Frá Arnarstapa.
Frá Arnarstapa.
ÉG VIL byrja á því að þakka Guðmundi Páli Ólafssyni og þeim er með honum unnu fyrir hina fallegu og gagnmerku bók, Um víðerni Snæfells.

ÉG VIL byrja á því að þakka Guðmundi Páli Ólafssyni og þeim er með honum unnu fyrir hina fallegu og gagnmerku bók, Um víðerni Snæfells. Það hefur ekki mikið verið fjallað um hana opinberlega og enginn mér vitanlega orðið til að skrifa um hana í þessu blaði.

Ég er í hópi þeirra fjölmörgu sem undanfarna mánuði hafa lagt leið sína á Kárahnjúka. Þegar maður stóð uppá Sandfelli sem verður eyja þegar og ef þetta Hálslón verður að veruleika blöstu við náttúruspjöllin og maður fylltist óneitanleg ugg. Af Sandfelli sér vítt yfir og við blasa Vesturöræfi, Brúaröræfi, Brúarjökull, Snæfell og Kringilsárrani sem fram til þessa hefur verið friðlýst svæði fyrir hreindýrin en "umhverfisráðherrann" er víst búin að breyta því vegna þess að enda þótt "...svæði séu friðlýst þá þýðir það ekki að þau séu algjörlega ósnertanleg um alla framtíð," einsog hún hefur sjálf sagt. Þar hefur maður það: Hvers kyns friðlýsingar ber að taka með fyrirvara. Maður reyndi að gera sér í hugarlund þarna uppá Sandfelli hvernig óbyggðirnar í kring litu út þegar þær væru komnar undir vatn. Satt best að segja var það nær ógerlegt. Það virtist svo óraunverulegt, einsog vondur draumur eða illur fyrirboði.

Þegar maður hefur skoðað bók einsog Um víðerni Snæfells fyllist maður undrun og gleði yfir því að búa í jafn fögru landi og Íslandi. En jafnframt mikilli depurð og vonleysi vegna þess að hér kemur fyrir augu manns náttúra sem á að fórna, náttúra sem á að eyðileggja um aldur og ævi vegna skammtíma gróða. Síðustu myndirnar í bókinni eru teknar þegar fyrst var sprengt í Dimmugljúfrum. Áhrifaríkar myndir og í hvert sinn sem maður horfir á þetta atriði í sjónvarpinu líður manni einsog strengur hafi brostið í hjarta manns. Maður fyllist örvæntingu, vonleysi.

Ráðamönnum þjóðarinnar, forráðamönnum Landsvirkjunar, sveitarstjórnarmönnum ýmsum og öðrum pappírsbúkum stendur ekki einvörðungu á sama um náttúru landsins; kjör þeirra manna og aðbúnaður sem vinna við þessa eyðileggingu kemur þeim harla lítið við. Þegar ítalskt mafíufyrirtæki verður uppvíst að svikum og lygum og kúgun á hendur verkafólki er það afsakað sem byrjunarörðugleikar. Þær raddir sem sögðu að þessar virkjanaframkvæmdir væru svo atvinnuskapandi fyrir Austfirðinga sérstaklega heyrast vart lengur. Það er ekki verið að virkja í þágu þjóðarinnar heldur fyrir ítalska mafíósa til að græða á ódýru vinnuafli og selja svo rafmagn amerísku auðvaldi á gjafvirði.

Hvílík heimska er þetta allt saman! Hvílík niðurlæging fyrir sjálfstæða þjóð!

Einhver mestu verðmæti sem við Íslendingar eigum eru einmitt fólgin í óspilltri náttúru. Það eru vissulega ekki verðmæti sem verða lögð á mál og vog eða metin á mælikvarða verðbréfa og vísitalna enda slík verðmæti takmörkunum háð. Ég er náttúruverndarsinni af því tagi sem lítur á náttúruna, manninn og allt sem lífsanda dregur sem eina heild, sköpunarverk þar sem allt og allir hafa tilverurétt. Það skiptir máli hvernig við förum um sköpunarverkið. Við megum ekki raska lífheildinni - annars fer illa.

Höldum vöku okkar því baráttunni er hvergi nærri lokið.

SIGURÐUR JÓN ÓLAFSSON,

Grettisgötu 28b,

Reykjavík.

Frá Sigurði Jóni Ólafssyni