"Þetta er enginn hjónaherbergisstíll," segir Bjarni Bjarnason um skáldævisöguna Andlit.
"Þetta er enginn hjónaherbergisstíll," segir Bjarni Bjarnason um skáldævisöguna Andlit.
Bjarni Bjarnason sendir nú frá sér skáldævisöguna Andlit. Bjarni er höfundur skáldsagna, smásagna, ljóða og annarra ritverka og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Jóhann Hjálmarsson ræddi við Bjarna sem er nú búsettur í Noregi.

Í Andlitum ert þú í nokkrum fjarska frá skáldsögum þínum Endurkomu Maríu, Borginni bak við orðin og Næturverði kyrrðarinnar. Mér sýnist þú á nýjum slóðum í fásögn og formi?

"Ég kalla stílinn á þessari bók eldhúsborðsstíl eftir stílnum sem maður notar þegar maður segir vini eða kunningja sögu yfir eldhúsborðið.

Þetta er léttur stíll og einlægur, en þá gilda þær reglur þegar fólk skiptist á sögum yfir kaffibolla að þótt maður sé sannur þá sökkvir maður sér ekki ofan í sjálfsmeðaumkvun og óuppgerð persónuleg mál. Maður leggst ekki í langar lýsingar og til að særa ekki blygðunarkennd fólks veltir maður sér ekki upp úr hvernig manni leið við hvert fótmál í sögunni. Þetta er enginn hjónaherbergisstíll.

Það er augljóst þegar komið er til Íslands að hér tjáir fólk sig meira í sögum en víðast hvar annars staðar, það má jafnvel finna sögukorn í dagblöðum þar sem fá má vísbendingu um að allflestir Íslendingar geta sagt sögu og leggja stolt sitt í það. Svona er þetta ekki út um allt. Í sumum löndum geta furðu margir staðið upp og haldið tækifærisræðu, það getum við ekki almennt. En við getum flest sagt sögu yfir kaffibollanum. Á bak við þessar eldhúsborðssögur er lifandi hefð sem ég vildi að hluta til ganga í. Um leið og það er gert nálgast maður Íslendingasögurnar."

Skáldævisaga er orð sem rithöfundar og gagnrýnendur nota óspart. Hvað viltu segja um þennan merkimiða?

"Skáldævisaga er opið hugtak. Fyrir mér vakti að steypa saman nokkrum bókmenntagreinum, ævisögunni, skáldsögunni, persónulýsingum að nokkru leyti í anda manngerða Þeófrastosar og raunsærri ættarsögu sem nær að verða lítill samfélagsspegill. Svona lagað verður maður þó að fara í með gát til að hvað rekist ekki á annars horn.

Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að þessi form eru til aðskilin hvert frá öðru og engin merkishugmynd í sjálfu sér að hræra þeim saman. Æviminningar eru að vissu leyti andstæða persónulýsinga því í þeim er höfundurinn statt og stöðugt að fjalla um sjálfan sig og er persónulegur en í persónulýsingum reynir hann að vera óhlutdrægur og sjá út fyrir sjálfan sig, reynir að sjá annað fólk "eins og það er". Ég vildi getað sagt ævisögu manns með því að horfa í gegnum augu hans og sjá aðra þannig að þeir sem hann sæju yrðu ævi hans. Ef þetta tekst er um margrætt merkingarnet að ræða þegar upp er staðið því spyrja má: Hvað er sjálf? Er það eitthvað afmarkað fyrirbæri eða er það í og með allir sem maður mætir og kynnist á lífsleiðinni? Er maður kannski annað fólk?"

Sumar persónur eru nefndar réttu nafni eins og í alvöru ævisögu, aðrar hafa skipt um nafn?

"Það er ekki ein einasta persóna bókarinnar, sama hve lítilfjörlega aukapersónu um er að ræða, sem er alfarið uppdiktuð, nema þá ef til vill af guði, allar hafa þær átt eða eiga þær sér stað í þeim daumi sem við köllum veruleika. Ég hef reynt að draga þetta fólk fram án þess að gera það að týpum, eins og Þeófrastos gerir reyndar, en geri mér þá ljósa grein fyrir að minnið sjálft er skáld.

Það hvernig skáldminni manns er segir mest um hvernig persóna maður er og þar með er augljóst að sá sem lýsir fólki segir frá sjálfum sér í leiðinni. Spurningin er um hversu langt maður sér. Hversu langt sér maður út úr sjálfum sér og inn í aðra persónu? Ef maður segir að veruleikinn samanstandi af fólki þá byrjar maður að sjá hann þegar maður byrjar að sjá fólk eins og það er. Raunsær er þá kannski sá stíll sem nær að bregða upp heildarmynd af manneskju þannig að lesandanum finnist hann þekkja hana. Ef höfundinum tekst að lýsa inn í nægilega margar ólíkar persónur í sama samfélagi þá fer að framkallast mynd af félagslegum raunveruleika í huga lesandans. Spurningin fer í og með að snúast um hvernig sá sem sér og segir frá endurspeglar samfélagið sem hann lifir í."

Hvert sýnist þér íslensk skáldsagnagerð og þar með þín stefna? Er einhvers konar raunsæi að koma upp aftur?

"Þegar kalda stríðið var hvað napurlegast þá kom að því einn gráan febrúardag, ímynda ég mér, að fólk þoldi ekki meiri napurleika í bili og tók bókum Fyndnu kynslóðarinnar fagnandi. Fyndna kynslóðin endurnýjaði íslenskt raunsæi þegar raunveruleikinn kallaði á það. Í lok níunda áratugarins tók veruleikinn aftur upp á því að breytast, þegar kalda stríðið var að líða undir lok.

Nýr veruleiki kallar á nýtt raunsæi og á tímabili var örlítil kreppa í hinum heilaga íslenska realisma. Skyndilega var þörf á nýjum röddum og á tíunda áratugnum upplifðum við vissa opnun í íslenskum bókmenntum, tilkomu nýrrar kynslóðar. Nýir og gamlir höfundar fundu leið út úr kreppu íslensks realisma og raunsæir Íslendingar önduðu léttar.

Við eigum marga nýja höfunda og sumir þeirra eru í einlægni að reyna að segja eitthvað um samtíma sinn sem hefur varanlegt gildi núna þegar menn eru ekki jafn ginnkeyptir fyrir ólíkindalátum og "frumleika". Veruleikinn er aftur orðinn þokkalega stabíll og þörfin á nýjungum að fjara út, jafnvel örlar á þeirri hugsun að við Íslendingar séum boðberar sannleikans, hér sé allt best, spurningin sé bara um markaðssetningu erlendis. En ég hef trú á að sumir höfundar haldi trúnaði við opnunaranda tíunda áratugarins, í það minnsta í nokkrum mæli og það haldi áfram að krauma dálítið í leynipottinum.

Opnunarandinn þarf að ríkja hér vel og lengi áður en við náum að skrifa brautryðjandi texta."

johj@mbl.is