15. október 2003 | Innlendar fréttir | 412 orð | 1 mynd

Hlakkaði alltaf til næsta dags

Dagfinnur Stefánsson
Dagfinnur Stefánsson
"ÉG minnist þessa tíma með söknuði. Ég kunni alltaf vel við mig hjá Loftleiðum.
"ÉG minnist þessa tíma með söknuði. Ég kunni alltaf vel við mig hjá Loftleiðum. Starfsandinn hjá fyrirtækinu var alveg sérstaklega góður," segir Dagfinnur Stefánsson, fyrrverandi flugstjóri hjá Loftleiðum, og minnist orða Sigurðar Magnússonar, fyrrverandi blaðafulltrúa Loftleiða. "Einu sinni heyrði ég Sigurð segja að þegar hann legði höfuðið á koddann á kvöldin væri hann farinn að hlakka til að fara í vinnuna næsta dag. Ég get tekið undir þessi orð hans því ég hlakkaði alltaf til að fara í vinnuna næsta dag á meðan ég vann hjá Loftleiðum."

Síldarleitin skemmtilegust

Dagfinnur viðurkennir að ánægjulegasta starfstímabilið hjá fyrirtækinu hafi verið við síldarleitina. Ég tók þátt í fyrstu síldarleitinni minni sumarið 1946," segir hann og bætir við að síldarleitarsumrin hafi samtals orðið fjögur eða fimm. "Við vorum bara með sjóvélar og leituðum að síld fyrir flotann fyrir norðan land frá því um miðjan júní fram í september. Á meðan vorum við með bækistöðvar á Miklavatni í Fljótum."

Dagfinnur segir flugstjórana óneitanlega hafa orðið vara við að reksturinn gengi stundum brösulega. "Stundum fengum við ekki útborgað og var boðið að taka við hlutabréfum upp í launin. Sumir tóku þessu tilboði og eignuðust hlut í fyrirtækinu. Fyrir Loftleiðabyltinguna höfðum við heyrt að stjórnin væri að velta því fyrir sér að hætta rekstrinum og kaupa olíuskip. Hópurinn, með Alfreð Elíasson í broddi fylkingar, brást við með þeim hætti að sækja sér liðstyrk til að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu og ná meirihluta í stjórninni," segir Dagfinnur og tekur fram að stjórninni hafi þó ekki verið steypt með illindum. "Eftir "Loftleiðabyltinguna" svokölluðu buðum við, ég og Alfreð, Kristjáni Jóhanni Kristjánssyni, stjórnarformanni gömlu stjórnarinnar, að halda formennsku sinni í stjórninni áfram. Hann afþakkaði - líklega af tillitssemi við hina nefndarmennina í gömlu stjórninni."

Dagfinnur var aðallega í millilandaflugi á vegum Loftleiða. "Með skiptingu innanlandsflugleiðanna á milli Loftleiða og Flugfélags Íslands var Loftleiðum skorinn svo þröngur stakkur að fyrirtækið sá sér þann kost vænstan að snúa sér alfarið að millilandafluginu.

Ég flaug aðallega til Bandaríkjanna og Lúxemborgar en líka á fjarlægari slóðir, t.d. í pílagrímaflugi. Ég tók þátt í stofnun Cargolux fyrir hönd Loftleiða á sínum tíma. Loftleiðir áttu þriðjung í fyrirtækinu á móti sænska fyrirtækinu Salena og Luxair. Eftir sameininguna afskrifuðu Flugleiðir bréfin í Cargolux. Ég var ekki sáttur við þau málalok.

Ég er raunar þeirrar skoðunar að sameining flugfélaganna hafi verið mistök - sérstaklega fyrir Loftleiðir. Sameiningin var réttlætt með því að ekki væri rekstrargrundvöllur fyrir tvö flugfélög á Íslandi en nú eru fjögur flugfélög starfandi í landinu og virðist rekstur þeirra ganga vel."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.