[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég horfi rannsóknaraugum á konuna fyrir framan mig - á jarpt stutt hárið, breið kinnbein og stór augun, svolítið kembd á lit bak við gleraugun - augnaráðið fullt af einurð.
Ég horfi rannsóknaraugum á konuna fyrir framan mig - á jarpt stutt hárið, breið kinnbein og stór augun, svolítið kembd á lit bak við gleraugun - augnaráðið fullt af einurð. Ég er að bera útlit Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar saman við myndir af Grími Thomsen ljóðskáldi og fyrrum áhrifamanni í dönsku og íslensku þjóðlífi og ættfólki hans. Meðan á glæstum ferli hans erlendis stóð vitjaði hann öðru hverju átthaganna, meðal annars sumarið 1866. Einmitt þá var Þuríður nokkur Þorgeirsdóttir vinnukona í Pálshúsi í Reykjavík. Hún ól dóttur 19. maí 1867 og sagði sínu nánasta skylduliði að Grímur Thomsen væri barnsfaðir hennar, þótt Jón Ólafsson, ógiftur maður á Sýruparti á Akranesi, væri lýstur faðir stúlkunnar í kirkjubókum.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður er í hópi afkomenda Sigurlaugar Jónsdóttur. En hvernig frétti um hún hin meintu ættartengsl við Grím Thomsen?

"Faðerni Sigurlaugar, langömmu minnar, var ættarleyndarmál lengi vel, afi minn, Marinó Jónsson, sem var dulur og hlédrægur maður, hvíslaði þessu leyndarmáli að mér þegar ég var barn og var að lesa ljóð eftir Grím Thomsen, en sagði jafnframt: "Þetta er leyndarmál fjölskyldunnar sem við tölum ekki um"," segir Margrét.

Þuríður dó ung

Nú er ættarleyndarmálið hins vegar aðgengilegt í bókinni Lífsþorsti og leyndar ástir, þar sem Kristmundur Bjarnason bregður upp svipmyndum úr lífi Gríms Thomsens og nokkurra samferðamanna, í þeirri bók eru myndir af Grími og ættmönnum hans.

Í umræddri bók kemur fram að Grímur, hafði mörgum árum áður en Þuríður Þorgeirsdóttir ól dóttur sína Sigurlaugu, eignast launson með dönsku skáldkonunni Magdalenu Krag, sem hann heldur ekki gekkst við en hafði þó forgöngu um að Ingibjörg móðir hans á Bessastöðum fengi að hitta. Ekki er hins vegar vitað til að Grímur hafi haft nein afskipti af Sigurlaugu og hið meinta faðerni fór lengi leynt

Afkomendur Sigurlaugar herma að henni hafi verið komið fyrir hjá móðurfólki sínu eigi löngu eftir að hún var í heiminn borin og hjá því fólki ólst Sigurlaug upp. Þuríður móðir hennar dó aðeins fertug að aldri, úr veikindum, en hafði verði mjög heilsulaus um nokkurn tíma áður. Hún var á þeim tíma vinnukona hjá Grími Thomsen á Bessastöðum, en þar lést hún 24. maí 1870.

Í ágústbyrjun sama ár kvæntist Grímur Jakobínu Jónsdóttur, 35 ára prestsdóttur frá Hólmum við Seyðisfjörð. Grímur og Jakobína eignuðust ekki börn saman en ólu upp fósturbörn.

Kemur úr samheldinni fjölskyldu

Margrét ólst upp hjá foreldrum sínum, Hallgrími Marinóssyni og Arndísi Kristínu Sigurbjörnsdóttur, ásamt þremur systrum sínum á svipuðum aldri, og í sama húsi bjuggu foreldrar Hallgríms, Marinó og Katrín Kristín Hallgrímsdóttir. Marinó var sem fyrr sagði eitt sex barna Sigurlaugar, meintrar dóttur Gríms Thomsens og eiginmanns hennar Jóns Jónssonar silfursmiðs.

"Ég átti mjög góða æsku og kem úr samheldinni fjölskyldu, þar sem bjuggu saman þrír ættliðir. Mamma var heimavinnandi húsmóðir. Ég hafði herbergi uppi hjá afa og ömmu og spjallaði oft og mikið við þau, ekki síst afa, við vorum miklir vinir.

