Forsaga
UPPHAF Hljóma má rekja til ársins 1963 en það ár var starfandi í Keflavík Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar. Sem ungur maður hafði Guðmundur flust frá Vestmannaeyjum til Keflavíkur og stofnað þessa hljómsveit með ungum hljóðfæraleikurum í bænum.Hljómsveitin starfaði í mörg ár við miklar vinsældir, spilaði í samkomuhúsi Kvenfélags Njarðvíkur, sem gekk undir nafninu "Krossinn", og einnig fyrir varnarliðsmenn í ýmsum klúbbum á Keflavíkurflugvelli.
Eins og gengur og gerist urðu nokkrar mannabreytingar í hljómsveitinni á starfstíma hennar, en ásamt Guðmundi spiluðu menn eins og Þórir Baldursson á píanó, hann starfaði með bandinu um tíma, greinarhöfundur, Eggert V. Kristinsson (Eddi Kristins), spilaði á trommur í allmörg ár, Erlingur Jónsson (listamaður) var á kontrabassa og Einar Júlíusson sá um sönginn ásamt Engilbert Jensen. Fleiri hljóðfæraleikarar komu einnig við sögu eins og Rúnar Georgsson og Þráinn Kristjánsson, en þeir komu og fóru á stuttum starfstíma.
Ungur og upprennandi gítarleikari, afskaplega látlaus og hógvær í framkomu, bættist í hópinn síðustu tvö árin sem hljómsveitin starfaði. Þessi piltur hét Gunnar Þórðarson og spilaði hann sem rytmaleikari. Veturinn 1962-1963 var síðasta starfsár hljómsveitarinnar. Eitt sinn er við vorum að spila uppi á velli, eins og það hét í þá daga, tilkynnti Guðmundur að hann ætlaði að leggja niður hljómsveit sína. Liðsmennirnir þá voru Guðmundur á sólógítar, Gunni Þórðar á rytmagítar, ég á trommur, Erlingur Jónsson á bassa og María Baldursdóttir var söngvari þetta kvöld, en Einar Júlíusson var fastráðinn söngvari hljómsveitarinnar.
Ég var ekki sáttur við að hætta alveg að spila því spilamennskan var ástríða og óhemju skemmtileg iðja, sem borgað var vel fyrir. Ég ákveð því að stofna og setja saman aðra hljómsveit sem fyrst, svo halda mætti áfram á þessu sviði.
Sama kvöldið og Guðmundur tilkynnti þessa ákvörðun sína spurði ég Gunnar Þórðarson hvort hann vildi vera með í því að stofna aðra hljómsveit sem yrði starfhæf fyrir næsta vetur. Gunni var samstundis til í það. Við ræddum nokkuð um hvernig tónlist við vildum leggja áherslu á og vorum alveg sammála um að breyta um áherslur og spila meira af suður-amerískri tónlist. Ný tegund tónlistar hafði borist til Íslands á þessum tíma og var kölluð "Bossa Nova".
Þetta var latínutaktur sem féll okkur vel í geð svo við ákváðum að spila mikið af þessum lögum ásamt cha cha cha, sömbum, rúmbum og mambó.
Það átti sem sagt að verða áherslubreyting frá öllu rokkinu sem við höfðum spilað undanfarin ár.
Þegar ungir menn leggja upp með nýtt verkefni verða þeir að sjálfsögðu að setja sér stefnu í verkefnavali, sem við og gerðum, en þetta verkefnaval kom reyndar aldrei til framkvæmda því tíðarandinn í tónlistinni tók af okkur öll ráð. Um það höfðum við ekki hugmynd er við vorum að leggja línur með nýju hljómsveitina.
Liðskipan
Við fórum strax að horfa í kringum okkur með fleiri liðsmenn og vissum báðir af ungum og efnilegum gítarleikara sem átti heima á Brekkugötunni í Keflavík og hét Erlingur Björnsson. Við vorum sammála um að hann væri gjaldgengur í bandið. Söngvarinn Einar Júlíusson var sjálfkjörinn, því hann var okkar besti söngvari í Keflavík þá stundina.Nú vantaði okkur einungis bassaleikara til þess að mynda hljómsveitina, sem átti að vera í anda hljómsveita sem störfuðu erlendis og voru skipaðar rafmagnsgíturum, rafmagnsbassa, trommum en engu píanói, sem fram að þessu hafði ávallt verið ómissandi í hljómsveit. Þetta var því létt útgáfa af hljómsveit, skipuð ungum mönnum á aldrinum átján til tuttugu og tveggja ára og með þessu nýja sniði rafmagnshljómsveita. Að baki var hefðbundnara form af hljóðfærum, svo sem kontrabassi, píanó, klarinett og saxófónn ásamt gítar að sjálfsögðu.
