AFHENDING friðarverðlauna Nóbels hefur verið gagnrýnd en verðlaunin hlaut lögfræðingurinn Shirin Ebadi fyrir áratuga baráttu sína fyrir lýðræði og mannréttindum í Íran.

AFHENDING friðarverðlauna Nóbels hefur verið gagnrýnd en verðlaunin hlaut lögfræðingurinn Shirin Ebadi fyrir áratuga baráttu sína fyrir lýðræði og mannréttindum í Íran. Áður en Nóbelsnefndin tilkynnti val sitt var talið af mörgum að Jóhannes Páll II páfi ætti góðar líkur á því að hljóta verðlaunin. Lech Walesa, fyrrverandi friðarverðlaunahafi og forseti Póllands, fer fremstur í flokki þeirra sem gagnrýna nefndina fyrir að veita páfa ekki verðlaunin. Walesa telur að páfi eigi að fá Nóbelsverðlaunin fyrir baráttu sína fyrir friði og bættum heimi.

Í gagnrýni stuðningsmanna páfa skín í gegn skilningsleysi á því mikilvæga starfi sem Ebadi hefur innt af hendi í Íran þar sem hún hefur einkum barist fyrir mannréttindum kvenna og barna. Hún hefur sýnt pólitíska snilld í því að tengja mannréttindi við Kóraninn og íslam og þannig tekist að koma mannréttindaákvæðum í gegnum íranska þingið. Stóra spurningin er hvort Jóhannes Páll II eigi verðlaunin frekar skilið en Ebadi.

Ef farið er yfir feril páfa þá vakti barátta hans gegn ógnarstjórn kommúnista í Austur-Evrópu á 9. áratugnum verulega athygli. Stuðningur hans við Samstöðu, baráttuhreyfingu fyrir lýðræðislegum umbótum í Póllandi skipti verulegu máli fyrir hreyfinguna. Hún öðlaðist pólitískt og siðferðislegt lögmæti með stuðningi páfa enda páfi pólskur og þjóðin kaþólsk. Margir borgarar fyrrum kommúnistaríkja fundu huggun í trúnni og í sumum ríkjunum skapaði kirkjan skjól fyrir andspyrnuhópa þó að verulegar hömlur væru lagðar á starfsemi hennar.

Páfi hefur einnig verið ötull talsmaður friðar. Ræður hans fjalla oft um frið, mikilvægi þess að finna friðsamlegar lausnir í deilumálum og að undir engum kringumstæðum eigi að grípa til vopna. Jóhannes Páll II hefur verið óþreytandi að boða þennan boðskap um allan heim allt frá því að hann tók við embætti og hefur haldið því áfram þó að hann sé löngu farinn af heilsu. Hann hefur verið talsmaður friðsamlegrar lausnar í deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna og reynt að miðla málum í fjölmörgum stríðsátökum í heiminum. Það vekur því nokkra umhugsun hvers vegna Nóbelsnefndin veitir páfa ekki heiðurinn og verðlaunar hann fyrir frammistöðu sína fyrir friði í heiminum. Hvers vegna er það?

Ástæðan er einföld. Þegar grannt er skoðað ber Jóhannes Páll II páfi mjög takmarkaða virðingu fyrir grundvallarmannréttindum. Páfi fer fremst í flokki þeirra innan kaþólsku kirkjunnar sem vilja endurvekja hið íhaldssama miðaldasamfélag þar sem mannréttindi voru mjög takmörkuð. Páfi talar til dæmis ítrekað gegn auknum mannréttindum kvenna og samkynhneigðra og hefur með stefnu sinni gegn notkun getnaðarvarna stuðlað að því að alnæmi er stærsta ógnin sem mörg þróunarríki standa frammi fyrir í dag.

