Einn hellanna í Hallmundarhrauni er Víðgelmir, sem hér sést. Gríðarlegt verk yrði að komast niður í nýja hellinn sem liggur undir 8-15 metra þykku hrauni.
Einn hellanna í Hallmundarhrauni er Víðgelmir, sem hér sést. Gríðarlegt verk yrði að komast niður í nýja hellinn sem liggur undir 8-15 metra þykku hrauni.
EINN þekktasti hraunhellasérfræðingur heims, Chris Wood, prófessor í landmótunarfræði við Háskólann í Bournemouth á Englandi, hefur í samstarfi við Hellarannsóknafélag Íslands uppgötvað nýjan 300 metra langan nýjan helli í Hallmundarhrauni.

EINN þekktasti hraunhellasérfræðingur heims, Chris Wood, prófessor í landmótunarfræði við Háskólann í Bournemouth á Englandi, hefur í samstarfi við Hellarannsóknafélag Íslands uppgötvað nýjan 300 metra langan nýjan helli í Hallmundarhrauni. Um er að ræða eins konar framhald af Stefánshelli en á milli þessara hella er berghaft sem skilur þá að. Nýi hellirinn hefur ekki hlotið nafn en nokkrar hugmyndir hafa komið fram, s.s. Leynihellir og Hulduhellir eða Hulinn. Það sem þykir sérstætt við hellinn er að ógjörningur er að komast niður í hann því rannsóknir Woods í sumar leiddu í ljós að þykkt þaksins á honum er 8-16 metrar. Uppgötvunin var fengin með notkun segulmælis og fleiri tækja. Reyndar sér ekki enn fyrir endann á lengd hellisins. Að sögn Sigurðar Sveins Jónssonar, formanns Hellarannsóknafélagsins, var lykillinn að uppgötvuninni svokallaðar hraunbólur eða hraunkýli á yfirborði Hallmundarhrauns sem líkja mætti við bólur sem myndast í sjóðandi hafragraut. Tengsl milli þessara fyrirbæra gáfu mönnum ákveðnar vísbendingar.

"Hellirinn fannst með því að ganga kerfisbundið í meinta framhaldsstefnu Stefánshellis með næman segulmæli og þar sem holrými er undir koma fram frávik í segulmögnun bergsins," segir Sigurður.

"Rannsóknarmönnum hefur tekist að elta þetta segulfrávik um 300 metra vegalengd og bráðabirgðamælingar á þykkt þaksins á hellinum gefa til kynna að hún sé vart undir 8 metrum. Það gæti því reynst örðugt að gera op á hellinn og í raun alls óvíst að menn fái nokkurn tíma litið hellinn sjálfan."