"...verð hlutabréfa (og skuldabréfa) flökta oft án sýnilegrar skýringar; slíkar verðsveiflur geta orðið töluverðar. Augljósasta dæmið var svarti mánudagurinn, þegar, án nokkurra sérstakra frétta, hlutabréfamarkaðurinn féll um 23 prósent.
"...verð hlutabréfa (og skuldabréfa) flökta oft án sýnilegrar skýringar; slíkar verðsveiflur geta orðið töluverðar. Augljósasta dæmið var svarti mánudagurinn, þegar, án nokkurra sérstakra frétta, hlutabréfamarkaðurinn féll um 23 prósent. Hagfræðingar komust síðar að þeirri niðurstöðu að miðað við sögulegt flökt á hlutabréfum, væru litlar líkur á því að markaðurinn félli einhvern daginn það mikið þótt hann hefði verið opinn hvern einasta dag frá upphafi alheimsins. Í raun, þrátt fyrir að líftími alheimsins væri endurtekinn milljarða sinnum, væri slíkt hrun á einum degi fræðilega ólíklegt. (Jackwerth og Rubinstein, bls. 72, When Genius Failed).

23. september, 1998, fundarstaðurinn stjórnarherbergi Seðlabankans í New York og þar voru mættir stjórnendur allra helstu fjármálastofnana í Bandaríkjunum og Evrópu. Mánuðina áður hafði gengi hlutabréfavísitalna verið smám saman að falla. Áhrifin höfðu aukist um miðjan ágústmánuð þegar tilkynnt var að ekki yrði staðið við afborganir á rússneskum ríkisskuldabréfum, að sinni í það minnsta, vegna bágborins ástands á efnahagslífinu þar. Þó svo að vissulega væri það áhyggjuefni þá virtist hið mikla fall ekki vera í neinu ósamræmi við það sem gengur og gerist reglulega á hlutabréfamörkuðum. Því var það undarlegt að sjá yfirlýsingar fyrr í þeim mánuði frá hinum þekkta fjárfesti, George Soros, um að fjármálaheimurinn stæði frammi fyrir mestu ógn í marga áratugi. Þó svo að verðbréfamarkaðir hefðu tekið kollsteypu var efnahagurinn í Bandaríkjunum í góðri uppsveiflu, ólíkt ástandinu þegar hrun verðbréfamarkaða hófst árið 1929, en þá hafði samdráttur verið hafinn nokkru fyrr. Soros hafði hins vegar undir höndum ákveðnar mikilvægar upplýsingar sem voru ástæður fundarins þann daginn. Stærsti vogunarsjóður heims var á barmi gjaldþrots og afleiðingarnar gætu haft ófyrirséð áhrif á fjármálakerfi heimsins.

Saga vogunarsjóðsins, Long-Term Capital Management (LTCM), er viðfangsefni bókarinnar When Genius Failed - The Rise and Fall of Long-Term Capital Management eftir Roger Lowenstein. Vogunarsjóðir eru almennt aðeins fyrir vel efnaða einstaklinga. Þeir falla almennt ekki undir lög varðandi fjárfestingarstefnu enda er hlutverk þeirra almennt stöðutökur sem iðulega eru í þá áttina að hagnast á breytingum markaða og samspili ýmissa afurða þeirra en ekki endilega að gengi hlutabréfa eða skuldabréfa hækki. Eins og orðið felur í sér taka slíkir sjóðir oftast stöður í þeim tilgangi að minnka tapáhættu. Ef ein stöðutaka fer í ranga átt, minnkar önnur stöðutaka tapið og þannig er jafnvægi á voginni haldið (afar góð íslensk þýðing, á ensku er orðið á slíkum sjóðum hedge-fund, dregið af orðinu hedge sem þýðir limgerði. Hugtakið vísar í að rétt eins og limgerði afmarka garða, er áhætta afmörkuð með stöðutökum). Ekki er óalgengt að slíkir sjóðir taki lán umfram það fjármagn sem þeir hafa frá fjárfestum til að magna áhrif hagnaðar, en slíkt eykur þó áhættustig sjóðsins.

