12. desember 2003 | Innlendar fréttir | 255 orð | 2 myndir

Ný Þjórsárbrú tekin í notkun

Framkvæmdir við nýja Þjórsárbrú kostuðu um 550 milljónir.
Framkvæmdir við nýja Þjórsárbrú kostuðu um 550 milljónir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FJÖLMENNI var við vígslu nýrrar Þjórsárbrúar um miðjan dag í gær. Samgönguráðherra Sturla Böðvarsson klippti á borða Rangárvallasýslumegin og naut aðstoðar Jóns Rögnvaldssonar vegamálastjóra.
FJÖLMENNI var við vígslu nýrrar Þjórsárbrúar um miðjan dag í gær.

Samgönguráðherra Sturla Böðvarsson klippti á borða Rangárvallasýslumegin og naut aðstoðar Jóns Rögnvaldssonar vegamálastjóra.

"Allir stórir og eftirminnilegir hlutir gerast í Rangárþingi," sagði einn af þingmönnum Suðurkjördæmis við þetta tækifæri. Sýslumaður Árnesinga svaraði hins vegar þannig að allra leiðir lægju í Árnesþing.

Nýja brúin er mikið mannvirki, 170 metra löng og 11 metra breið. Er hún í 9 höfum og borin uppi af 78 metra löngum boga úr stáli og steinsteypu. Hönnunardeild Vegagerðarinnar sá um þann þátt. Vélsmiðjan Normi í Vogum sá um smíði brúarinnar. Verktakafyrirtækið Háfell sá um vegagerð beggja vegna alls um 4 km leið.

Að sögn Valgeirs Þórðarsonar, yfirverkstjóra hjá brúarflokki Norma, var flókið verkefni að koma boganum yfir ána vegna þyngdar hans. Einnig var mikið rennsli í Þjórsá allan júlí og ágúst sl. verulegt vandamál.

Brúin er 5 km frá upptökum Suðurlandsskjálftans sem varð 21. júní árið 2000. Steyptar eru 6 metra bergfestur niður í klöppina. Getur miðja brúarinnar þolað svignun um 17 cm í sambærilegum skjálfta.

Gamla brúin var einbreið og er nú aðeins ein slík eftir á leiðinni frá Reykjavík til Kirkjubæjarklausturs. Að sögn Svans Bjarnasonar umdæmisstjóra var óhappatíðni við gömlu brúna veruleg, eða 1,65 á hverja milljón ekna km. Landsmeðaltal væri hins vegar 1.01.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði næsta stórverkefni sunnanlands vera endurbætur á Hellisheiði auk margra annarra verkefna í héraðinu.

Sævar Svavarsson hjá Norma ehf. þakkaði Vegagerðinni og hönnuðum náið samstarf. Hann benti á að brúin væri alíslensk hönnun og ekkert flutt inn nema hráefnið. Heildarkostnaður við mannvirkin er um 550 milljónir króna.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.