6. nóvember 1991 | Innlendar fréttir | 660 orð

Evrópuverðlaun sjónvarpsstöðva afhent í Borgarleikhúsinu: Athöfninni sjónvarpað

Evrópuverðlaun sjónvarpsstöðva afhent í Borgarleikhúsinu: Athöfninni sjónvarpað beint til fjörutíu landa Sænska myndin Appelsínumaðurinn valin besta leikna myndin SÆNSKA sjónvarpsmyndin Appelsínumaðurinn (The Orange Man) hlaut Evrópuverðlaun...

Evrópuverðlaun sjónvarpsstöðva afhent í Borgarleikhúsinu: Athöfninni sjónvarpað beint til fjörutíu landa Sænska myndin Appelsínumaðurinn valin besta leikna myndin

SÆNSKA sjónvarpsmyndin Appelsínumaðurinn (The Orange Man) hlaut Evrópuverðlaun sjónvarpsstöðva, Prix Europa, fyrir bestu leiknu mynd sem afhent voru af Heimi Steinssyni útvarpsstjóra við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Einnig voru afhent verðlaun fyrir bestu heimildarmynd og hlaut þau franska myndin Katyn-skógur. Íslenskir listamenn sáu um hátíðardagskrá og Markús Örn Antonsson borgarstjóri flutti ávarp, en þess má geta að það var í útvarpsstjóratíð hans sem ákveðið var að Ísland yrði gestgjafi verðlaunahátíðarinnar á þessu ári. Verðlaunaathöfninni var sjónvarpað beint í Ríkissjónvarpinu og einnig af frönsku sjónvarpsstöðinni TV5 Europe en sendingum hennar er dreift um gervihnetti til 40 landa í Evrópu, Afríku og Norður-Ameríku.

Þessi franska sjónvarpsstöð er sjálfstætt fyrirtæki fimm evrópskra frönskumælandi sjónvarpsstöðva. Þrjár þeirra eru í Frakklandi, ein í Belgíu og ein í Sviss. Auk þess er sjötta stöðin í Quebec í Kanada. TV5 Europe helgaði stærstum hluta dagskrár gærdagsins Íslandi, menningu landsins og sögu. Voru meðal annars sendir út íslenskir sjónvarpsþættir um Kjarval, Landið þitt Ísland, Eldeyjar-leiðangur og Eyðibyggð (Hornstrandir).

Þetta var í fimmta sinn frá árinu 1987 sem Evrópuverðlaunin voru afhent en að þeim standa framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins, Evrópuráðið, Evrópuþingið, Menningarmálastofnun Evrópu og sjónvarpsstöðin Sender Freies Berlin. Síðastnefnda sjónvarpsstöðin sér um skipulag keppninnar. Reykjavíkurborg og Ríkisútvarpið voru gestgjafar verðlaunahátíðarinnar í ár en í fyrra voru þau afhent í Barcelona og á næsta ári mun afhendingin fara fram í Berlín.

Tvær dómnefndir, skipaðar fulltrúum tíu evrópskra sjónvarpsstöðva, hafa undanfarna daga dvalist í Reykjavík til að skoða og velja verðlaunamyndir úr 84 sjónvarpsmyndum frá 60 sjónvarpsstöðvum í 25 Evrópulöndum. Sjónvarpsefnið sem sent var í keppnina skiptist í 31 leikna sjónvarpsmynd og 53 heimildarmyndir en veitt eru tvenn verðlaun í hvorum flokki.

Eins og áður sagði var það sænska myndin Appelsínumaðurinn sem hlaut Prix Europa-verðlaunin fyrir leikna mynd að þessu sinni. Myndin gerist í Stokkhólmi á sjötta áratugnum og sögðu dómnefndarmenn hana gefa almenna mynd af stjórnmálaástandi þess tíma auk þess að lýsa andrúmsloftinu og gefa innsýn í líf ungs fólks. Öðrum þræði er Appelsínumaðurinn einnig sakamálamynd.

Sérstök verðlaun fyrir leikna mynd hlaut myndin Lítill dans (A Small Dance) sem framleidd var af bresku Thames-sjónvarpsstöðinni. Þrjár myndir til viðbótar hlutu sérstakt lof: Draumalandið (A Land of Dreams) frá BBC 2, Kirkjugarður fyrir útlendinga (A Cemetary for Foreigners) frá tékkneska sjónvarpinu og myndin Ostkreuz frá þýsku ríkissjónvarpsstöðinni ZDF.

Verðlaun fyrir bestu heimildarmynd hlaut myndin Katyn-skógur (Katyn Forest) frá sjónvarpsstöðinni La Sept í Frakklandi. Leikstjórar myndarinnar eru Andrzej Wajda og Marcel Lozinski. Er í myndinni skýrt frá fjöldamorðum Sovétmanna í Katyn-skógi á Pólverjum í síðari heimsstyrjöldinni.

Ekkjur og dætur þeirra sem myrtir voru eru látnar fara í lestarferð, sömu leið og ástvinir þeirra héldu fyrir fimmtíu árum í hinsta sinn. Þá er ein þessara kvenna fengin til að taka viðtöl við hinar konurnar þar sem höfundar myndarinnar töldu að einungis þannig myndu þær fást til að tjá sig á opinskáan hátt um þennan atburð sem þær hafa hingað til borið innra með sér.

Sérstök verðlaun fyrir heimildarmynd fékk myndin Í Þýskalandi skipta peningar máli (Unter Deutschen D¨achern - Geld spielt eine Rolle) frá Radio Bremen Fernsehen en hún fjallar um bankastarfsemi og hvernig bankar í skjóli valda sinna fara langt út fyrir svið venjulegra viðskipta. Er tekið dæmi af Deutsche Bank í því sambandi

Framlag Ríkissjónvarpsins að þessu sinni var norræna sjónvarpsóperan Vikivaki, sem er byggð á sögu Gunnars Gunnarssonar, við tónlist eftir Atla Heimi Sveinsson.

Verðlaunin fyrir leikna mynd voru afhent af Heimi Steinssyni útvarpsstjóra og sérstök verðlaun fyrir leikna mynd af Francois Bordry frá Evrópuþinginu. Þá voru verðlaun fyrir heimildarmynd afhent af Colette Flesch frá Evrópubandalaginu og sérstök verðlaun fyrir heimildarmynd af Josephine Farrington frá Evrópuráðinu.

Morgunblaðið/Sverrir

Heimir Steinsson útvarpsstjóri greinir frá Evrópuverðlaunum sjónvarpsstöðva á blaðamannafundi í gær. Á myndinni má einnig sjá Markús Örn Antonsson borgarstjóra, Raymond Georis, formaður Menningarmálastofnunar Evrópu, og fimm manna dómnefnd sem tilnefndi bestu leiknu myndina.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.