Þegar ég fór til náms í Svíþjóð þótti mér fyrir því að skilja við þau, - þau voru orðin svo gömul."

En Margrét á ekki bara hlýjar minningar frá æskuheimili sínu, hún á fjögur börn sem hún býr með á fallegu heimili við Laugalæk í Reykjavík. Á veggjunum eru glæsileg listaverk af ýmsu tagi og í bókahillunum eru gamlar bækur sem hún keypti að eigin sögn fyrir vasapeningana meðan aðrar unglingsstúlkur keyptu sér föt og snyrtivörur.

"Ég varð strax hrifin af því sem gamalt var og fannst það dýrmætt. Ég gekk þó ekki með þann draum að verða fornleifafræðingur þegar ég var í menntaskóla. Þvert á móti ætlaði ég að verða læknir, enda starfaði ég með námi í MR á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í meinafræði."

Í bók Kristmundar Lífsþorsti og leyndar ástir er lýsing á Sigurlaugu, meintri langömmu Margrétar: "Lágvaxin kona, fölleit og skarpleit, ákveðin í fasi og dugleg."

Ég spyr Margréti hvort hún kannist við eitthvað á myndum af Grími og nánum ættingjum hans í svipmóti sinnar fjölskyldu.

"Sumir vilja meina að svo sé en engar rannsóknir hafa verið gerðar í þessu máli.

Og kannski er slíkt rétt viðhorf - spennandi ættarleyndarmál er vafalaust meira kitlandi en erfðafræðileg vissa, mál sem er skemmtilegt að ræða um í áranna rás og velta fyrir sér á samkomum fjölskyldna, þetta er fjarri því eina dæmið um meinta rangfeðrun á Íslandi. Einu sinni sagði mér gamall ættfræðingur að í þeirra hópi væri talið að sjöundi hve Íslendingur væri rangfeðraður. Ég sel þessa kenningu ekki dýrar en ég keypti.

"Fjölskyldusögur af ýmsu tagi eru hluti af menningarsögu okkar allra. Ég kem úr samheldinni fjölskyldu og legg áherslu á samheldni í uppeldi barna minna," segir Margrét.

"Börnin mín hafa mikið samband við foreldra mína og eldri dætur mínar tvær voru svo lánsamar að hafa alla tíð náið og gott samband einnig við ömmu sína og afa í föðurætt, þau Bettý og Þráin Löve. Á heimili þeirra voru þær daglegir gestir. Þetta samband var þeim mikils virði og mótaði þær að hluta." Börn Margrétar eru Arndísi Sue-Ching og Kolbrún Þóra Löve, 19 og 15 ára og Auður og Brynjar Guðlaugsbörn, sem eru 8 ára.

Latína, klassísk fræði og fornleifafræði

En hver skyldu hafa verið tildrög þess að Margrét lagði fyrir sig fornleifafræði í stað þess að helga sig læknisfræðinni eins og ætlunin var á menntaskólaárunum?

"Ég lærði latínu í menntaskóla til að undirbúa mig fyrir nám í læknisfræði og þegar ég kom til Svíþjóðar hafði ég skráð mig í tannlækningar. En um þetta leyti eignaðist ég fyrstu dóttur mína og hóf í framhaldi af því nám í latínu. Það nám leiddi út í klassísk fræði og fornleifafræði. Eftir að ég útskrifaðist bætti ég við mig sagnfræði.

Minn starfsferill hefur hins vegar þróast þannig að frá 25 ára aldri hef ég verið í stjórnun. Síðustu árin hef ég verið að þroska mig sem stjórnanda, fremur en fræðimann. Mér finnst stjórnun skapandi, aðalatriðið er ekki síður hin mannlegu samskipti en hin fjölbreyttu verkefnin. Á því byggir góður árangur.

Ég er svo heppin að eiga skipti við gott fólk og ráðgjafa í mínu starfi. Mikilvægast í fari fólks finnst mér vera heiðarleiki. Ég er alltaf að sjá betur og betur hvað heiðarleiki er mikilvægur en baktjaldamakk og "plott" á bak við tjöldin óheppilegt atferli. Kannski er það veikleiki í mínu fari en ég trúi á heiðarleika í fari fólks þangað til annað kemur í ljós. Framsýni er annað lykilorð í mínu starfi.

