Ráðagerði áður en húsið var gert upp.
Ráðagerði áður en húsið var gert upp.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ráðagerði var hjáleiga frá Nesi. Allar götur hafa ábúendur verið þar margir segir Freyja Jónsdóttir í samantekt sinni um húsið í Ráðagerði sem nú stendur og byggt var um 1880.

Árið 1703 var Ráðagerði hjáleiga frá Nesi með litlum túnbletti sem fóðra mátti 2 kýr. Segir svo í Seltirningabók eftir Heimi Þorleifsson "Túnið var talið 2 dagsláttur hálfri öld seinna, 1755. Þá taldist Ráðagerði í tölu fjögurra betri hjáleigna frá Nesi."

Eins og gefur að skilja hafa margir ábúendur verið í Ráðagerði frá 1703. Það ár bjuggu þar hjónin Hildibrandur Jónsson og Guðný Þiðriksdóttir. Leigan var greidd í smjöri og fiski.

Því miður er ekki pláss í þessari grein til þess að telja upp alla ábúendur í Ráðagerði en þeir sem hafa áhuga á að lesa um þá er bent á Seltirningabók. Þar er mjög greinargóð frásögn um ábúendur.

Húsið í Ráðagerði var byggt á árunum milli 1880 og 1885. Því miður hefur ekki tekist að finna nákvæmt ártal um byggingu þess. Það er byggt úr bindingi, hæð og ris á hlöðnum kjallara.

Grunnflötur þess er í kringum 75 ferm.

Þórður Jónsson hafnsögumaður byggði Ráðagerði

Þórður Jónsson hafnsögumaður byggði húsið en hann er skráður eigandi að Ráðagerði árið 1876 og bjó þar til ársins 1909.

Útihús voru byggð á túninu norðan við íbúðarhúsið. Fyrir nokkrum árum var þar skemma allstór sem hestamenn höfðu á leigu. Þegar skemman var rifin fannst þar talsvert af veiðarfærum.

Árin 1876 til 1909 bjó Þórður Jónsson í Ráðagerði. Hann var fæddur árið 1851 í Hlíðarhúsum. Þórður var lengi hafnsögumaður í Reykjavík. Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Þórunn Jónsdóttir, fædd 1850 í Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi. Þórunn lést árið 1900. Seinni kona Þórðar var Halldóra Jónsdóttir, yngri systir Þórunnar, fædd í Mýrarhúsum árið1863. Þórður og Þórunn eignuðust þrettán börn en aðeins fimm þeirra náðu fullorðins aldri. Þau tóku einnig nokkur fósturbörn. Halldóra, dóttir Þórðar og Þórunnar, giftist Gísla Guðmundssyni gerlafræðingi. Gísli stofnaði gosdrykkjaverksmiðjuna Sanitas í húsi sem reist var yfir verksmiðjuna í landi Melshúsa á Seltjarnarnesi. Verksmiðjan hóf starfsemi sína 30. nóvember 1905. Stofnendur Sanitas með Gísla voru Guðmundur Ólafsson í Nýjabæ og Jón Jónsson í Melshúsum. Eftir að starfsemi Sanitas flutti til Reykjavíkur var verksmiðjuhúsið gert að íbúðarhúsi. Í nokkur ár stóð húsið á upphaflegum stað en síðan var það flutt yfir Nesveginn og var þá nefnt Teigur. Þar bjuggu til margra ára hjónin Steindór Ingimundarson, ættaður frá Sogni í Ölfusi, og kona hans, Oddný Hjartardóttir frá Borðeyri við Hrútafjörð. Húsið brann til kaldra kola að morgni nýársdags 1963.

Skólastjóri lýðháskóla sest að í Ráðagerði

Árið 1904 hófu búskap í Ráðagerði hjónin Guðríður Þórðardóttir og Oddur Jónsson skipstjóri, síðar hafnsögumaður. Guðríður var dóttir Þórðar og Þórunnar, fædd 1876 í Ráðagerði. Oddur Jónsson var fæddur 1879 í Reykjavík. Guðríður og Oddur bjuggu fyrst í tvíbýli með foreldrum Guðríðar en síðan á allri jörðinni til ársins 1920. Oddur var skipstjóri á þilskipum og árið 1909 gerðist hann hafnsögumaður og stundaði jafnframt búskap í Ráðagerði. Árið 1920 varð hann hafnarfógeti í Reykjavík og seldi þá Ráðagerði Sigurði Þórólfssyni skólastjóra Lýðskólans á Hvítárbakka og konu hans Ásdísi Margréti Þorgrímsdóttur.

Sigurður Þórólfsson og fjölskylda hans fluttu frá Hvítárbakka að Ráðagerði á fardögum vorið 1920. Búslóðinni var komið um borð í róðrarbát sem mótorbáturinn Hvítá var með í togi. Hvítá var í siglingum á Hvítá og fór ekki lengra upp ána en að Hvítárbakka. Þessi sami bátur flutti efnið í skólahúsið á Hvítárbakka þegar það var byggt. Fyrsti áfangi ferðarinnar var Borgarnes en þangað kom Suðurlandið, sem sigldi á milli Borgarness og Reykjavíkur.

Í eftirmála, sem dr. Anna Sigurðardóttir skrifar við bók föður síns "Gamlar minningar", segir hún frá ferðalaginu frá Hvítárbakka að Ráðagerði. Ferðalagið tók nokkra daga og þurfti Hvítáin að sæta sjávarföllum til þess að geta siglt af ánni út í Borgarfjörðinn.

Í Ráðagerði bjó fjölskyldan í nokkur ár. Eiginkona Sigurðar, Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir, sá um búskapinn með aðstoð eldri barnanna. Fjósið var nútímalegt á þeim tíma og í fjósi voru fjórar mjólkandi kýr. Einnig hestur og nokkur hænsni. Matjurtagarður var í miðju túninu og þar voru aðallega ræktaðar gulrófur og kartöflur. Kjallarinn undir íbúðarhúsinu var hin besta kartöflugeymsla og entist uppskeran úr garðinum árið út í gegn eða þar til farið var að taka upp næstu uppskeru sumarið eftir.

Yngsta barn Sigurðar Þórólfssonar og Ásdísar Margrétar Þorgrímsdóttur, Valborg, fæddist í Ráðagerði. Hún varð síðar skólastjóri Fósturskóla Íslands og kona Ármanns Snævarr háskólarektors.

Sigurður Þórólfsson var um tíma oddviti Seltjarnarnesshrepps. Sumarið 1923 byggði Sigurður timburhús við Kaplaskjólsveg sem hét Útgarður. Það hús er horfið fyrir nokkrum árum.

Árið 1928 flutti fjölskyldan í reisulegt steinhús sem Sigurður Þórólfsson lét byggja á Ásvallagötu 28. Sigurður lést nokkrum mánuðum eftir að fjölskyldan flutti í húsið.

Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir lést árið 1969.

Næsti eigendur Ráðagerðis voru Kristinn Brynjólfsson, fæddur í Engey 1880, og kona hans Anna Guðmundsdóttir, fædd 1886 í Nesi. Kristinn hafði verið skipstjóri, eftir að hann kom í land gerðist hann bóndi í Ráðagerði. Anna hafði mikil afskipti af skóla- og félagsmálum í hreppnum. Hún var formaður í Framfarafélaginu og var fyrsta konan sem gegndi því starfi.

Anna Guðmundsdóttir lést árið 1941.

Kristinn hélt áfram búskap í Ráðagerði ásamt dóttur þeirra Önnu, Guðríði, fæddri 1906. Kristinn lést árið 1961. Uppeldissonur Guðríðar var Tómas Árnason, fæddur 19. mars 1940. Guðríður bjó lengi ein í Ráðagerði og var hætt öllum búskap. Um tíma voru túnið og útihúsin leigð hestamönnum. Guðríður Kristinsdóttir lést af slysförum árið 1988.

Ráðagerði keypt 1997 og gert upp

Íbúðarhúsið í Ráðagerði stóð autt í nokkur ár. Árið 1997 kaupa það hjónin Jónína Ragnarsdóttir og Finnur Jónsson af Seltjarnarnesbæ. Þau hófust strax handa við að gera húsið upp og verður ekki annað sagt en það hafi tekist með ágætum.