Við ætluðum að hafa þetta léttara og frjálslegra í þetta sinn. Úr vöndu var að ráða með bassaleikarann, því aðeins einn slíkur var í Keflavík og var sá nokkru eldri en við strákarnir. Þetta var Erlingur Jónsson, en við vildum fá yngri mann í hans stað og fátt var um fína drætti í þeim efnum. Eitthvað vorum við að vomast með þetta mál ég og Gunni í svo sem eina viku, en þá segir Gunni allt í einu upp úr þurru: "Ég vil fá hann Rúnar Júl. vin minn í þessa hljómsveit." Ég lít á hann og segi: "Rúnar spilar hvorki á bassa né annað, hvernig leysum við það?" "Ég kenni honum bara á bassann," segir Gunni Þ. Og ég svara að bragði: "Þá tekur þú alla ábyrgð á honum og sérð um að þjálfa hann til verksins." Þá var það ákveðið.
Rúnar Júlíusson á því vini sínum Gunnari Þórðarsyni að þakka að hann varð allt í einu tónlistarmaður og settur inn í það embætti af honum þennan bjarta vordag í Keflavík árið 1963. Þar með var búið að leysa vandamálið með bassaleikarann því Rúnar var alveg til í þetta verkefni undir leiðsögn vinar síns Gunnars.
Þegar þetta er í burðarliðnum snemma vors 1963 var ekki enn komið neitt nafn á hljómsveitina. Við Gunni vorum búnir að ganga frá mannaráðningum og það var ákveðið að fara að æfa upp tónlistardagskrá eftir að ég kæmi úr sumarfríi mínu, sem var að hefjast.
Hin erlendu tengsl
Ég og frændi minn, Jón Grétar Haraldsson, höfðum verið í enskunámi í Bournemouth um sex mánaða skeið veturinn 1961 og ákváðum að fara saman til Englands í frí í lok maí 1963. Við dvöldum í góðu yfirlæti hjá vinafjölskyldum, sem við höfðum verið hjá tveimur árum áður. Þegar ég hafði verið þarna í fáeina daga vekur athygli mína plötualbúm, sem dóttir hjónana hafði nýlega keypt sér. Þetta var fyrsta 12 laga plata Bítlanna, sem hét "Love Me Do".Ég spurði stúlkuna, sem hét Diane, út í þessa plötu og hún tjáði mér að þessi hljómsveit væri einmitt að spila í Bournemouth þessa dagana. Hún spurði hvort ég vildi ekki koma og hlusta á þá? Ég skellti mér með henni á "Piers", skemmtistað við ströndina, þar sem sjálfir Bítlarnir voru að spila. Þetta var geysilega kraftmikið band, sem hafði ótrúlega sterk áhrif á alla viðstadda. Ég hreifst af hversu kröftug og taktföst tónlistin þeirra var, en ekki var auðvelt að hlusta á þá vegna mikils hávaða í ungmennunum í salnum. Bítlarnir spiluðu þarna í einar tvær vikur, en þetta var einmitt sumarið sem þeir slógu í gegn með fyrstu plötunni sem komst á topp vinsældalista popptónlistar í Bretlandi í september 1963 með laginu "She Loves You". En þarna um vorið voru þeir bara venjuleg hljómsveit að skemmta ungmennum í Bournemouth og líka bara venjuleg rokkhljómsveit í mínum augum.
Eftir þessa skemmtilegu og áhrifamiklu reynslu fór ég að hlusta á plötuna hjá Diane og kynna mér tónlistina sem þeir spiluðu. Síðan ekki söguna meir, því við Jón frændi héldum til Kaupmannahafnar, þar sem við dvöldum í nokkra daga. Við fórum m.a. á Las Vegas sem þá var vinsæll næturklúbbur og skemmtum okkur vel fram undir morgun.
