði oft til þín og þú mættir mér með skilningi. Þú varst sem klettur í hafinu sem alltaf var hægt að stóla á.

Nú er þessi klettur horfinn og allt í einu er fótfestan ekki sú sama og áður, en nú er komið að mér að standa á eigin fótum og lifa lífinu til fulls eins og þér lánaðist að gera.

Í dag er afmælisdagur þinn. Við gleðjumst vegna dagsins í sameiningu þó tveir heimar skilji okkur að.

Í dagsins önnum dreymdi mig

þinn djúpa frið, og svo varð

nótt.

Ég sagði í hljóði: Sofðu rótt.

Þeim svefni enginn ræni þig.

En samt var nafn þitt nálægt

mér

og nóttin full af söngvaklið

svo oft, og þetta auða svið

bar ætíð svip af þér.

Og þungur gnýr sem hrynji höf

mitt hjarta lýstur enn eitt sinn:

Mín hljóða sorg og hlátur þinn,

sem hlutu sömu gröf.

(Steinn Steinarr)

Guð geymi þig elsku pabbi minn.

Þín

Vilborg.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.