"Ég hugsa mér gott til glóðarinnar að vera meira með fjölskyldunnni og svo má ekki gleyma því að ég á stóran og góðan vinahóp," segir Anna Einarsdóttir í tengslum við starfslokin í bókabúðinni að ári.
"Ég hugsa mér gott til glóðarinnar að vera meira með fjölskyldunnni og svo má ekki gleyma því að ég á stóran og góðan vinahóp," segir Anna Einarsdóttir í tengslum við starfslokin í bókabúðinni að ári.
Anna Einarsdóttir var vart komin á táningsaldur þegar hún fékk sumarvinnu í Bókabúð Máls og menningar í fyrsta sinn. Eftir áratugastarf sér hún nú fram á að hætta störfum í búðinni að ári. Anna G. Ólafsdóttir fékk nöfnu sína, Önnu Einarsdóttur, til að líta yfir farinn veg.

REYKVÍSKIR bókaunnendur hafa löngum sett jafnaðarmerki á milli Önnu Einarsdóttur og Bókabúðar Máls og menningar á Laugavegi 18 og ekki að ástæðulausu. Anna hóf störf í bókabúðinni á unglingsaldri. Hún hefur verið deildarstjóri, framkvæmdastjóri í Bókaverslun Snæbjarnar þegar hún var í eigu Máls og menningar, séð um sölu á íslenskum bókum til útlanda fyrir Mál og menningu og verslunarstjóri á Laugaveginum. Samfylgd Önnu við Mál og menningu hefur þó varað lengur en flesta grunar eða allt frá fyrstu tíð.

Hjartað og heilinn

"Þú getur vel sagt að ég sé fædd og uppalin í Máli og menningu," segir Anna kankvís þegar við nöfnurnar erum búnar að koma okkur vel fyrir í gluggasætum á kaffihúsinu Súfistanum í húsakynnum Máls og menningar á Laugavegi 18. "Faðir minn, Einar Andrésson, var yngri bróðir Kristins E. Andréssonar og starfaði með honum í fyrirtækinu frá fyrstu tíð. Kristinn var lengst af framkvæmdastjóri fyrirtækisins og pabbi umboðsmaður. Hann fór með áskriftarbækur bókaútgáfunnar til félagsmanna og seldi aðrar útgáfubækur fyrirtækisins.

Bræðurnir voru alltaf mjög samrýndir og höfðu mikla samvinnu. Ég held að aldrei hafi verið tekin ákvörðun um að gefa út bók án samráðs við pabba. Kristinn var afskaplega góður maður - greindur og hæglátur. Pabbi var léttari á brún - glaðlegur og hvers manns hugljúfi. Jóhannes úr Kötlum segir í afmælisgrein um pabba sextugan: Hafi eldri bróðirinn verið heilinn á bakvið Mál og menningu var yngri bróðirinn hjartað," segir Anna. "Mér hefur alltaf þótt mjög vænt um þessi orð.

Pabbi og mamma voru orðin fullorðin þegar þau eignuðust mig - sitt eina barn. Ég fékk oft að skottast með föður mínum í vinnunni. Mál og menning varð fljótt stór hluti af mínu lífi eins og hún var stór hluti af lífi foreldra minna. Fyrst þegar ég man eftir mér var búðin til húsa hér handan götunnar á Laugavegi 19," segir Anna og bendir út um gluggann á grátt bárujárnshús þar sem veitingahúsið Indókína er til húsa. "Húsið hefur lítið breyst frá því á þessum tíma. Þrepin upp á fyrstu hæðina voru þó utanhúss. Mál og menning átti báða stóru gluggana vinstra megin við innganginn. Hinum megin var verslun sem hét Grótta. Mál og menning var flutt upp á Skólavörðustíg 21 árið 1952. Það var fyrsta sumarið sem ég var í fastri sumarvinnu.

Með vaxandi umsvifum Máls og menningar jókst þörfin fyrir stærra húsnæði. Faðir minn var framkvæmdastjóri hlutafélags um húsbygginguna hér á Laugavegi 18. Hlutafélagið Vegamót keypti upp þrjú hús, Laugaveg 18, Vegamótastíg 3 og 5. Hingað flutti verslunin í aprílmánuði árið 1961."

