Sylvia Plath
Sylvia Plath
Þýðing: Fríða Björk Ingvarsdóttir. 337 bls. Salka 2003

GLERHJÁLMURINN (The Bell Jar) eftir bandarísku skáldkonuna Sylviu Plath kom fyrst út í Bretlandi í janúar árið 1963 aðeins mánuði áður en hún framdi sjálfsmorð þrítug að aldri. Bókin, sem var gefin út undir dulnefni, vakti ekki mikla athygli til að byrja með en eftir sjálfsmorðið vaknaði áhugi bæði lesanda og gagnrýnenda á verkinu, ekki síst eftir að það kom út í heimalandi höfundar. Hér réði tvennt mestu. Í fyrsta lagi er hér um að ræða sögu sem er augljóslega byggð á ævi og reynslu skáldkonunnar og lýsir öðrum þræði því andlega skipsbroti sem átti eftir að reynast henni um megn að brjótast út úr. Í öðru lagi er Glerhjálmurinn einstæð frásögn af því tvöfalda siðgæði sem ríkti á sjötta áratug 20. aldarinnar og því þröngt skorna hlutskipti sem konum var ætlað í vestrænu samfélagi rétt áður en hugarfarsbylting sjöunda áratugarins átti sér stað. Af þessum sökum hefur verkið öðlast sess sem eitt af lykilverkum kvennabaráttunnar og stendur fyllilega undir því án þess að slíkt hafi verið ætlun höfundar.

Þessi tvö atriði sem hafa verið nefnd, geðrænu vandamálin og uppreisn gegn kvenhlutverki virðast algjörlega samofin í Glerhjálminum. Hér hittum við fyrir unga, fallega og afburðagreinda stúlku, Esther Greenwood, sem hefur alla tíð brillerað í skóla og sópað að sér verðlaunum. Hún virðist standa við þröskuld þess sem gæti orðið glæsilegur ritferill. Hugur hennar stendur til skáldskapar, hún vill skoða heiminn og vinna afrek. En þrátt fyrir að hún hafi allt sem til þarf, hæfileika og elju, þá virðist umhverfið ætlast til þess að hún bæli drauma sína, giftist æskuunnustanum (verði "frú Buddy Willard"), hugsi um börn og bú og sætti sig við að vera "sá staður sem örin skytist af" á meðan karlmaðurinn "skytist eins og ör inn í framtíðina." (94) Þessa speki hefur hún frá Buddy sjálfum og móður hans, sem einnig eru á þeirri skoðun að karlmenn leiti félaga í hjónabandinu en konur leiti eftir öryggi til framtíðar. Esther lýsir því hins vegar yfir að hún kæri sig ekki um að giftast og segir: "Það síðasta sem mig langaði í var óendanlegt öryggi og að vera sá staður sem örvar skjótast frá. Ég þráði breytingar og spennu og að skjótast sjálf í allar áttir, eins og litaðar raketturnar á þjóðhátíðardaginn." (109) Þegar sagan hefst dvelur Esther ásamt tíu öðrum ungum stúlkum í New York í boði þekkts kvennatímarits sem þær eru ráðnar á í mánaðartíma. Þá upphefð hafa stúlkurnar hlotið í verðlaun fyrir afburðanámsárangur og eins og sögukona orðar það í upphafi frásagnar sinnar ættu þær að vera á hápunkti lífs síns. En eitthvað er ekki í lagi. Það er of langt bil á milli væntinga Estherar og þess lífs sem er þröngvað upp á hana í heimi fjölmiðla og tísku í heimsborginni og hún finnur að hún er að missa stjórnina: "[...] ég hafði bara ekki stjórn á neinu, ekki einu sinni sjálfri mér. Ég slengdist þetta frá hótelinu í vinnuna og í veislur, og úr veislum á hótelið og aftur í vinnuna, eins og tilfinningalaus sporvagn. Ég býst við að ég hefði átt að vera hrifin eins og flestar hinar stúlkurnar voru, en ég gat ekki fengið sjálfa mig til að sýna viðbrögð. Mér fannst ég vera afar kyrr og afar tóm, eins og miðja hvirfilbylsins hlýtur að vera, þegar hún líður dauflega áfram í öllum þeim gauragangi er umlykur hana." (7) Segja má að Glerhjálmurinn skiptist í tvo meginhluta. Með allnokkurri einföldum má segja að sá fyrri lýsi hinum hæga en örugga sálræna niðurbroti sem leiðir að lokum til sjálfsmorðstilraunar Estherar. Sá síðari lýsir síðan viðbrögðum umhverfisins og þeirri meðferð sem hún gengur í gegnum á misjöfnum stofnunum hjá misgóðum læknum, og hinni hægu og brothættu leið til bata. Samtímis er sagan persónulegt uppgjör höfundar við bandarískt samfélag, úrelt gildi þess og tvískinnungshátt, eins og áður er lýst.

