11. desember 2003 | Viðskiptablað | 952 orð

Hlutabréf & eignastýring

"Tímasvið okkar við rekstur hlutabréfasafna er oftast fáein misseri eða ár." Hlutabréf & eignastýring sem Sigurður B.

Undanfarna tólf mánuði hefur flóra viðskiptabókmennta á íslensku trúlega aukist meira en nokkru sinni fyrr. Þessi þróun er mikilvæg bæði fyrir íslenska tungu og aðgengi að fræðunum.
Undanfarna tólf mánuði hefur flóra viðskiptabókmennta á íslensku trúlega aukist meira en nokkru sinni fyrr. Þessi þróun er mikilvæg bæði fyrir íslenska tungu og aðgengi að fræðunum. Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands á heiðurinn af tveimum útgáfum á þessu ári. Fyrri bókin heitir Eignastýring, eftir Gylfa Magnússon, og einblínir hún, eins og nafnið gefur til að kynna, á verðlagningu hlutabréfa og samvali þeirra í sjóði. Síðari bókin er þýðing Steingríms Matthíasarsonar á Heilræði fyrir unga menn í verzlun og viðskiptum sem George H. F. Schrader skrifaði árið 1913. Formáli Ásgeirs Jónssonar í bókinni lýsir því nútímalega viðskiptaumhverfi sem þá ríkti hér á landi og sögu Schrader. Nýlega bættist enn einn titillinn í safnið og hefur hún náð þeim merka árangri að komast í hóp mest seldu bóka í jólabókaflóði ársins. Eignastýring Íslandsbanka á veg og vanda af útgáfunni. Áður hefur sami útgefandi (þá sem VÍB) sent frá sér ritin Fjármálahandbók VÍB árið 1992 og Verðbréf og áhætta árið 1994. Síðari bókin hefur löngum verið notuð sem inngangur kennsluefnis í fjármálafræðum og uppflettirit varðandi ýmis atriði fjármálafræða en sumt efni hennar er þó orðið úrelt. Geta má að hægt er að nálgast efni bókarinnar á vef Íslandsbanka, www.isb.is, án endurgjalds.

Nýja bókin heitir Hlutabréf & eignastýring: Að velja hlutabréf og byggja upp eignir og er markmið hennar að lýsa með einföldum og aðgengilegum hætti helstu leiðum við val hlutabréfa. Áhersla er lögð á aðferðir sem miðast að því að ná ákveðinni ávöxtun með tilliti til áhættuþols fjárfesta. Sjónum er aðallega beint að tveimur fjárfestingarleiðum hlutabréfa, hlutlausu leiðinni og virðisfjárfestingu með tímasetningu, en það eru helstu leiðir sem farnar eru við ávöxtun fjármuna hjá útgefendum. Auk þess er fjallað um helstu aðrar fjárfestingarleiðir sem í dag er stuðst við.

Bókinni er skipt í 5 meginhluta sem síðan er kaflaskipt. Fyrstu tveir hlutarnir fjalla um atriði sem skipt hafa fjárfesta helstu máli varðandi val á hlutabréfum, næstu tveir fjalla um tímasetningar á kaup og sölu hlutabréfa og síðasti hlutinn tvinnar saman þá kosti og galla sem um hefur verið rætt og þá einnig með auknu tilliti til áhættuþols og stefnumörkun sparnaðar. Í upphafi bókarinnar í fyrsta hlutanum, Að kaupa sneið af markaðinum eða tímasetja og velja hlutabréfin sjálfur, er farið yfir sögulega þróun íslensks hlutabréfamarkaða og því hvernig kostnaður tengdum hlutabréfaviðskiptum hefur óðfluga lækkað undanfarin ár hefur veitt almenningi aukin tækifæri til að vera beinir þátttakendur varðandi ávöxtun hlutabréfa. Næsti kafli á eftir kemur svo með góð og gild rök fyrir því að besta leiðin til langtímaárangurs í sambandi við hlutabréf sé að vera óvirkur þátttakandi á hlutabréfamörkuðum í þeim skilningi að forðast tíð kaup og sölu hlutabréfa. Þar sem afar fáir, þar með talið fokdýrir sjóðsstjórar og aðrir fjármálasérfræðingar, ná því að geta sér betur til um stöðu hlutabréfa en meðaltal markaðarins til lengri tíma þá verður slík stefna líklega tapleikur einn. Fyrsti hlutinn lýkur með umfjöllun um sögu íslenskra skuldabréfa, útskýringu á vöxtum, skuldabréf og áhrif gjaldmiðla, sem tengist síðan síðasta hlutanum. Annar hluti bókarinnar, Wall Street eftir 1900 og upphaf faglegrar greiningar, beinir sjónum sínum að helstu þáttum greiningar hlutabréfa og aðferðum þekktustu fjárfesta við hverja fjárfestingarstefnu, helstu áherslum við val þeirra, vinnuaðferðir og sú þróun sem lagði grunn að stefnu þeirra. Sú þróun nær bæði til sögulegrar þróunar á verðbréfamörkuðum í almennum skilningi og auk þess til persónulegra haga manna sem mótuðu þá sem fjárfesta. Fyrstu tveir kaflarnir fjalla um virka fjárfestingastefnu en næstu tveir beina athyglinni að mótun hlutlausu leiðarinnar, sem telst til óvirkrar fjárfestingastefnu. Umfjöllun um áhættuálag verðbréfa og skilvirkni markaða kemur í kjölfarið enda afar tengt umræðu hvort betra sé að nálgast fjárfestingar út frá virkri eða óvirkri stýringu.