"Ég man ekki eftir að mér hafi verið strítt þótt vissulega hafi verið svolítið erfitt að vera kommabarn á þessum tíma," svarar Anna þegar hún er spurð að því hvernig hafi verið að alast upp á jafn vinstrisinnuðu heimili og raun bar vitni í kalda stríðinu. "Heimili okkar hafði ákveðna sérstöðu, t.d. var Þjóðviljinn ekki keyptur á heimilum vinkvenna minna. Inni á heimilinu bjuggu foreldrar móður minnar, Jófríðar Guðmundsdóttur frá Helgavatni í Þverárhlíð. Þau keyptu Tímann. Foreldrar mínir keyptu líka Morgunblaðið um tíma. Pabbi sagði blaðinu upp af því að hann varð svo reiður yfir fréttaflutningnum af átökunum á Austurvelli í tengslum við inngönguna í Nato hinn 30. mars árið 1949," rifjar hún upp. "Auðvitað var oft heitt í kolunum á þessum tíma.

Einu atviki get ég sagt þér frá," heldur Anna áfram. "Ég átti góða vinkonu í Kleppsholtinu. Fjölskylda hennar var gott og gilt sjálfstæðisfólk. Foreldrarnir bjuggu á hæðinni og amman í kjallaranum. Amman þekkti ömmu mína því að þær höfðu flutt á mölina á svipuðum tíma. Hún reykti pípu og sat oft með pípuna í þvottahúsinu því að hún vildi ekki reykja inni í íbúðinni. Nema hvað - einhvern tíma þegar við vorum hjá henni niður í kjallara sagði hún við mig: "Aldrei get ég skilið að hann Einar skyldi verða kommúnisti eins og hann var góður við hana mömmu sína." Þessi orð urðu mér algjörlega ógleymanleg. Ég vissi auðvitað að það þætti slæmt að vera kommúnisti en að það væri svona slæmt grunaði mig ekki."

Anna gekk í Laugarnesskóla og seinna í Kvennaskólann. "Kvennaskólinn þótti mjög góður skóli á þeim tíma," segir Anna. "Á meðan ég var í skólanum vann ég í Máli og menningu í öllum fríum. Ég var ung þegar ég eignaðist börnin mín fjögur og vann í bókabúðinni eins og ég gat á milli barneigna. Eftir að börnin voru komin dálítið á legg fór ég í fulla vinnu.

Áður en Penninn keypti Bókabúðir Máls og menningar hafði ég minnkað svolítið við mig vinnu. Stuttu eftir eignaskiptin var mér boðinn starfslokasamningur. Samkvæmt honum vinn ég hálfan daginn í búðinni þar til ég hætti alveg 1. september á næsta ári."

Gagnrýnni með árunum

Hefur þú aldrei íhugað að taka þér eitthvað annað fyrir hendur? "Nei, mér hefur alltaf fundist ég vera í góðu starfi. Ég hef líka unnið með mörgu mjög skemmtilegu og góðu fólki í gegnum tíðina. Mig langar sérstaklega til að nefna Esther Benediktdóttur, yndislega samstarfskonu mína í mörg, mörg ár. Hvert tímabil í bókabúðinni hefur sinn sjarma. Mér hefur alltaf fundist jólabókatörnin skemmtilegust. Það er svo gaman að fylgjast með því þegar nýju bækurnar eru að koma út.

Á sama hátt hef ég notið þess að fá að hjálpa fólki að velja bækur fyrir sig sjálft eða aðra. Ég les ekki eins mikið og ég las áður þó ég lesi töluvert. Skáldsögur, ljóðabækur og ævisögur er það sem ég hef mest gaman af. Ég hef líka orðið gagnrýnni með árunum og svo hefur maður minni tíma! Ef bók höfðar ekki til mín eftir fyrstu 20 blaðsíðurnar hendi ég henni frá mér og gríp aðra."

Samúð með ljóðskáldum

Anna er ekki lengi að svara því hvaða rithöfund hún haldi mest upp á. "Halldór Laxness hefur alltaf verið uppáhalds rithöfundurinn minn. Ég á erfiðara með að gera upp á milli bókanna hans. Ætli mér finnist ekki Íslandsklukkan best. Heimsljós er önnur uppáhalds bók. Ég skældi yfir örlögum Ljósvíkingsins þegar ég var ung. Núna er ég að lesa Brekkukotsannál fyrir 7 ára dótturson minn sem gistir oft hjá mér. Við erum að lesa um Álfgrím og klukkuna sem sagði "Eilíbð," segir Anna og brosir. "Ég kynntist Halldóri Laxness fyrst þegar ég var lítil stelpa. Ætli ég hafi ekki verið svona 12 ára þegar ég kom fyrst að Gljúfrasteini.