Þótt Glerhjálmurinn sé að verulegu leyti byggður á ævi og reynslu Sylviu Plath ber að hafa í huga að hér heldur mjög snjallt skáld á penna. Þegar hún skrifar þessa einu skáldsögu sína er hún þegar orðin þrautþjálfað ljóðskáld og í dag er hún talin með merkustu bandarísku ljóðskáldum 20. aldarinnar. Glerhjálmurinn er skrifaður á afar tæru og hversdagslegu máli sem við fyrstu sýn gæti virkað einfalt og án mikils undirtexta. En þegar nánar er að gætt byggir höfundur verkið ekki síður upp á táknum, hnitmiðuðu myndmáli og hliðstæðum sem gera frásögnina margræða og víkkar út merkingarsvið hennar. Gott dæmi er upphafsmálsgreinin sem hefst á þessa leið: "Þetta var undarlegt og þjakandi sumar, sumarið sem þeir tóku Rosenberg-hjónin af lífi með raflosti, og ég vissi eiginlega ekki hvað ég var að gera í New York. Ég veit ekkert um aftökur. Mér verður óglatt við tilhugsunina um líflát með raflosti [...]." Frásögnin af lífláti með raflosti kallast að sjálfsögðu á við þá raflostsmeðferð sem Esther sætir síðar í bókinni, eftir að hún hefur sjálf gert misheppnaða tilraun til að svipta sig lífi. Þá vísar textinn (orð á borð við: óglatt, líflát, aftaka) til þess þegar hún er nærri dáin úr matareitrun sem hún fékk í boði á vegum kvennatímaritsins Ladies´ Day. Þegar hún vaknar á spítala eftir að hafa verið við dauðans dyr segir hjúkrunarkonan við hana: "Það var eitrað fyrir þér [..] Eitrað fyrir ykkur öllum." (61). Í vissum skilningi er stöðugt eitrað fyrir þessum ungu stúlkunum með stanslausum áróðri sem varða kyn þeirra og kvenhlutverk og fer fram á tískusýningum, snyrtivörukynningum, loðfeldasýningum og matreiðslukynningum hjá tilraunaeldhúsum kvennablaðanna. Eitrunin er sem sagt bæði andleg og líkamleg og segja má að hvoru tveggja gangi næstum að söguhetjunni dauðri.

Með Glerhjálminum varð Sylvia Plath brautryðjandi; ekki hafði áður verið fjallað af eins mikilli hreinskilni og vægðarleysi um geðræn vandamál, um úrelt borgarleg gildi og rangsnúnar hugmyndir um kvenhlutverk og kynlíf. Það er fagnaðarefni að fá þessa klassísku sögu á íslensku og vonandi er hér um að ræða upphaf á nýjum bókaflokki hjá Sölku. Fríða Björk Ingvarsdóttir fylgir þýðingu sinni úr hlaði með ítarlegum eftirmála þar sem hún fjallar bæði um verkið svo og um ævi og andlát Sylviu Plath og um hjónaband hennar og breska lárviðarskáldsins Teds Hughes. Mikill fengur er að eftirmálanum, sérstaklega fyrir þá sem lítið þekkja til skáldkonunnar og verka hennar. Þýðing Fríðu Bjarkar er í flesta staði mjög vönduð. Henni tekst vel að miðla einfaldleika og tærleika frummálsins án þess að táknrænar skírskotanir myndmálsins glatist. Stöku sinnum koma þó fyrir orð sem að mínu mati eru nokkuð upphafin og því í andstöðu við einfaldleikann (t.d. línhjúpað og þrákelknislegt). Fyrir kemur að enskan skín í gegn á klaufalegan hátt (t.d. þegar Buddy Willard segir við Esther: "[...] mér datt í hug að þú gætir kannski sagt mér eitthvað." (303) Hann er ekki að biðja hana að segja sér "eitthvað" heldur þvert á móti "nokkuð" eða "dálítið" (tell me something), þ.e. hann vill fá svar við spurningu sem brennur á honum. Nokkrar fljótfærnisvillur mætti síðan laga fyrir næstu prentun (t.d. röng blaðsíðutöl í vísunum í neðanmálsgreinum í eftirmála þýðanda). Að lokum get ég ekki staðist að lýsa því yfir að sellófankonan á forsíðunni er til lýta að mínu mati og óþarfi að reyna að betrumbæta táknmál titilsins á þennan hátt.

Soffía Auður Birgisdóttir