Harðsótt glíma dr. Benjamíns Bækur Björn Bjarnason Hér og nú. Höfundur: Benjamín H.J. Eiríksson. Útgefandi: Höfundur. 429 blaðsíður, með nafnaskrá.

Harðsótt glíma dr. Benjamíns Bækur Björn Bjarnason Hér og nú. Höfundur: Benjamín

H.J. Eiríksson. Útgefandi: Höfundur. 429 blaðsíður, með nafnaskrá.

Allir sem berjast fyrir einhverjum málstað sem þeim er kær eða taka þátt í opinberu lífi komast fljótt að raun um að oft er erfitt að tryggja framgang sannleikans. Lítið nýlegt dæmi má nefna, þar sem lygi eða hálfsannleikur hefur verið á sveimi í fjölmiðlum. Í Reykjavíkurblöðunum hafa undanfarna daga birst frásagnir af kjöri formanns utanríkisnefndar Alþingis, sem hafa gefið til kynna, að eitthvað óeðlilegt hafi verið við það, að sjálfstæðismenn í nefndinni stungu ekki upp á Eyjólfi Konráði Jónssyni, flokksbróður þeirra, til formennskunnar heldur gerði Steingrímur Hermannsson framsóknarmaður það. Samkvæmt óskráðum reglum í þingnefndum var það ekki hlutverk sjálfstæðismanna að koma með þessa uppástungu. Blöðin virtust þó ekki hafa áhuga á þeim þætti, enda voru sum þeirra að ýta undir pólitískar slúðursögur. Höfundur þeirrar bókar sem hér er til umræðu hefur skrifað mikið í Reykjavíkurblöðin á undanförnum árum. Vinnubrögð hans eru í hróplegri andstöðu við þeirra, sem tala í hálfkveðnum vísum. Hann er rökfastur og leitast við að gera flókin mál einföld.

Dr. Benjamín H.J. Eiríksson hefur verið ódeigur við að halda því fram í opinberum umræðum, sem hann telur satt og rétt. Er þetta önnur bókin, þar sem endurbirtar eru blaðagreinar frá síðustu árum eftir dr. Benjamín. Hin fyrri kom út árið 1983 og heitir Ég er.

Auðvelt er að hrífast af málafylgju dr. Benjamíns og rökfimi. Einkum þegar hann ræðir um efnahagsmál og segir skoðanir sínar á kommúnisma og sósíalisma. Hann aðhylltist kommúnisma, þegar hann var ungur, en eftir dvöl í Sovétríkjunum á fjórða áratugnum áttaði hann sig á þeim hörmungum, sem sósíalisiminn hafði í för með sér þar. Hann gekk ekki með þá glýju í augum fram á síðustu ár eins og margir hér og erlendis, að miðvikudagar í Moskvu myndu breytast í sunnudaga fyrir tilverknað Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Er dr. Benjamín ómyrkur í máli um þá, sem kynntust Sovétríkjunum á sama tíma og hann, en höfðu ekki þrek til þess að segja satt og rétt frá því sem þeir sáu.

Bókin skiptist í sex hluta, sem heita: Þættir úr ævisögu, Efnahagsmál, Stjórnmál, Trúmál, Skógrækt og Málið og menningin. Hún er rituð á skýru og einföldu máli og lesandinn þarf aldrei að fara í grafgötur um skoðanir höfundarins. Sumt í bókinni er mér þó með öllu óskiljanlegt. Til dæmis hef ég aldrei áttað mig til fulls á þeirri fæð, sem dr. Benjamín hefur lagt á Davíð Oddsson, einkum hin síðari ár. Virðist mega rekja óvildina til þess að Davíð beitti sér fyrir því að koma stjórn á hundahald í borginni með því að horfið var frá banninu, sem enginn virti, til strangra reglna, sem framfylgt er með skipulegum hætti.

Ein greinanna í bókinni hefst á þessum orðum: Ég er hamslaus af reiði." Þessi mikla reiði á rætur að rekja til hundamálsins. Í greininni, sem birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 1984, stendur meðal annars:Ég hefi lýst þeirri skoðun minni á öðrum vettvangi, að Reykjavík eigi að vera hrein borg. Hundurinn er óhreint dýr, segir Biblían. Hann er rituelt óhreint dýr, og því bannaður af Gyðingum." Er það ástæðan fyrir heift dr. Benjamíns, að hann getur ekki átt heima í borg, þar sem hundar eru leyfðir? Eru hundarnir í Reykjavík í andstöðu við meginboðskap dr. Benjamíns? Þessi boðskapur er, að hann sé Kristur, kominn til að dæma heiminn, svo sem segir á blaðsíðu 298 í bókinni. Fullyrðingar af þessu tagi eiga allir venjulegir menn auðvitað erfitt með að skilja og í bókinni ræðir höfundur opinskátt um að læknar hafi lýst hann geðveikan vegna þeirra. Hann hefur slíkar yfirlýsingar að engu og leggur sig fram um að sanna réttmæti fullyrðinga sinna með því að benda á alls kyns tákn. Hann minnir til dæmis á, að frá því að bók hans Ég er kom út 1983 hafi orðið algjör straumhvörf í stjórnmálaástandi heimsins. Risaveldin hafi kúvent. Og þau hafi gert meira en það: Tveir hugmyndastórir menn, oddvitar risaveldanna, komu hingað sjálfir til Reykjavíkur til þess að tengja þessi miklu straumhvörf nafni Reykjavíkur, nafni Íslands."

Dr. Benjamín er vissulega ekki eini Íslendingurinn sem vill hefja Reykjavíkurfund Reagans og Gorbatsjovs í eitthvert æðra veldi, af því að hann var haldinn hér. Hvað á hins vegar að segja um ótrúlegar staðhæfingar um hlutverk hans sjálfs? Á boðskapur af þessu tagi nokkurt erindi í fjölmiðla eða bækur? Mér finnst hann spilla fyrir öðru í bókinni. Hafi höfundur rétt fyrir sér í þessu efni hlýtur það að sannast í fyllingu tímans og án þess að rökræður um málið eða flókin sönnunarfærsla sé nauðsynleg.

Þeir sem undrast lygi eða hálfsannleika í blöðum vegna hversdagslegs formannskjörs í utanríkisnefnd Alþingis eiga léttvægt verk fyrir höndum við að halda hinu sanna fram miðað við hinn, sem vill sanna, að hann sé Kristur. Mesti vandi þess manns er auðvitað, að fá aðra til að taka sig alvarlega. Glímu dr. Benjamíns við þann vanda lýkur ekki með þessari bók.

Dr. Benjamín H.J. Eiríksson