Afstaða páfa í garð kvenna er umhugsunarefni. Hann hefur ítrekað lýst andstöðu sinni gegn því að konur ráði yfir líkama sínum og geti farið í fóstureyðingu. Fulltrúar kaþólsku kirkjunnar í mörgum ríkjum ganga jafnvel svo langt að meina konum um fóstureyðingu þó að getnaðurinn komi til vegna nauðgunar. Páfi er alfarið á móti hjónaskilnuðum en skilnaðarrétturinn er einkar mikilvægur konum sem þurfa að brjótast undan ofbeldisfullum eiginmönnum. Jóhannes Páll II er einnig óþrjótandi við að tala gegn notkun getnaðarvarna en aukið frelsi kvenna á síðustu áratugum byggist m.a. á getu þeirra til að stjórna barneignum sínum. Páfagarður gerir allt hvað hann getur til að koma í veg fyrir fræðslu um kynlíf, getnað og barneignir í þróunarríkjunum og hefur með því komið í veg fyrir að fólk í þessum ríkjum hafi aðgang að upplýsingum sem okkur á Vesturlöndum þykir sjálfsagt. Páfi er alfarið á móti því að konur verði prestar og það þarf ekki að hafa mörg orð um viðhorf hans gagnvart þeim konum sem eru lesbíur.

Páfi hefur ítrekað lagst gegn því að samkynhneigðir njóti grundvallarmannréttinda. Páfi hefur gengið svo langt að fordæma samkynheigð og samkynhneigða og stefna hans gengur út á að hommar og lesbíur skuli ekki vera viðurkennd af samfélaginu. Samkynhneigð er synd að mati páfa og þess vegna skulu þeir sem telja sig vera samkynhneigða leita sér lækninga. Jóhannes Páll II tekur með þessu undir þá vitlausu hugmynd að hægt sé að afhomma eða aflesbía samkynhneigða. Athafnir fylgja orðum páfa í þessu sem og öðru. Páfi hefur ekki látið nægja að fordæma samkynhneigða heldur hefur Páfagarður undir hans forystu ítrekað blásið til herferða gegn auknum réttindum samkynhneigðra. Þessa dagana stendur Páfagarður fyrir herferð gegn rétti samkynhneigðra til að ganga í hjónaband.

Stefna Jóhannesar Páls II páfa gagnvart alnæmi er þó einna alvarlegust. Páfi talar ítrekað gegn notkun hvers konar getnaðarvarna, þar á meðal notkun smokksins. Kaþólskum prestum er skylt að fylgja þessum boðskap páfa með hrikalegum afleiðingum í mörgum þróunarríkjum. Páfi hafnar öllu tali um að smokkurinn geti komið í veg fyrir alnæmissmit og þvertekur fyrir það að láta af andstöðu sinni við notkun hans. Afleiðingarnar eru vægast sagt skelfilegar, sérstaklega í þeim ríkjum Afríku sem fylgja boðskap páfa. Stefna Páfagarðs gerir það að verkum að erfitt er að uppfræða almenning í þessum ríkjum um smitleiðir alnæmis og ómögulegt er á mörgum stöðum að tala fyrir notkun smokksins og þannig að koma í veg fyrir alnæmissmit. Þessu ræður helst tepruskapur páfa gagnvart kynlífi utan hjónabands. Páfagarður leggst jafnvel gegn notkun smokksins í sambandi hjóna þar sem annar aðilinn er smitaður af alnæmi en hinn ekki. Andstaða páfa við notkun smokksins hefur leitt til þess að milljónir manna eru í dag smitaðir af alnæmi. Flestir þeir sem smitaðir eru í þriðja heiminum deyja þar sem viðeigandi læknisaðstoð og lyf fást ekki. Heilu samfélögin eru í rúst þar sem stór hluti ungs fólks í þeim er smitaður af alnæmi og bíður fátt annað en veikindi og dauði.

Við nánari athugun er því boðskapur páfa ekki einn allsherjar heilagur friðarboðskaður. Í honum kristallast fyrirlitning á tilteknum þjóðfélagshópum, andstaða við mannréttindi og algert skeytingarleysi um afdrif fólks. Það er því nokkuð augljóst að mínu mati hvers vegna Jóhannes Páll II páfi fékk ekki friðarverðlaun Nóbels að þessu sinni. Ég vona að sænska Nóbelsnefndin beri gæfu til þess að veita honum ekki friðarverðlaunin svo lengi sem hann heldur uppteknum hætti að berjast gegn grundvallarmannréttindum og réttindum fólks til að verja sig gegn alnæmissmiti.

BALDUR ÞÓRHALLSSON