4. desember 2003 | Viðskiptablað | 1036 orð

Heilræði fyrir unga menn

"Varaðu þig á að leggja peninga þína í glæfrafyrirtæki, sem verið er að vegsama og lofa með blaðaauglýsingum um fljótan og

Í upphafi tuttugustu aldar átti sér stað mikið framfaratímabil á Vesturlöndum sem fyrri heimsstyrjöldin batt enda á. Bylting í samskiptatækni hafði ollið straumhvörfum í utanríkisviðskiptum.
"Varaðu þig á að leggja peninga þína í glæfrafyrirtæki, sem verið er að vegsama og lofa með blaðaauglýsingum um fljótan og mikinn gróða. Legðu fé þitt í sparisjóðinn og þangað til þú hefur safnað nógu til að kaupa fyrir fasteignaverðbréf, eða hlutabréf í arðsömum og reyndum fyrirtækjum, eða til að reisa bú. Spurðu þig fyrir í bankanum eða hjá einhverjum reyndum manni hvernig þú eigir að verja fé þínu með góðri arðsvon, en hlauptu ekki eftir allra ráðum - þá muntu ekki tapa peningum þínum, skrifar George H. F. Schrader.

Í upphafi tuttugustu aldar átti sér stað mikið framfaratímabil á Vesturlöndum sem fyrri heimsstyrjöldin batt enda á. Bylting í samskiptatækni hafði ollið straumhvörfum í utanríkisviðskiptum. Framfarir voru einnig í formi járnbrauta og gufuskipa sem gerðu samgöngur og flutninga mikið auðveldari og auk þess leiddu samræmdar póstsendingar og tilkoma ritsímans til byltingar í fjarskiptatækni. Samspil þessara þátta var mikilvægt fyrir þróun alþjóðavæðingar, enda viðskipti með vörur og fjármagn á milli þjóða að mestu leyti frjáls á þeim tíma. Ísland fór ekki varhluta af þessari þróun. Erlendir aðilar komu til Íslands í tengslum við viðskipti og annarra faggreina og báru þannig með sér nýjar hugmyndir sem höfðu áhrif á samfélagið í víðri mynd. Akureyri var engin undantekning í því ferli. Siglingar voru í blóma og skipti litlu máli fyrir Akureyringa hvort verið væri að fara til Reykjavíkur eða Englands. Mikið af Akureyringum báru dönsk eða þýsk ættarnöfn enda stór hluti þeirra innfluttur í tengslum við viðskiptagreinar sínar.

Í þetta umhverfi fluttist maður að nafni George H. F. Schrader til Akureyrar árið 1912. Ekki var vitað af hverju hann ákvað að flytja til Akureyrar en hann hafði áður starfað við verðbréfaviðskipti á Wall Street í 35 ár. Hann var vel efnaður og hafði varið töluverðu af auðæfum sínum til góðgerðarmála. Schrader var mikill áhugamaður um hesta. Hann gaf út fyrstu bókina um hestamennsku á Íslandi árið 1913. Auk þess lét hann byggja hestahótel á Akureyri sem varð afar vinsælt, en þar var einnig matreiðsluskóli og aðstaða fyrir fyrirlestra og ýmiskonar samkomur. Rekstur hótelsins var arðsamur en Schrader lét hagnaðinn renna óskiptan til spítalans á Akureyri, sem var óþekkt fyrirbæri hérlendis og því mætti segja að Schrader hafi verið frumkvöðull góðgerðafyrirtækja á Íslandi.