Ég kynntist auðvitað fleiri rithöfundum en Halldóri Laxness í gegnum foreldra mína, t.d. Þórbergi Þórðarsyni, Guðmundi Böðvarssyni og Stefáni Jónssyni. Ég las allar bækur Stefáns Jónssonar um leið og þær komu út. Ólafur Jóhann Sigurðsson og Gunnar Benediktsson voru góðir vinir foreldra minna. Jóhannes úr Kötlum og Sigfús Daðason voru lengi samstarfsmenn mínir í húsinu og áfram mætti telja. Ekki má heldur gleyma því að á meðan bókaútgáfan var til húsa hér á Laugavegi 18 fóru allir höfundarnir hérna í gegn. Ég held að mér sé óhætt að segja að ég sé málkunnug þeim flestum.

Af því að við erum farin að tala um rithöfunda verð ég að fá að minnast á ljóðskáldin. Ég hafði alltaf svolitla samúð með ungu ljóðskáldunum. Þegar þeir drógu feimnislega upp úr fórum sínum ljóðin sín og óskuðu eftir að koma þeim á framfæri.

Svo komu hingað skáld eins og Dagur Sigurðarson og Jónas Svafár til að falast eftir aur fyrir kaffibolla. Steinn Steinarr kom oft í búðina uppi á Skólavörðustíg. Hann hefur væntanlega komið oftar en ella því að bróðir hans, Hjörtur Kristmundsson, bjó á efri hæðinni. Hjörtur kenndi skrift í Laugarnesskóla."

Af erlendum höfundum segist Anna aðallega hafa kynnst norrænum rithöfundum. "Ég get nefnt sænsku rithöfundana Söru Lidman, Göran Tunström og Torgny Lindgren sem ég held mikið upp á. Af öðrum erlendum höfundum verð ég að fá að minnast á Isabellu Allende. Hún kom hingað á vegum Bókmenntahátíðar og Máls og menningar fyrir allmörgum árum. Allende er í mínum huga ákaflega heillandi kona og ógleymanleg upplifun að heyra hana segja frá. Hún er ótrúleg sagnakona eins og kemur vel fram í bókunum hennar."

Bókamessan árangursrík

Anna hefur í gegnum tíðina tekið að sér ýmis bókaverkefni utan búðar, t.d. sá hún um bókamarkaði Félags íslenskra bókaútgefanda í mörg ár og ljóðabókasafn Bessastaða í forsetatíð Vigdísar Finnbogadóttur.

Þá sá Anna um sýningar á íslenskum bókum í bókabúðum í Ósló, Helsinki og Stokkhólmi í tengslum við opinberar heimsóknir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, til Norðurlandanna.

"Pabbi átti sæti í stjórn Máls og menningar til 1974 - ég tók við sæti hans í stjórninni árið eftir. Ég sit enn í stjórn bókaútgáfu Máls og menningar," segir Anna og viðurkennir að sum tímabil hafi reynst henni erfiðari en önnur í stjórninni. "Mér fannst erfitt að ganga í gegnum þær breytingar sem orðið hafa hjá Máli og menningu undanfarin ár."

Anna hefur séð um þátttöku Íslands í bókasýningunni í Gautaborg. "Ég var komin með tengsl við forsvarsmenn hátíðarinnar þegar þeir komu hingað til að óska eftir því við íslensk stjórnvöld að Ísland yrði í sviðsljósinu á hátíðinni árið 1990. Svavar Gestsson, þáverandi menntamálaráðherra, samþykkti erindið og skipaði nefnd um þátttöku Íslendinga á hátíðinni þetta ár. Ég var skipuð formaður nefndarinnar. Með mér í nefndinni voru Sigrún Valbergsdóttir frá menntamálaráðuneytinu og Lars Åke Engblom, þáverandi forstjóri Norræna hússins.

Ég held að mér sé óhætt að segja að framkvæmdin hafi tekist mjög vel. Flest íslensku forlögin tóku þátt í hátíðinni. Héðan fóru hátt í 30 rithöfundar og margir útgefendur. Vigdísi Finnbogadóttur, þáverandi forseti Íslands, opnaði sýninguna við hátíðlega athöfn í Gautaborg.

Ég var kosin í stjórn bókamessunnar árið 1989. Ég sendi tillögur að svona sjö dagskrárliðum frá Íslandi á vorin. Yfirleitt hljóta svona þrjár samþykki. Ég sé líka um að setja upp bás fyrir Ísland á hátíðinni. Þórdís Þorvaldsdóttir, fyrrverandi borgarbókavörður, hefur verið einn helsti samstarfsmaður minn í tengslum við þátttöku Íslendinga í hátíðinni öll árin.

