Hlynur Bæringsson úr liði Snæfells - undir körfunni.
Hlynur Bæringsson úr liði Snæfells - undir körfunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forráðamenn íslenskra körfuknattleiksfélaga tóku þá ákvörðun á ársþingi Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, sl. vor að leyfa liðum í efstu deild að fá til sín eins marga erlenda leikmenn og þau vildu.

Forráðamenn íslenskra körfuknattleiksfélaga tóku þá ákvörðun á ársþingi Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, sl. vor að leyfa liðum í efstu deild að fá til sín eins marga erlenda leikmenn og þau vildu. Að því gefnu að kostnaður við komu þeirra rúmaðist undir svokölluðu launaþaki, sem er eins og staðan er í dag 500.000 kr. á mánuði. Margar spurningar hafa vaknað um hvort þetta fyrirkomulag sé íslenskum körfuknattleiksmönnum til framdráttar og Sigurður Elvar Þórólfsson velti fyrir sér stöðu mála í efstu deild karla.

Nú þegar keppnistímabilið í efstu deild karla er hálfnað hafa liðin náð að átta sig betur á þessu nýja kerfi en vissulega vakna margar spurningar um hvort þetta fyrirkomulag sé íslenskum körfuknattleiksmönnum til framdráttar.

Alls hafa 30 erlendir leikmenn komið við sögu hjá úrvalsdeildarliðunum 12 það sem af er leiktíð. Tveir Bandaríkjamenn með íslenskt ríkisfang eru fyrir utan þann hóp en vissulega má enn líta á þá sem erlenda leikmenn enda er um að ræða atvinnumenn í faginu; þá Brenton Birmingham hjá Njarðvík og Kevin Grandberg hjá ÍR.

Nýju reglurnar hafa hins vegar ekki fjölgaði erlendum leikmönnum í íslenskum liðum, enn sem komið er, sé miðað við síðasta keppnistímabil. Í fyrra komu 32 erlendir leikmenn við sögu hjá íslensku liðunum. Sum lið notuðu allt að fimm leikmenn á meðan önnur notuðu aðeins einn erlendann leikmann alla leiktíðina.

Það sem af er leiktíðinni hafa níu erlendir leikmenn farið frá liðum sínum eftir að samningi þeirra hafði verið rift. Samkvæmt hefðinni var flestum þeirra sagt upp störfum nú í desember, um leið og þeir fóru til síns heima í jólafrí. Skörð þeirra verða án efa fyllt á nýju ári með nýjum erlendum leikmönnum.

Einokun erlendra leikmanna

Þegar litið er á tölfræðina það sem af er vetri er aðeins einn íslenskur leikmaður sem kemst á lista yfir 20 stigahæstu að meðaltali í leik.

Fyrirliði Grindvíkinga, Páll Axel Vilbergsson, er þar í 11. sæti með 23,3 stig að meðaltali í 11 leikjum í Intersport-deildinni. Fimm íslenskir leikmenn eru í hópi þeirra sem eru í 20.-30. sæti yfir stigahæstu leikmenn landsins og af 40 stigahæstu eru alls 12 íslenskir leikmenn þar á lista.

Allt frá því að erlendir leikmenn fóru að leika reglulega með íslenskum liðum hafa þeir ávallt verið í efstu sætum á lista yfir stigahæstu leikmenn Íslandsmótsins. John Hudson skoraði 30,3 stig að meðatali í 19 leikjum með KR tímabilið 1978-79. Annar KR-ingur, Steward Johnson var stigahæstur tímabilið 1982-1983 með 38,2 stig í leik en í kjölfarið var íslenskum liðum bannað að hafa erlenda leikmenn á sínum snærum allt fram til ársins 1989.

Guðjón Skúlason var í fjórða sæti á lista yfir stigahæstu leikmenn Íslandsmótsins tímabilið 1989-90, með 25,8 stig að meðaltali í leik og á lista yfir tíu stigahæstu voru þrír íslenskir leikmenn, Guðjón í því fjórða, Valur Ingimundarson í því sjötta með 22,8 stig og Guðmundur Bragason með 22,7 stig.

Næstu árin þar á var ávallt að finna fjóra til fimm íslenska landsliðsmenn í hópi tíu stigahæstu leikmanna landsins og tímabilið 1994-1995 var Kristinn G. Friðriksson í þriðja sæti á þessum lista með 27,1 stig að meðaltali og Herbert Arnarson í því fjórða með 26,9 stig.

Keppnistímabilið 1995-1997 var aðeins einn íslenskur leikmaður á lista yfir tíu stigahæstu leikmenn landsins, tímabilið 1997-1998 voru aðeins erlendir leikmenn í tíu efstu sætunum á þessum lista og sömu sögu er að segja allt fram til tímabilsins 2001-2002 er Helgi Jónas Guðfinnsson var í tíunda sæti með 21,4 stig að meðaltali.