Því næst fórum við til Osló og dvöldum þar í fáeina daga okkur til sárra leiðinda. Þetta var steindauð borg, sem hafði ekki margt að bjóða ferðamönnum annað en þurrt brauð af öllum tegundum og álegg. Við snerum aftur yfir til Kaupmannahafnar með ferju og flugum svo heim til Íslands.
Nafngiftin
Þegar heim kom var þráðurinn tekinn upp með nýju hljómsveitina og við fórum að æfa reglubundið nokkra daga í viku til þess að byggja upp góðan lagalista fyrir komandi vetur.Við fengum leyfi hjá Óla hreppstjóra í Njarðvíkum til þess að æfa í Krossinum. Lagavalið var fyrst og fremst rokklög frá Bandaríkjunum og Englandi og okkur gekk vel með spilamennskuna. Farið var að ræða um að við þyrftum nafn á hljómsveitina og ég stakk upp á þremur nöfnum: Strengjum, Tónum og Hljómum, og miðaði nöfnin út frá gítarnum. Við ræddum þetta lítillega í anddyri Krossins og menn voru ekki sáttir við nafngiftina Strengir eða Tónar. Rúnar Júl. var ekki sáttur við nafnið Hljómar en ég var frekar hrifinn af því, enda lipurt í muni og tengdist hljómlistarflutningi vel.
Ég stakk því upp á atkvæðagreiðslu um nafnið Hljómar og bað þá sem voru samþykkir að rétta upp hönd. Erlingur samþykkti strax, Gunni síðan og svo ég. Nafnið var því samþykkt með þremur atkvæðum samkvæmt lýðræðisreglunni.
Þá var það mál afgreitt og hljómsveitin komin með nafn sem lengi átti eftir að hljóma um landsbyggðina, en á þeirri stundu höfðum við ekki hugmynd um neitt slíkt.
Við æfðum um sumarið og eitt sinn þegar við komum saman heima hjá Rúnna Júl. rak ég augun í albúm sem ég kannaðist strax við, en það var þá Bítlaplatan Love Me Do sem Rúnar var nýbúinn að kaupa sér. Ég sagði við strákana að við yrðum að taka nokkur lög af plötunni og bæta þeim við safnið hjá okkur því ég hafði heyrt í þessum piltum áður og líkað vel. Samþykkt var að taka minnst sex lög af plötunni og við spiluðum þau síðan alltaf í syrpu.
Við litum á þessa tónlist eins og hvert annað rokk, sem passaði vel í safnið hjá okkur, og höfðum ekki hugmynd um hvaða afleiðingar það myndi hafa að flytja einmitt þessi lög á dansleikjum í framtíðinni. Okkur fannst þau einungis viðbót við það sem við vorum að byggja upp sem lagaforða fyrir komandi vetur.
Þegar líða tók á sumarið fór ég að huga að verkefnum fyrir hljómsveitina og fór á fund hjá Óla hreppstjóra í Njarðvíkum, en hann sá um rekstur á Krossinum fyrir kvenfélag Njarðvíkur sem átti þetta fyrrverandi sjúkrahús hersins frá stríðsárunum.
Óli tók mér vel og ég spurði hvort hann vantaði ekki hljómsveit fyrir veturinn til þess að sjá um tónlistina veturinn 1963-64. Hann spurði hvort við myndum ráða við það og skila því sómasamlega og ég sagði að við værum búnir að æfa vel mikið og gott lagasafn og stæðum klárir á verkefninu. Hann samþykkti að ráða okkur þennan vetur fyrir kr. 1.000 á mann á laugardagskvöldum. Við höfðum því fjögur þúsund krónur í laun á mánuði fyrir spilamennsku, en laun afgreiðslumanns í verslun voru þá 4.500 til 5000 krónur á mánuði. Ég vann einmitt sem afgreiðslu-maður í Stapafelli þetta árið og hafði þessi mánaðarlaun.
Ólafur stefndi á að byrja dansleikjahald 5. október og það varð okkar fyrsta ball í Krossinum þann veturinn. Við höfum því ávallt litið á 5. október sem upphafið á ferli Hljóma og þennan dag sem afmælisdag hljómsveitarinnar.