Næstu tveir hlutar bókarinnar, Víxlun og tæknigreining frá 1980 og Tímasetning eftir 1990: Grunngreining og tæknigreining fléttast saman, fjalla um aðferðir við að tímasetja kaup og sölu verðbréfa. Það háir þessum köflum að mikið púður fer í umfjöllun og skýringar á ýmsum aðferðum tæknigreininga sem veldur því að áhugavert efni varðandi sveiflur og skilvirkni markaðarins, fókussöfn og arðsemiskröfur nýtur sín ekki sem skyldi, auk þess sem að umfjöllunin verður ekki eins hnitmiðuð og ella. Hefði að ósekju mátt sameina þessa tvo hluta og jafnvel tengja umræðuna um tímasetningar meira varðandi sálfræði markaðarins. John Templeton segir meðal annars í upphafi bókar að kaupa skal hlutabréf þegar bölsýni er ríkjandi, sem helst oftast í hendur við litla veltu á mörkuðum. Slíkt ástand var ríkjandi síðasta vetur þegar gengi hlutabréfa stóð í lágmarki síðustu misseri.

Síðasti hluti bókarinnar, Hlutabréf og eignastýring á 21. öldinni: Hlutlausa leiðin eða tímasetning, vegur síðan kosti og galla beggja aðferða og hvernig hægt sé að nýta báðar leiðir samtímis. Ólíkt bókinni Eignastýring, sem einblíndi á verðlagningu og samval hlutabréfa í sjóði, er einnig bætt við hugleiðingum um ávöxtunarmarkmið þar sem skuldabréf eru hluti af fjárfestingarsafni. Sýnd eru dæmi um skynsamleg markmið í ávöxtun með tilliti til fjárfestingartíma og áhættuþols og hvers megi vænta miðað við gefnar forsendur með tilliti til eignasamsetningar. Sýnt er fram á hversu miklu máli tími og skynsöm eignasamsetning skiptir fyrir langtímafjárfesta og að þolinmæði getur ávaxtað pund fólks á ótrúlegan hátt. Í lok bókarinnar er síðan ensk-íslenskur orðalisti, orðskýringar, og viðauki með kennitölum hlutabréfa, formúlur, vaxtatöflur, vísitölur og nokkrar fjármálavefsíður, sem vinnur saman í því að gera bókina aðgengilega lesningu fyrir bæði leikmenn og þá sem vinna við þessi fræði. Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, ritar í formála bókarinnar að mikilvægt sé að aðgangur sé fyrir hendi að yfirgripsmiklu riti á íslensku varðandi hlutabréfaviðskipti og stýringu eignasafna. Gaman væri ef útgáfa síðastliðna mánuði væri aðeins vísir af því sem koma skal varðandi útgáfu viðskiptabókmennta, enda munu vera fleiri rit í undirbúningi, meðal annars hjá Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Hlutabréf & eignastýring er vegleg bók sem vonandi leynist undir nokkrum jólatrjám í ár.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.