Það er einkar spennandi að starfa á Þjóðminjasafninu, þeirri virðulegu 140 ára gömlu stofnun þar sem mjög mikið er að gerast. Jafnframt því að hús safnsins við Suðurgötu verður opnað á næsta ári er verið að endurskoða hlutverk safnsins og fyrirkomulag. Tengsl þeirra hluta sem varðveittir eru í safninu við fortíðina finnast mér heillandi, sem og hafa samskipti við fólk um allt land varðandi starfið veitt mér lífsfyllingu, ég hef eignast vini víða um land, ekki síst meðal þeirra sem starfa við þjóðminjavörslu.

Hlutverk Þjóðminjasafns mikilvægt

Ég lít svo á að Þjóðminjasafnið gegni mjög mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi sem einkennist af hraða og sjálfsímyndarkreppu. Mikilvægt er að þekkja sögu sína í þesskonar nútíma - það gefur okkur jarðsamband.

Ég hef líka mikinn áhuga á alþjóðamálum - fjölþjóðasamfélaginu. Ísland hefur alltaf haft tengsl við umheimin, það var ekki einangrað eins og margir halda og er það því síður í dag, sögu þess ber því að skoða í víðara samhengi. Ég er formaður heimsminjanefndar ráðuneytisins sem hefur ásamt Þingvallanefnd undirbúið tilnefningu ríkisstjórnarinnar á Þingvöllum á heimsminjaskrá. Þetta er langur og flókinn ferill sem er í góðum farvegi. Niðurstaðan verður ljós í lok júní á næsta ári í Kína. Þar verður þá atkvæðagreiðsla á fundi UNESCO um hvort Þingvellir séu, vegna sögu sinnar og náttúru, einstakur staður á jörðinni. Nokkrir slíkir eru á heimsminjaská á jörðinni þeirra á meðal skakki turninn í Piza, Akropolis, Kínamúrinn, Pýramídarnir, Galapagos-eyjar og Eiffelturninnn."

Það er auðheyrt af framangreindu að Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður hugsar hátt, ekki síður en meintur forfaðir hennar Grímur Thomsen legationsráð gerði á sínum tíma. Hart blik í augum hennar, þegar hún ræðir áætlanir sínar, vitnar um sterkan vilja - en skyldi listæðin hafa ratað til hennar í gegnum völundarhús erfðanna?

Margrét hlær. "Nei, ég yrki ekki og mála ekki heldur. Það gera systur mínar hins vegar, það er listamannsblóð sem rennur í æðum þeirra og foreldra minna beggja og barnanna minna - hvaðan sem það kemur," segir hún sposk og bendir mér á ýmis listaverk á veggjum stofunnar, þau reynast öll eftir ættingja hennar.

Þótt Margrét sé í þessu viðtali nánast í sögulegu hlutverki og hafi fornleifafræðina að sínu aðalviðfangsefni segist hún eigi að síður hafa framtíðina að leiðarljósi.

"Ég hugsa alltaf talsvert langt fram í tímann og hef skýr markmið að stefna að, mér finnst spennandi að vinna og lifa þannig, ef maður horfir skammt fram á veginn er maður alltaf að detta um alls kyns hindranir. Ef horft er lengra fram eru vandamálin yfirstíganlegri," segir hún.

En hver er þá hennar framtíðarsýn?

"Nú eru álagsár og ég nýt þessara ára, ég er að koma börnunum mínum á legg og gegna mínu hlutverki fyrir Þjóðminjasafnið. Þegar sá ferill er á enda runninn tekur annað við. Ég hólfa líf mitt niður, hef vinnuna í einu hólfi og einkalíf mitt í öðru og reyni að hafa jafnvægi þar á milli, en læt börnin mín hafa forgang. Ég á góða vini og reyni að rækta vel vináttu við þá og fjölskylduna. En seinna, þegar ég hef lokið fyrrnefndum verkefnum, þá langar mig að sitja, laus við streitu, úti í náttúrunni og tyggja strá og vera til - og fá að stunda rannsóknir. Draumurinn er að skrifa bók um fornleifarannsóknir í Viðey." gudrung@mbl.is

Eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur