Ég er sá eini kristni í fjölskyldunni," segir Toshiki Toma, prestur innflytjenda. Toshiki er fæddur í Tókýó í Japan og var skírður til kristinnar trúar um tvítugt.

Ég er sá eini kristni í fjölskyldunni," segir Toshiki Toma, prestur innflytjenda. Toshiki er fæddur í Tókýó í Japan og var skírður til kristinnar trúar um tvítugt. Hann hefur búið í áratug á Íslandi og getur horft á málin frá öðru sjónarhorni en dæmigerðir Íslendingar.

Hann einn er kristinn í fjölskyldunni, hér á landi er þetta fremur öfugt: Að einn úr stórfjölskyldunni skeri sig úr með því að taka aðra trú en kristni.

"Við segjum ekki nóg og tökum ekki þátt í umræðunni," segir hann um innflytjendur. "Skoðanir útlendinga á því sem er efst á baugi í samfélaginu heyrast sjaldan."

Sennilega er það rétt hjá honum, útlendingar eru hvorki spurðir um skoðanir sínar né virðast þeir koma þeim á framfæri. Hvað ætli þeim þyki t.d. um Kárahnjúkavirkjun, ætli þeir fylgi fremur ríkisstjórninni að málum eða Náttúrverndarsamtökum Íslands? Ég veit það ekki. Væri ekki vit í því að kalla eftir skoðunum þeirra, heldur en að vera sífellt að hlusta á okkur sjálf?

Útlendingar á Íslandi verða stundum að komast í gegnum nokkur lög af jarðvegi áður en þeir komast upp á yfirborðið, það þurfti a.m.k. Toshiki Toma að gera.

Ekki bara útlendingur

Toshiki er fæddur árið 1958 og á dreng og stúlku með Helgu Soffíu Konráðsdóttur presti í Háteigskirkju, Ísak og Önnu Maríu Toma.

Toshiki og Helga Soffía bjuggu í Japan í tvö ár, en þegar þau fluttu hingað bjóst hann við að fá jöfn tækifæri og hún í samfélaginu. "Ég flutti til Íslands árið 1992 og sá fljótlega að raunveruleikinn var harðari en ég bjóst við," segir hann, "konan mín var vinsæl í starfi og gat unnið eins og hún vildi, en ég var bara útlendingur."

Toshiki segir að viðhorfið til hans hafi verið alltaf eitthvað til hliðar við hann sjálfan, líkt og hann væri ekki alveg sjálfstæður maður. Ekki prestur, heldur bara útlendingur. "Ég man að einu sinni hringdi útvarpskona heim til okkar til að spyrja um hvernig jól væru haldin í Japan," segir hann og að ekki hafi hvarflað að henni að spyrja innfæddan Japana. Eiginkonan var einungis spurð um málið.

Toshiki er ekki bitur, heldur notar þetta dæmi einungis til að lýsa hvernig útlendingar eru stundum hunsaðir.

Toshiki lagði rækt við íslenskunám og tók námskeið í guðfræðideild HÍ til að uppfylla skilyrðin til að geta starfað sem prestur hér á landi. Hann hóf störf í Háteigskirkju sem prestur innflytjenda í hlutastarfi. Þar fékk hann tækifæri til að sanna sig og hefur verið í fullu starfi sem prestur síðan 1996.

Toshiki og Helga Soffía skildu árið 1999 og við tóku aðrir tímar, erfiðir og breyttir. Toshiki ákvað nú að láta meira til sín taka í samfélagsumræðunni. Hann byrjar að tjá sig og lýsa skoðunum sínum í blöðum - og gerði það eftirminnilega í byrjun árs 2000: "Er ekki kominn tími til að íslenska þjóðfélagið hlusti á hvað innflytjendur hafa að segja, ekki aðeins hvernig þeir tala?" (Mbl. 8/2). Hann líkti viðhorfi sumra til íslenskunnar við dulda skurðgoðadýrkun - og verður það að teljast djarfmannlega mælt. Tilefnið var m.a. sú skoðun útvarpsmanns að "íslenskir áheyrendur þoli ekki að heyra útlending tala vitlausa íslensku".

