Spurning: Fólki með háan blóðþrýsting er ráðlagt að borða ekki lakkrís. Utan á sykurlausum ópalpakka er talað um lakkrískjarna og langar mig að vita hvort það hefur sömu áhrif og lakkrís á háþrýsting.

Spurning: Fólki með háan blóðþrýsting er ráðlagt að borða ekki lakkrís. Utan á sykurlausum ópalpakka er talað um lakkrískjarna og langar mig að vita hvort það hefur sömu áhrif og lakkrís á háþrýsting.

Svar: Úr lakkrísrót, sem er rót jurtarinnar Glycyrrhiza glabra, er unninn lakkrískjarni sem er notaður í ýmsar vörur, m.a. lakkrís. Lakkrísrót hefur lengi verið notuð sem náttúrumeðal við hálsbólgu, hósta, verkjum, svefnleysi og ýmsum fleiri kvillum. Fornar heimildir um slíka notkun er m.a. að finna frá Kína. Í lakkrískjarna er efni sem nefnist glýcýrrhinsýra og hefur áhrif á sterahormón líkamans. Þessi áhrif breyta starfsemi nýrnanna þannig að þau skilja út minna af vatni og matarsalti en meira af kalíum. Þetta getur leitt af sér hækkaðan blóðþrýsting og kalíumskort.

Lakkrískjarna er að finna í ýmsum vörum og fyrir utan lakkrísstangir, lakkrískonfekt og apótekaralakkrís má nefna ópal, maltöl og sumar tegundir af tyggigúmmíi, munntóbaki, tei, hóstamixtúrum og ýmsu fleira. Magnið af lakkrískjarna í þessum vörum er mjög mismikið og erfitt að henda reiður á því, þó er magnið mest í apótekaralakkrís. Lengi hefur verið vitað að dagleg neysla á miklu magni af lakkrís getur hækkað blóðþrýstinginn og var þá um að ræða daglega neyslu sem svarar til 100-200 g af venjulegum lakkrís. Nýlega hefur komið í ljós að þessi áhrif eru mjög einstaklingsbundin og hjá viðkvæmum einstaklingum getur blóðþrýstingurinn hækkað verulega við neyslu á litlu magni af lakkrís, jafnvel magni sem er minna en 50 g á dag. Einnig hefur komið í ljós að þeir sem eru með háan blóðþrýsting eru miklu viðkvæmari fyrir lakkrís en aðrir og blóðþrýstingurinn hækkar mun meira hjá þeim eftir lakkrísneyslu en hjá þeim sem eru með eðlilegan blóðþrýsting fyrir og eru ekki á lyfjum við háum blóðþrýstingi. Í þessum rannsóknum kom einnig fram að konur eru viðkvæmari en karlar og fundu fyrir meiri óþægindum en karlarnir. Lýst hefur verið tilfellum þar sem hraust fólk fékk alvarlegan háþrýsting og ýmiss konar óþægindi, eftir stöðuga lakkrísneyslu í nokkurn tíma, og var lakkrísmagnið stundum mjög hóflegt. Þetta undirstrikar að forðast ætti stöðuga neyslu á vörum sem innihalda lakkrískjarna og þeir sem eru með háan blóðþrýsting ættu að halda sig alveg frá slíkum vörum. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að neysla heilbrigðs fólks á lakkrís, eða öðrum vörum með lakkrískjarna, sé á nokkurn hátt varasöm ef hún er hófleg og ekki á hverjum degi.