Þegar farið var að rífa utan af húsinu kom í ljós að vesturgaflinn hafði verið klæddur með listasúð en einhvern tíma á ferlinum hefur verið klætt með járni yfir. Einnig kom í ljós að ekki var grind í húsinu eins og venja er, nema á vesturgafli. Múrað var í grindina með múrsteinum á neðri hæðinni en hraunhellum á efri hæðinni. Að öðru leyti er það byggt af 3" plægðum og fjöðruðum plönkum, allt að 11" breiðum. Plankarnir standa á fótstykki á hlaðna sökklinum. Að innan var lóðréttur panell negldur. Lausholt voru til neglingar og frágangs á gluggum og dyrum.

Þegar járn og pappi höfðu verið fjarlægð kom í ljós að yfir gluggum suðurhliðar og útidya höfðu verið bjórar. Mikil leit hófst að gögnum sem leitt gætu í ljós gerð þeirra og útlit. Sú leit bar ekki árangur.

Yfir útidyrum var fjöl með áletruðu nafni hússins, Ráðagerði, en fjölin var fjarlægð og hvarf í nokkur ár. Enginn veit hvernig hún komst af svæðinu en maður á heilsubótargöngu fann hana í flæðarmálinu nokkrum árum seinna. Þá var letrið svo máð að finnandinn gat ekki lesið það. Fjölin komst þó aftur til sinna heima eftir að auglýst var eftir henni.

Við endurgerð hússins voru allar tiltækar upplýsingar notaðar og húsið fært eins nærri upprunalegu útliti og mögulegt var. Helstu frávik eru þau að gluggum var fjölgað á vesturgafli, einn gluggi á norðurhlið tekinn af, útihurðir á inn- og uppgönguskúr teknar af og gluggi settur í staðinn og annar á efri hæð til samræmis. Skipt var um alla glugga, húsið klætt að utan, bæði á veggjum og þaki.

Þegar klæðning á innveggjum og loftum var tekin kom í ljós að einangrað hafði verið með möl í fölsku lofti milli hæða. Einangrun í útveggjum var reiðingur, hey og spænir. Öll gamla einangrunin var tekin og í staðinn sett steinull og klætt að innan með panel og gifsplötum. Í stofunum var brjóstpanell svo illa farinn að ekki tókst að setja hann upp aftur. Smíðað var eftir honum í upphaflegri mynd. Herbergjaskipan er mest sú sama en helstu frávik eru að herbergi á hæðinni var tekið til að stækka eldhúsið og einnig var gangurinn breikkaður. Stiginn á milli hæða var tekinn og honum komið fyrir í kjallaranum. Lyfta var sett þar sem stiginn var. Á gólf hæðarinnar var lagt Húsavíkurparket. Gólfin uppi eru með upphaflegum gólffjölum sem slípaðar voru upp. Skorsteinninn var tekinn niður og steinarnir hreinsaðir. Hann var síðan hlaðinn upp aftur og lengdur niður í kjallara. Múrsteinar sem hlaðið var í grindina á vesturgafli hússins voru notaðir til viðbótar. Allar raf- og hitalagnir voru endurnýjaðar, einnig frárennslisrör og vatnslagnir.

Kjallarinn undir húsinu hefur alltaf verið notaðu til geymslu. Núna er búið að steypa gólfið í honum og farið að huga að því að innrétta hann.

Við endurgerð hússins fengu eigendur Ráðgerðis til liðs við sig eftirtalda aðila: Þorstein Bergsson, sem veitti ráðgjöf og eftirlit, Gamlhús ehf., Teiknistofan á Skólavörðustíg 28 sf., Stefán Örn Stefánsson, Grétar Markússon, Ásgeir Torfason myndskera, sem sá um útskurð, og Harald Eldon Logason sem sá um að hlaða skorsteininn að nýju.

Óvíða á byggðu bóli er eins mikið útsýni og í Ráðagerði. Fjallahringurinn í hæfilegri fjarlægð, eyjarnar á Sundunum, Snæfellsjökull í öllum sínum myndum og Grótta sem lengi var útvörður byggðra bóla á Seltjarnarnesi. Nú hefur Ráðagerði tekið við því hlutverki.

Hjónin Jónína Ragnarsdóttir og Finnur Jónsson búa í Ráðagerði ásamt börnum sínum Jóni Frey og Freyju sem bæð eru enn í foreldrahúsum.