Unni Børde Kröyer ­ Minning Fædd 30. desember 1930 Dáin 8. október 1991 Þann 8. október sl. lést í Ósló Unni Børde Kröyer, kona Haraldar Kröyer sendiherra. Hún var fædd í Ósló 30. desember 1930. Foreldrar hennar voru Bjarne Børde, sem var sendiherra Noregs á Íslandi 19581962 og kona hans Anna Bitten Bjerg ættuð frá Jótlandi.

Unni var elst af þrem börnum þeirra Bjarne og Bitten, en bræður hennar eru Ketil Børde, sendiherra og hefur hann fetað í fótspor föður síns. Hann er nú heima í Noregi þar sem hann hefur yfirumsjón með samningum varðandi Efnahagsbandalagið. Yngri bróðirinn, Haakon Børde, er við norska útvarpið og hefur verið fréttaritari fyrir Miðog Suður-Ameríku og hefur þannig fetað í fótspor systur sinnar. Nú er hann sérfræðingur útvarps og sjónvarps í málum þessarar álfu og stýrir oftsinnis fréttaskýringarþáttum. Báðir eru þeir bræður kvæntir.

Unni lauk stúdentsprófi 17 ára í Ósló með mjög hárri einkunn. Eftir það fór hún til náms í Kaliforníu, en faðir hennar var aðalræðismaður Noregs í San Francisco. Hún lauk BA-prófi frá Kaliforníuháskóla í Berkley í bókmenntum með leiklistarsögu sem sérgrein. MA-prófi lauk hún svo frá Standford-háskóla, sem líka er í Kaliforníu, í leiklistarsögu og sjónvarpstækni. Var hún fyrsti Norðmaðurinn, sem hlaut sérmenntun í þeirri grein.

Unni réðst til starfa hjá norska ríkisútvarpinu, fyrst í dagskrárdeild unga fólksins, en síðan sem fréttastjóri. Samdi hún fréttirnar á sinni vakt og las sjálf. Var hún fyrsti kvenfréttalesari útvarpsins. Þegar norska sjónvarpið tók til starfa var Unni boðin staða sem dagskrárstjóri við eina af leiklistardeildum sjónvarpsins.

Unni var nýtekin við því starfi er þau Haraldur hittust í Reykjavík í júní 1959 og giftu þau sig 16. september sama ár. Haraldur var þá forsetaritari hjá Ásgeiri Ásgeirssyni forseta. Þórhallur Ásgeirsson skrifaði Haraldi nýlega. Í þessu bréfi stóð m.a.: "Jafnframt vil ég að þú segir henni það, sem mamma sagði mér, að af konum forsetaritara, sem hún kynntist, hafi Unni verið færust og hjálpsömust. Minntist hún sérstaklega á aðstoð hennar í Kanadaferðinni 1961". Þegar Haraldur las þetta bréf fyrir Unni var hún orðin fárveik. En hún gladdist sannarlega af vinsamlegum ummælum hinnar merku konu.

Starfsferill Haraldar og Unni í utanríkisþjónustunni var langur: Sendiráðunautur í Moskvu 1962-66, varafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í New York 1966-70, sendiherra í Stokkhólmi 1970-72, sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum í New York 1972-73 og í Washington 1973-76, sendiherra hjá alþjóðastofnunum í Genf 1976-80, sendiherra í Moskvu 1980-85, í París 1985-89 og loks í Ósló frá 1989 og fram í janúar 1991 er Haraldur fór á eftirlaun.

Haraldur var ekkjumaður er hann kvæntist Unni og átti tvö börn með fyrri konu sinni, Ragnheiði Hallgrímsdóttur, þau Evu og Jóhann. Unni flutti því ekki bara til ókunns lands heldur tók líka að sér börn hans af fyrra hjónabandi. Er móðir mín dó tóku þau mig líka inn á heimilið, en móðir mín var móðursystir Haraldar. Það var engin hálfvelgja, þar sem Unni var annars vegar og mér fannst mér vera tekið sem dóttur á heimilinu. Alltaf síðan hef ég mátt koma og vera, hvort sem er á jólum eða öðrum árstíðum. Eftir að ég eignaðist fjölskyldu höfum við öll heimsótt þau oft.

Haraldur og Unni eignuðust tvö börn; Ari, fæddur 1963, sjávarlíffræðingur, búsettur í Noregi, og Katrínu, fædd 1965. Eiginmaður hennar er Guðbjörn Karlsson, bæði við nám í Bandaríkjunum.

Unni var einstaklega glæsileg kona og um margt óvenjuleg. Allt lék í höndunum á henni, hún skreytti borð meistaralega, saumaði hvað sem var og bjó til ótrúlega fagra hluti úr litlum efniviði.

Hana langaði til að brjóta upp hið hefðbundna starf sitt og þegar þau voru í París efndu þau til sýningar í sendiherrabústaðnum, þar sem aðallega voru sýnd verk eftir Íslendinga búsetta í París. Það er mikil vinna að setja upp slíkar sýningar og Unni var í essinu sínu. Þetta fannst henni gaman; að umturna heimilinu og gera eitthvað óvenjulegt. Sýningin var opin í tvo daga og komu rúmlega 400 manns. Þessu starfi hélt hún svo áfram í Ósló, sem varð meðal annars til þess að Sæmundur Valdimarsson hélt sýningu þar í Gallerí Notabene og bjó hjá þeim á meðan.

Unni lærði íslensku á fyrstu hjúskaparárum sínum og rússnesku lærði hún líka svo vel að hún endurlas allan Dostojevsky á frummálinu.

Það var aldrei deyfð eða drungi í nærveru hennar. Þess vegna er svo einkennilegt að nú er hún ekki lengur meðal okkar heldur hvílir við hlið foreldra sinna í fjölskyldugrafreit í Espedalen í Noregi, þar sem fjölskylda hennar hefur átt sumarhús frá því Unni var barn.

Nú á ég ekki lengur von á bréfum frá henni, sem voru svo skemmtileg að tárin runnu niður kinnarnar á meðan ég las þau. Ég sakna þess að geta ekki heyrt hana segja frá og hlæja með henni, en Unni var sérstaklega hláturmild.

Ég fæ aldrei fullþakkað það lán að hafa kynnst Unni og allt sem hún og Haraldur hafa fyrir mig gert.

Sigurlaug Jóhannesdóttir