22. október 2003 | Fólk í fréttum | 360 orð | 1 mynd

Dúndurfréttir flytja tónlist Led Zeppelin í Loftkastalanum

Algjört dúndur!

Pétur og Matti á sviði.
Pétur og Matti á sviði.
HLJÓMSVEITIN Dúndurfréttir hefur undanfarin ár gert garðinn frægan með hljómleikum þar sem þeir hafa rennt sér í gegnum sígild verk meistara eins og Led Zeppelin og Pink Floyd (þar sem þeir hafa tekið plöturnar Dark Side of the Moon og The Wall eins og...
HLJÓMSVEITIN Dúndurfréttir hefur undanfarin ár gert garðinn frægan með hljómleikum þar sem þeir hafa rennt sér í gegnum sígild verk meistara eins og Led Zeppelin og Pink Floyd (þar sem þeir hafa tekið plöturnar Dark Side of the Moon og The Wall eins og þær leggja sig). Á morgun munu þeir félagar einhenda sér í gegnum lagabálk Led Zeppelin og verða tónleikarnir í Loftkastalanum.

"Þetta virðist nú bara ætla að verða vinsælla með árunum," segir Matti, einn meðlima Dúndurfrétta þegar blaðamaður spyr hvort þetta sé alltaf jafnvinsælt hjá þeim. Í fréttatilkynningu frá Dúndurfréttum er vísað í hið virta rit Rolling Stone þar sem blaðið lýsir því yfir að Dúndurfréttir séu besta Led Zeppelin/Pink Floyd heiðrunarband í heimi. Blaðamaður spyr nú bara hreint út, er fótur fyrir þessu?

"Já, já," segir Matti. "Þetta var í einhverju sumarblaði þeirra árið 1997. Það var smáúttekt á Gauknum þar sem staðurinn var búinn að keyra tónleikakvöld upp á hvern einasta dag í tíu ár. Við vorum svo heppnir að vera að spila þegar blaðamaður frá Rolling Stone rak inn nefið. Og hann lýsti þessu yfir. Sem er auðvitað frábært."

Er það kannski of langt gengið að gefa út plötu, einungis með tökulögum, er pæling sem borin er undir Matthías. Hann svarar því til að þeir hafi ekki hugleitt það sérstaklega. Segir hlæjandi að það væri örugglega ekki sniðugt markaðslega séð.

"Við erum samt búnir að fullgera þrjár plötur. Ein er blönduð tökulagaplata, svo erum við með eina Dark Side og eina Wall klárar. Frábærar upptökur allt saman en alls óvíst er með útgáfu. Síðan erum við líka með frumsamið efni tilbúið."

Matti segir sposkur að bandið hafi nú verið stofnsett á sínum tíma svo meðlimir gætu skrifað á sig bjór á Gauknum. Hann hafi nú ekki séð fram á að þetta myndi endast svona lengi. En kann hann einhverjar skýringar á þessum miklu vinsældum þessarar efnisskráar?

"Ég held að fólk hafi bara gaman af því að heyra þessa tónlist flutta á tónleikum. Þetta er auðvitað frábært efni. Ég held að það saki ekki heldur að við höfum alveg óskaplega gaman af þessu sjálfir."

Um tvenna tónleika er að ræða. Þeir hefjast kl. 20.00 og kl. 22.30. Miðaverð er 2.300 kr.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.