Starfið í kringum bókahátíðina hefur alla tíð verið mjög gefandi og skemmtilegt. Ég tel að öflugt kynningarstarf á íslenskum bókmenntum í Gautaborg hafi skilað sér afskaplega vel. Fjölmargar íslenskar bækur hafa verið gefnar út í Svíþjóð og á hinum Norðurlöndunum eftir kynningu á hátíðinni, t.d. var ekki farið að gefa út skáldsögur Steinunnar Sigurðardóttur í Svíþjóð fyrr en eftir að hún var kynnt í Gautaborg. Hinar Norðurlandaþjóðirnar eru ákaflega áhugasamar um Ísland og íslenska menningu. Við svörum ógrynni spurninga um Ísland á hátíðinni svo væntanlega skilar þessi kynning sér á fleiri sviðum en á bókmenntasviðinu.

Að lokum verð ég að fá að segja frá því að fjölmörg erlend bókasöfn kaupa beint af okkur íslenskar bækur, t.d. hefur Konunglega sænska bókasafnið alltaf keypt töluverðan fjölda íslenskra bóka af Máli og menningu. Svo hefur mér alltaf þótt sérstaklega gaman af því að fá að velja bækur í sérstaka Íslandsdeild borgarbókasafns borgarinnar Kuopio í Mið-Finnlandi."

Elítur í Biskupasögum

Anna segist alls ekki óttast að hafa ekki nóg fyrir stafni eftir að hún hættir að vinna þó eflaust eigi hún eftir að sakna búðarinnar, samstarfsfólksins og allra föstu viðskiptavina sinna. "Ég hugsa mér gott til glóðarinnar að vera meira með fjölskyldunnni og svo má ekki gleyma því að ég á stóran og góðan vinahóp. Ég hef alltaf haft gaman af því að ferðast bæði innanlands og utan og vona að ég geti gert sem mest af því í framtíðinni.

Ég býst við að ég haldi áfram að sækja námskeið hjá Tómstundaskólanum og Endurmenntunarstofnun Háskólans eins og ég hef gert síðustu 15 árin. Ég hef sótt námskeið Jóns Böðvarssonar í Íslendingasögunum," segir hún og er spurð að því hvort hún telji eins og fleiri að Njála sé besta Íslendingasagan. "Það er hún áreiðanlega. Hins vegar verð ég að viðurkenna að mér fannst skemmtilegast að lesa Eyrbyggju. Ég er á námskeiði í henni núna í annað sinn. Svo er ég í leshring með nokkrum góðum konum. Stofnun leshringsins kom þannig til að fyrir mörgum árum tóku nokkrir karlar af námskeiðunum hjá Jóni Böðvarssyni sig til og ákváðu að lesa Sturlungu saman. Fyrir forgöngu Vilborgar heitinnar Harðardóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Félags íslenskra bókaútgefenda og skólastjóra Tómstundaskólans, stofnuðu nokkrar konur eigin leshring undir nafninu Elíturnar. Ég er með í þeim hópi. Þessi leshringur hefur lifað góðu lífi í allmörg ár. Við komum saman og lesum upphátt hver fyrir aðra. Núna erum við t.a.m. að lesa Biskupasögur."

Góður andi

Anna er að lokum spurð að því hvað hún telji skipta mestu máli að starfsmaður í bókabúð tileinki sér. "Mér finnst skipta mestu máli að vera heiðarlegur," svarar hún hugsi. "Ef maður er heiðarlegur við viðskiptavini sína koma þeir aftur því að þeir vita að þeir geta treyst manni. Að upplifa að viðskiptavinur leitar ráða hjá manni aftur og aftur er mjög gefandi. Auðvitað er æskilegt að starfsfólk í bókabúð lesi mikið af bókum. Nú er bara svo komið að enginn kemst yfir að lesa allar nýútkomnar bækur með fullri vinnu. Starfsfólk bókabúða kynnir sér alltaf vel bækurnar sem eru að koma út í hvert sinn. Þannig fær það ákveðna vísbendingu um innihaldið og getur komið því til skila til viðskiptavinanna.

Sérstaða bókabúðanna er fólgin í því að þar starfar fólk sem hefur lagt sig fram um að vita hvað það er með í höndunum og lítur á bókina sem eitthvað alveg sérstakt. Bókabúðir hafa í mínum huga mikla sérstöðu og alveg sérstaklega bókabúðin hérna á Laugaveginum. Hér hefur alla tíð verið alveg sérstaklega góður andi."

ago@mbl.is