6 milljónir á mánuði

Ef aðeins er tekið mið af einum tölfræðiþætti, stigaskori, er ljóst að íslenskir leikmenn hafa ekki náð að slá erlendum leikmönnum við á þessu sviði undanfarin ár. Með fjölgun erlendra leikmanna er ljóst að þeir láta mikið að sér kveða á þessu sviði leiksins.

Það má velta því fyrir sér hvort fjöldi erlendra leikmanna hefur yfir höfuð jákvæð áhrif á körfuknattleiksíþróttina.

Áhorfendatölur virðast ekki vera í línulegu samhengi miðað við þá fjárhagslegu skuldbindingu sem ráðist er í á hverjum vetri. Ef öll liðin 12 eru við efri mörk launaþaksins fara 6 milljónir króna í launatengdar greiðslur frá liðunum í hverjum mánuði eða 42 milljónir alls á meðan keppnistímabilið stendur yfir.

Að auki leggst til ferðakostnaður og ýmislegt annað sem tilheyrir slíkum rekstri.

Ef litið er yfir leikmannahóp liðanna 12 í efstu deild er ljóst að flestir erlendir leikmenn eru í röðum liða utan af landi. KFÍ er með þrjá, Tindastóll þrjá, Þór Þorlákshöfn var með þrjá í upphafi leiktíðar. Breiðablik er með þrjá erlenda leikmenn í sínum röðum og ÍR-ingar eru einnig með þrjá erlenda leikmenn ef Kevin Grandberg er talinn með. Önnur lið eru með tvo erlenda leikmenn í sínum röðum.

Þar sem að kostnaðurinn við erlendu leikmennina er mikill þarf starf þeirra sem stýra körfuknattleiksdeildum víða um land að vera öflugt hvað varðar að ná í fjármagn til reksturs deildanna. Það eru gömul sannindi og ný að þeir sem taka að sér að sitja í stjórn íþróttafélaga gera lítið annað en að afla fjár til reksturs deildanna. Minni tími gefst til þess að vinna með umgjörð leikjanna sem oft á tíðum er ekkert annað tónlist úr hljóðkerfi fyrir leik, tveir gráklæddir dómarar og tíu leikmenn.

Norðmenn í vanda

Í Noregi var gerð mikil breyting á efstu deild karla í upphafi tímabilsins 1999-2000 þar sem að stofnuð var sérstök "ofurdeild" þar sem aðeins átta liðum var boðið að vera með. Og aðeins þau lið sem stóðust kröfur um ýmsa hluti áttu möguleika á því að komast þar inn. Þar má nefna að gerð var sú krafa að tveir leikmenn liðsins yrðu að vera atvinnumenn, (nánast öll liðin völdu þann kostinn að hafa tvo bandaríska leikmenn í sínum röðum), liðin áttu að bjóða áhorfendum upp á skemmtiatriði fyrir leik, í leikhléum og þegar færi gafst á slíku, fjárhagur liðanna varða að vera skotheldur og aðeins þau lið sem náðu að fá lágmarksfjölda áhorfenda á leiki sína máttu eiga von á því að fá inni í deildinni að ári. Ekkert lið féll með formlegum hætti og að lokinni deildakeppni tók við úrslitakeppni efstu liðanna.

Sá sem þetta ritar bjó í Noregi á þessum tíma og í fyrstu var mikið um dýrðir og áhorfendur flykktust á leikina. Frá þeim tíma hefur "bólan" aðeins hjaðnað en körfuknattleiksíþróttina er komin úr kjallaranum í Noregi og upp á yfirborðið sem spennandi valmöguleiki fyrir þá sem hafa áhuga á slíku.

Hins vegar voru þeir aðilar sem sáu um framgang norska körfuknattleikslandsliðsins ekki eins sáttir við að norskir leikmenn væru að mestu í aukahlutverki hjá flestum liðum landsins. Tveir Bandaríkjamenn voru í röðum flestra liða og að auki voru leikmenn frá Svíþjóð, fyrrum Júgóslavíu, Eystrarsaltslöndunum og víðar að finna í leikmannahópum norsku liðanna. Eftir nokkuð þref var sú regla tekin upp í "ofurdeildinni" að ávallt yrðu tveir alnorskir leikmenn að vera inni á á sama tíma í leikjunum. En þessi regla var tekin fyrir hjá Evrópusambandinu og á þeim bænum var úrskurðað að ekki væri leyfilegt að hafa slíkar reglur í gangi hjá norskum körfuknattleiksliðum.

Ef sami háttur verður á næstu misseri í úrvalsdeild karla er fyrirséð að erlendir leikmenn munu leika stærstu hlutverkin hjá sínum liðum. Kannski verður það sama uppá teningnum og hinn 4. desember sl. er Tindastóll lagði ÍR á útivelli í framlengdum leik, 102:96. En þrír Bandaríkjamenn í liði Tindastól skoruðu 83,2 % stiga liðsins í þeim leik, þrír leikmenn liðsins skiptu hinum 18 stigum leiksins á milli sín.