Við fengum að vísu eitt verkefni áður, að spila fyrir skátafélagið Víkverja í Njarðvíkum, og litum á það sem æfingadansleik, þótt þá hefðum við í raun í fyrsta sinn spilað fyrir almenning. Dansleikurinn var haldinn í litla salnum í Stapa, sem þá var í byggingu. Skátarnir höfðu þarna aðstöðu og vildu bjóða ungmennum á ball í september 1963.
Sá sem réð okkur til verksins var Sigurjón Vilhjálmsson í stjórn skátafélagsins í Njarðvíkum, en sem starfsmenn hjá Esso á Keflavíkurflugvelli þekktumst við Sigurjón ágætlega. Frítt var inn á ballið og alveg glæný hljómsveit sem spilaði: Hljómar frá Keflavík.
Starfið hefst í Krossinum
Dansleikur er auglýstur í Krossinum hinn 5. október og hljómsveitin Hljómar ásamt Einari Júlíussyni spilar fyrir dansi. Það var húsfyllir þetta kvöld, eða fjögur hundruð manns. Menn voru forvitnir að heyra í þessu nýja bandi og vita hvort strákarnir stæðu sig nú þokkalega.Það sem vakti athygli gesta þetta kvöld var samræmdur og stílhreinn klæðaburður strákanna, en þeir komu fram í glæsilegum hljómsveitarfatnaði sem samanstóð af svörtum leðurvestum með silfruðum hnöppum og rauðu baki, leðurþverslaufum, gráteinóttum Melka-skyrtum og svörtum buxum.
Þegar ég var í Englandi um vorið var ég að hugleiða þennan búning fyrir hljómsveitina og keypti því fimm Melka-skyrtur í London ásamt þverslaufunum, því þetta fékkst ekki á Íslandi í þá daga. Ég vildi hafa bandið í samræmdum klæðnaði sem stíll væri yfir. Þegar ég lagði til að við létum sauma á okkur leðurvesti sagði Rúnar að mamma sín gæti gert þetta fyrir okkur, sem hún og gerði listavel. Þannig var tilkomið þetta dress sem Hljómar byrjuðu í og störfuðu í fyrsta starfsár sitt. Fatnaðurinn var á vissan hátt tákn þess tíðaranda sem gekk í garð og gaf hljómsveitinni sterkan svip; ákveðinn, stílhreinan og glæsilegan.
Hin ensku áhrif
Þegar líða tók á fyrsta dansleik Hljóma spiluðum við lagasyrpuna með Bítlunum og fengum strax meiri viðbrögð í salnum en þegar við spiluðum venjulegt rokk. Fólk kom upp að sviðinu og bað okkur að endurtaka lögin, sem voru öll ný af nálinni. Við þurftum því að endurtaka Bítlasyrpuna einum sex sinnum þetta fyrsta kvöld og það varð til þess að við æfðum upp öll lögin á þessari nýju Bítlaplötu á næstu æfingu hljómsveitarinnar.Bítlalögin voru mikið rödduð svo við þurftum allir að taka þátt í söngnum, en Einar Júlíusson sá að öðru leyti um rokklögin ásamt bítlalögunum.
Þannig hófst bítlabylgjan, sem á eftir gekk, eins og frægt er orðið. Við spiluðum þessi bítlalög, sem við spiluðum í Krossinum 5. október 1963, um hverja helgi eftir það lengi vel. Þegar Bítlarnir slógu í gegn í september með sínu fyrsta topplagi, "She Loves Me", urðu Hljómar einfaldlega fyrstu fulltrúar bítlamenningar á Íslandi, enda farnir að flytja lögin af plötunni, sem sló svo eftirminnilega í gegn, án þess endilega að hafa haft það í huga fyrirfram. Atburðarás tíðarandans tók yfir og við í hljómsveitinni Hljómum urðum samnefnarar Bítlanna og hófumst hratt á loft sem vinsælasta popptónlistarhljómsveit allra tíma á Íslandi.
Á morgun, sunnudag, birtist annar hluti upprifjunar Eggerts V. Kristinssonar á upphafi og arfleifð Hljóma ásamt viðtali við Gunnar Þórðarson í tilefni 40 ára afmælis hljómsveitarinnar.