TVÆR ferðaskrifstofur, Arctic Experience í Bretlandi og Katla Travel í Þýskalandi, hafa sett á laggirnar upplýsingavefinn www.gestsauga.is. Þar er birt umfjöllun þýskra og breskra fjölmiðla um hvalveiðar Íslendinga.

TVÆR ferðaskrifstofur, Arctic Experience í Bretlandi og Katla Travel í Þýskalandi, hafa sett á laggirnar upplýsingavefinn www.gestsauga.is. Þar er birt umfjöllun þýskra og breskra fjölmiðla um hvalveiðar Íslendinga. Markmið vefjarins er að hann nýtist þeim sem vilja fylgjast með viðbrögðum umheimsins við veiðunum.

Um 20 þúsund ferðamenn koma árlega til Íslands á vegum Arctic Experience og Katla Travel. Báðar ferðaskrifstofurnar hafa mótmælt hvalveiðum Íslendinga opinberlega. Aðstandendur vefjarins telja að með hvalveiðunum sé meiri hagsmunum fórnað fyrir minni, þar sem veiðarnar hafi neikvæð áhrif á ímynd Íslands á alþjóðavettvangi og að þær muni draga úr ásókn ferðamanna til landsins.

Greinar, sem birtast á vefnum, endurspegla ekki viðhorf fyrirtækjanna til hvalveiða enda er hlutverk vefjarins einungis að miðla upplýsingum sem endurspegla afstöðu umheimsins til þessara umdeildu veiða.