Jón Arnór Stefánsson hjá Dallas Mavericks, Logi Gunnarsson hjá Giessen 46'ers eru fremstir í flokki íslenskra atvinnumanna á erlendri grund. Fjölmargir íslenskir leikmenn eru í skólum vestanhafs, og má þar nefna Jakob Sigurðarson, Fannar Ólafsson og Helga Magnússon. Óðinn Ásgeirsson leikur í efstu deild í Noregi og hinn 16 ára gamli bakvörður Pavel Ermolinskij er samningsbundinn franska úrvalsdeildarliðinu Vichy. En það má velta þeirri spurningu upp hvort slíkir leikmenn verði til staðar á Íslandi í framtíðinni ef erlendir leikmenn verða allsráðandi í flestum liðum deildarinnar. Verður uppistaðan í íslenska landsliðinu baráttuglaðir "ruslakallar" sem hafa ekki átt öðru að venjast en að hirða "afgangsmola" sem hrökkva af borðum þeirra erlendu í leikjum liðsins. Aðeins örfáir íslenskir leikmenn eru fyrsti valkostur er kemur að sóknarleiknum. Pál Axel Vilbergsson og Helga Jónas Guðfinnsson úr Grindavík að auki má nefna þá Eirík Önundarson ÍR, Svavar Birgisson fyrrum leikmann Þórs frá Þorlákshöfn, Pálma Frey Sigurgeirsson Breiðablik, Friðrik Stefánsson Njarðvík og Kristin Friðriksson úr liði Tindastóls.

Af 60 byrjunarliðsstöðum hjá liðunum 12 þarf að að koma að 32 erlendum leikmönnum, aðeins 28 íslenskir leikmenn eru því í byrjunarliði að öllu jöfnu og hefur þeim farið fækkandi undanfarin misseri.

Á að banna erlenda leikmenn?

Valur Ingimundarson, þjálfari körfuknattleiksliðs Skallagríms úr Borgarnesi, er einn leikreyndasti leikmaður og þjálfari sem Íslendingar hafa átt. Í viðtali við Morgunblaðið hinn 17. febrúar sl. sagði Valur að hans mati væri ábyrgð íslenskra leikmanna undanfarin misseri ekki mikil hjá sínum liðum. "Mér finnst að íslenskir leikmenn þurfi að taka meiri ábyrgð í sínum liðum. Ég naut góðs af því sjálfur að spila í úrvalsdeildinni í sjö ár þar sem útlendingar voru bannaðir. Á þeim tíma þurfti maður að taka af skarið og taka afleiðingunum, Teitur Örlygsson, Guðjón Skúlason og Jón Kr. Gíslason nutu einnig góðs af þessu banni á sínum tíma," sagði Valur í því viðtali.

Þeir sem mæla með erlendum leikmönnum segja margir að þeir lyfti gæðum íslenskra leikmanna á æfingum í keppni. Það má vel vera en aðrir segja að þeir séu of margir og haldi íslenskum leikmönnum fyrir utan liðið og hefti eðlilegar framfarir leikmanna sem annars væru að leika mikið með liðum sínum.

Kvennalið landsins hafa farið varlega í þessum efnum enda hafa kvennalið ekki haft eins greiðan aðgang að fjármagni til þess að fá til sín erlenda leikmenn. Sex lið skipa efstu deild kvenna og aðeins þrjú þeirra hafa erlenda leikmenn í sínum röðum, ÍR, Njarðvík og KR.

ÍS er þar í efsta sæti og Keflavík fylgir þar fast á eftir, en bæði liðin eru án erlends leikmanns. Sem stendur en oftar en ekki hafa liðin fengið liðsstyrk fyrir lokaátökin í úrslitakeppninni. Neðsta liðið Grindavík er ekki með erlendan leikmann á sínum snærum og í víðu samhengi er sú ákvörðun liðsins að mínu mati skynsamleg. Ungir leikmenn fá að axla ábyrgð, mótlætið er mikið en reynslan ómetanleg.

Eins og áður segir er áhorfendafjöldi á leikjum í efstu deild karla í engu samræmi við þann kostnað sem liðin leggja út í á hverju ári. Vissulega eru margir af þeim erlendu leikmönnum sem hér leika mjög spennandi en fólk flykkist ekki á leikina til þess að sjá tilþrif þeirra. Hvað sem því veldur. Keppnisfyrirkomulið hefur verið umdeilt og má þar nefna að ellefu leikja sigurganga Grindvíkinga á leiktíðinni skilar liðinu aðeins heimaleikjarétti í úrslitakeppni haldi þeir áfram á sömu braut. Deildarmeistaratitill er beiskur á bragðið ef Íslandsmeistaratitill fylgir ekki í kjölfarið.

seth@mbl.is