Saga When Genius Failed hefst með stofnanda sjóðsins og yfirmanns þess, John Meriwether. Hann var yfirmaður stöðutökudeildar Salomon Brothers og var hagnaður fyrirtækisins að mestu kominn frá þeirri deild. Hann þurfti hins vegar að segja upp starfi sínu árið 1991 í kjölfar þess að einn starfsmaður hans hafði gróflega brotið lög varðandi uppboð ríkisskuldabréfa. Meriwether, eða J.M. eins og hann var almennt kallaður, ákvað í framhaldi af því að kalla saman bestu samstarfsmenn sína og bæta auk þess við bestu sérfræðingum sem völ var á í afleiðufræðum fjármagnsmarkaða. Þeir settu saman fjárfestingarstefnu sem einblíndi aðallega á misvægi markaða á ýmsum fjármálaafurðum. Þeir notuðu nær eingöngu reiknilíkön við að finna fjárfestingartækifæri, sem voru einnig undirstaða fjárfestingarákvarðana þeirra. Árið 1994 tókst J.M. að koma á fót vogunarsjóðnum LTCM og safnaði fáheyrðri upphæð fyrir slíka viðskiptaáætlun, eða $1,25 milljörðum. Gengi sjóðsins var strax betra en björtustu spár höfðu gert ráð fyrir. Í kjölfar mikillar velgengni jókst áhættuþor stjórnenda LTCM. Í árslok 1995 var eigið fé LTCM orðið $3,6 milljarðar, en eignir þess rúmir $100 milljarðar. Með öðrum orðum, félagið var orðið skuldsett um 28 sinnum eigið fé. Árið 1996 var hagnaður sjóðsins $2,1 milljarður, eða sem nam tæplega 60 prósent ávöxtun, sem var meira en fyrirtæki eins og McDonald´s, Disney, eða Gillette högnuðust. Þrátt fyrir mikinn hagnað hrönnuðust upp vandamál, þó að ekki væru þau á þeim tímapunkti auðsjáanleg. Fjárfestingartækifærum sjóðsins fóru stöðugt fækkandi. Sjóðurinn hafði hagnast með frekar auðveldum hætti á þeim misvægjum fjármálamarkaðarins sem reiknilíkön þeirra grófu upp. Eins var sjálfsöryggi þeirra manna sem stóðu fremst í fjárfestingarákvörðunum LTCM orðið það mikið að þeir voru hættir að sumu leyti að fylgja því sem reiknilíkönin gáfu til kynna. Þetta leiddi til þess að fjárfestingar sjóðsins fóru æ meira inn á svið þar sem kunnátta þeirra var engu betri en meðalmanna. Auk þess tóku þeir stöðugt meiri áhættu og skelltu skollaeyrum við öllum varnarorðum. Var svo komið að stöðutökur sjóðsins í ársbyrjun 1998 voru að miklum hluta komnar til í framandi markaði þar sem lítill seljanleiki var til staðar. Auk þess lögðu þeir stóran hluta fjárfestinga sinna í að veðja á að flökt á hlutabréfamörkuðum færi minnkandi, enda höfðu gjaldeyrismarkaðir í Malasíu og Indónesíu árið áður aukið flökt markaða á efri söguleg mörk, sem líkönin vísuðu í. Um vorið fór þó að halla undan fæti, þegar að ljóst var að vandamálin í Asíu voru síður en svo enn öll komin upp á yfirborðið. Fljótlega fóru menn á markaðinum að spá í hvar næsti veiki blettur væri og var álit flestra að það væri Rússland. Þó svo að sjóðurinn tapaði fjármagni þá fyrstu sumarmánuði, tók botninn úr þegar ljóst var að afborganir rússneskra skuldabréfa kæmu til með að dragast í það minnsta á langinn. Aukið flökt og fall verðbréfa á framandi mörkuðum setti af stað keðjuverkandi hrinu sem varð til þess að virði sjóðsins lækkaði með miklu meiri hraða en líkön gáfu til kynna að væri mögulegt. Þegar vandræði sjóðsins fóru að spyrjast út í fjármálaheiminum versnaði ástandið enn frekar því enginn var tilbúinn til að kaupa markaðsbréf sem sjóðurinn átti í, vitandi að hann þyrfti hugsanlega að losa við bréfin til að fara ekki á hausinn. Þvert á móti seldu önnur fjármálafyrirtæki bréfin til að vera fyrri til, sem magnaði tap sjóðsins. Því gerðist það á aðeins fimm vikum að sjóðurinn fór úr því að vera stærsti vogunarsjóður sögunnar í það að verða gjaldþrota. Á fundinum 23. september komu fjármálastofnanir sér saman um að bjarga LTCM frá gjaldþroti til að koma í veg fyrir hugsanlegt hrun á fjármálamarkaði.

Lestur bókarinnar er svipaður spennusögu, þrátt fyrir að endalokin séu kunn. Lowenstein einblínir á sögulega þætti í stað þess að fjalla um smáatriði varðandi viðskiptasögu LTCM. Þannig verður bókin nær því að vera lestur um það hvernig mennskir menn verða helteknir af eigin ágæti frekar en af samansafni staðreynda.

mixa@sph.is