Toshiki lærði stjórnmálafræði áður en hann varð guðfræðingur - og hefur það sennilega hjálpað honum við að taka þátt í umræðunni hér á landi. "Margt hefur breyst," segir hann, "ekki eru lengur eins háar hugmyndir á sveimi, heldur hefur hugmyndinni um íslensku sem annað tungumál vaxið fiskur um hrygg." Hann nefnir að útvarpið hafi fengið nokkra útlendinga til að lesa upp úr verkum Laxness á aldarafmæli hans. Einnig hefur auglýsingastofa látið útlendinga lesa texta auglýsinga í sjónvarpi til að venja fólk við framburðinum. Þá tekur Ævar Kjartansson útvarpsmaður útlendinga markvisst í útsendingar.

Fyrir nokkrum árum tóku útlendingar ekki þátt í stefnumótun mála sem vörðuðu þá. Ráð þeirra var að stofna fjölmenningarráð og fékk það t.d. lögin um útlendinga til umsagnar. "Mér finnst að fjölmiðlar eigi einnig að muna að ræða við útlendinga um mál þeirra, en ekki aðeins Íslendinga," segir hann. Brýnasta málið sem þarfnast umræðu núna er móttaka unglinga sem eru ekki á grunnskólaaldri.

Of fáir taka þátt í umræðunni, ef til vill eru þeir ekki hvattir til þess, ef til vill eru þeir hræddir. Toshiki skiptir útlendingum í tvo meginhópa. Í öðrum eru þeir sem vinna eins og Íslendingar, eru í þokkalegum metum en segja ekki margt opinberlega. Í hinum eru lægra settir sem taka heldur ekki þátt í umræðunni.

Ástæðan er ef til vill að sú að tengsl Íslendinga eru svo náin. Ættir allra Íslendinga eru skráðar saman í Íslendingabók og svo tengjast þeir á fjölmargan annan hátt; í bæjarfélagi, skóla og íþróttum. Þeirri reynslu geta útlendingar sjaldan komist til botns í.

"Útlendingar eiga ekki slíkar sameiginlegar forsendur og því er eitthvert gil til staðar sem þarf að brúa," segir Toshiki og að yfirleitt gerist það ómeðvitað ef Íslendingar útiloki útlendinga. "Þeir þurfa hins vegar að skilja þennan mun á forsendum og fjarlægð á milli þeirra og útlendinga."

Tjáning tilfinninga

Réttindamál eru algengustu málin sem ber á góma varðandi útlendinga. Stundum verða þessi tæknilegu vandmál. "En útlendingar eru líka lifandi manneskjur með tilfinningar, fjölskyldu og heimaland," segir Toshiki og að t.d. geti lesendur betur sett sig í spor afrískrar manneskju ef hún tjáir sig með ljóðum, tónlist eða dansi um söknuð eða ást til heimalands.

"Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti tjáð mig og ákvað að glíma við ljóðin," segir Toshiki og að hann hafi birt nokkur ljóð, t.d. í Lesbók Morgunblaðsins og á www.ljod.is.

Hann samdi ekki ljóð á japönsku en hefur núna öðlast áhuga á ljóðagerð með íslenskum orðum, og flokkar ljóðin sem dæmi um "íslensku sem annað mál". Af öðrum áhugamálum sínum nefnir hann að elda mat og vera með börnum sínum.

"Ég hef trú á mikilvægi þess að opna augu okkar fyrir tilfinningalífi innflytjenda," segir Toshiki, "og þá á ég við það að deila tilfinningum sínum með Íslendingum eins og ástinni til fjölskyldunnar, gleðinni yfir fagurri náttúru og voninni um framtíð." Hann telur að þessi tjáning geti hjálpað til við að vinna á þeim fordómum sem merkja má gagnvart útlendingum.

Toshiki segist að lokum vera ánægður með starf sitt sem prestur innflytjenda en það er embætti hjá þjóðkirkjunni. Í gegnum það hefur hann samstarf og samvinnu við stóran hóp Íslendinga og útlendinga. guhe@mbl.is

Eftir Gunnar Hersvein Ljósmyndir golli