Annað sem Schrader kom í verk þau þrjú ár sem hann dvaldist hér var útgáfa á bókinni Heilræði fyrir unga menn í verzlun og viðskiftum sem var prentuð á Akureyri vorið 1913 hjá Birni Jónssyni. Ekki er vitað í hvaða magni bókin var prentuð né hverjar viðtökur hennar voru. Formálinn er hins vegar dagsettur árið 1910 þannig að leiða má líkur að því að hann hafi þá þegar verið búinn að skrifa hana þegar hann sté hér á land. Vitað er þó að þýðandi bókarinnar var góður vinur Schrader, Steingrímur Matthíasson, sonur Matthíasar Jochumsson þjóðskálds. Þýðingin er óaðfinnanleg og ber þess ekki merki að verið sé að koma erlendri tungu né hugsun yfir á íslenskar aðstæður. Heilræði fyrir unga menn er samansafn athugana Schrader á sínum langa starfsferli í New York. Fram kemur í formála upphaflegs bæklings að tilgangur útgáfurnar sé að veita þau ráð og lífsreglur sem þykja heilladrjúgust fyrir starfandi menn á öllum stigum samfélagsins til að feta sig og komast áfram í lífinu. Bókin er skrifuð í stuttum málsgreinum sem líkja mætti við margar aðrar heilræðisbækur sem snúast um að finna lífshamingju í einfaldleika lífsins. Ritinu er skipt í sex kafla, auk samantektar um helstu vegi til glötunar í viðskiptum og viðvörunar. Fyrstu tveir kaflarnir fjalla um lífsreglur starfsmanna og vinnuveitenda. Hvað starfsmenn varðar telur Schrader að heiðarleiki, frumkvæði og vilji til að skara framúr skipti mestu máli. Vinnuveitendur verða hins vegar að hafa yfirgripsmikla þekkingu á starfseminni sem þeir stunda og kenna undirmönnum sínum helstu atriði í starfseminni til þess að vinnuveitandinn verði sjálfur ekki þræll vinnu sinnar. Kaflarnir um byrjun fyrirtækja og kaup og sölu eru að stórum hluta til heilræði sem finna má í ritum dagsins í dag varðandi stjórnun, fjármál og sölumennsku. Fimmti kaflinn fjallar um peninga og kemur þar bersýnilega fram reynsla manns sem hefur upplifað ýmislegt tengt fjármálum einstaklinga. Hér er lögð áhersla á að það að veita lán, taka lán og ábyrgjast lán eru ákvarðanir sem ber að taka með yfirvegun. Reglubundinn sparnaður, en ekki auðveldur og skjótfenginn gróði, er lykillinn aðþví að spara digran sjóð. Schrader leggur mikla áherslu á að lifa ekki umfram efni sín og telur það raunar vera mikilvægara í því að komast vel áfram en að græða fé. Almenn heilræði er inntak sjötta kaflans sem snýst að mestu um að sýna viðskiptamönnum almenna kurteisi og að temja sjálfum sér bjartsýnt viðhorf til tækifæra. Í lokin kemur Schrader með viðvörun um að gerast ekki þrælar peninga. Peningar eiga að hans mati aðeins að vera tól til að öðlast áhyggjulaust líf, en miklu meiri gleði felst í því að hjálpa öðrum (innan skynsamlegra marka) en auðsöfnun. Við lestur bókarinnar kemur skemmtilega fram hvað lítið hefur í raun breyst á þeim 90 árum síðan hún var rituð. Gildi nútímans sem leggja grunn að velgengni, til dæmis traust og samviskusemi, eru þau sömu og reyndir menn lögðu sem lífsreglur fyrir tæpri öld í viðskiptaumhverfi sem svipar til þess sem ríkir í dag.

Veru Schraders hér á landi lauk haustið 1915 en þá vildi hann fara til Þýskalands, en eins og nafn hans gefur til kynna var hann af þýskum ættum. Hann var orðinn fársjúkur og vildi því ljúka ævi sinni á heimaslóðum. Mikið var um dýrðir á Akureyri þegar hann fór úr höfn, enda hafði hann orðið mjög vinsæll með frumkvöðlastarfi sínu og góðgerðarstarfsemi þau ár sem hann bjó hér. Tveimur dögum eftir að skipið lagði úr höfn gaf hann skipverjum allt sitt fé og fleygði skjölum sínum út í sjó. Daginn eftir hvarf hann og er talið að hann hafi bundið enda á ævi sína.

Útgáfan sem nú er fáanleg er lítil bók sem kom út á þessu ári og á viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands heiðurinn af þeirri útgáfu. Hún hefst með fræðandi og afar vel skrifuum formála eftir Ásgeir Jónsson, en formálinn er heimild þessarar umfjöllunar. Í lok formálans segir Ásgeir að "Heilræði Schraders [eigi] það sannarlega skilið að öðlast sess sem ein helsta perla íslenskra viðskiptabókmennta". Það eru orð að sönnu.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.