Höfuðstóll húsnæðisláns í erlendri mynt hækkar ef gengi krónunnar lækkar.
Höfuðstóll húsnæðisláns í erlendri mynt hækkar ef gengi krónunnar lækkar.
HÚSNÆÐISLÁN í erlendri mynt hafa verið í boði í töluverðan tíma hjá bönkum og sparisjóðum.

HÚSNÆÐISLÁN í erlendri mynt hafa verið í boði í töluverðan tíma hjá bönkum og sparisjóðum. Lán til 40 ára virðast þó hvergi vera í boði nema hjá Íslandsbanka, en frá því var sagt á forsíðu Morgunblaðsins í gær að bankinn hygðist bjóða slík lán fyrir allt að 80% af verði fasteignar.

Þeir sem Morgunblaðið leitaði viðbragða hjá telja áhættuna sem fylgi lánum í erlendri mynt vera meiri en áhættu sem fylgir almennum lánum til húsnæðiskaupa. Lánin hafi hingað til ekki verið kynnt með sérstökum hætti vegna þeirrar áhættu sem þeim fylgir. Íbúðalánasjóður fagnar því að valkostum um fjármögnun húsnæðis fjölgi.

Friðrik Halldórsson, forstöðumaður viðskiptabankasviðs Kaupþings Búnaðarbanka, segir ljóst að meiri áhætta fylgi gengistryggðum lánum en verðtryggðum. Hann segir lán í erlendum myntum til húsnæðiskaupa nú þegar standa viðskiptavinum bankans til boða. "Við höfum verið að bjóða svona lán til okkar viðskiptavina en ekki auglýst það. Gengisáhættan getur verið mikil og þess vegna hefur þetta ekki verið auglýst. Áhættan í þessum lánum er meiri en menn horfa á í dag á venjulegum húsnæðislánum."

Að sögn Friðriks er nauðsynlegt að bankar sem bjóða upp á svona lán bjóði einnig upp á gengisvarnir þar sem lántakandi geti tapað töluverðu fé á gengisbreytingum.

Lán veitt til fimmtán ára hjá SPH

Að sögn Magnúsar Ægis Magnússonar forstöðumanns bankaþjónustu hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, hefur sparisjóðurinn boðið upp á húsnæðislán í erlendri mynt í um þrjá mánuði en þau hafi ekki verið auglýst. Hann segir að lánin séu veitt til 15 ára með framlengingarákvæðum, en að rætt hafi verið að bjóða upp á lengri lán.

"Við kusum að auglýsa þetta ekki, vildum sjá hvernig þetta færi af stað. Fólk spyr mikið um þessi lán. Við förum mjög vel í gegnum það með viðkomandi viðskiptavini hver áhættan er að taka gengistryggt lán. Dollarinn er núna í 70 krónum en það er ekki mjög langt síðan hann var í kringum 100," segir Magnús Ægir.

Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri hjá SPRON, segir að mönnum komi á óvart að húsnæðislán Íslandsbanka séu kynnt sem nýjung. Hann segir það töluvert algengt í bankakerfinu að fólki biðji sérstaklega um að taka lán í erlendum myntum, en hins vegar fylgi því meiri áhætta. "Við höfum ráðlagt fólki að fjármagna til dæmis ekki stóran hluta fasteignar með láni í erlendum myntum. Það er klárlega meiri áhætta að taka svona lán og þess vegna þarf sá sem vill taka lánið góða ráðgjöf. Við höfum lagt áherslu á að fara vel yfir þetta með viðkomandi."

Ólafur segir að SPRON hafi veitt húsnæðislán allt að 80% af verði íbúðar og að í einhverjum tilfellum hafi hluti af láni eða jafnvel öll fjárhæð verið í erlendum myntum. "Við höfum verið að lána upp í 80% en því fylgir mikil áhætta. Íslenska krónan hefur verið mjög sterk að undanförnu og því þarf gengið ekki að breytast mikið til að fólk lendi í vandræðum. Þá þarf að hafa í huga að fasteignaverð er mjög hátt um þessar mundir. Við höfum lengi boðið upp á þennan möguleika en teljum lán í erlendum myntum ekki henta öllum vegna áhættunnar," segir Ólafur.

Lán á Evrópukjörum frá Landsbankanum

Ingólfur Guðmundssson, framkvæmdastjóri Einstaklings- og markaðssviðs Landsbankans, segir að frá því í vor hafi bankinn boðið upp á fasteignalán í erlendri mynt fyrir milligöngu dótturfélags síns, Heritable Bank á Englandi. "Þar erum við að bjóða Evrópukjör á fasteignalánum. Það eru mun lægri vextir af þeim lánum en lánum í íslenskri mynt. Vissulega hefur gengi íslensku krónunnar sveiflast mikið og því teljum við ekki ráðlagt að fara hærra varðandi veðsetningarhlutfall en í 60% þegar um er að ræða fasteignalán í erlendri mynt.

Bankinn hefur ákveðið að bjóða nýja tegund fasteignalána í erlendri mynt hér á landi frá og með næstu áramótum. Lánin eru á Evrópukjörum og marka tímamót í fjármálaþjónustu bankans við einstaklinga. Jafnframt verða í boði fasteignalán með líf- og sjúkdómatryggingu í erlendri mynt," segir Ingólfur.

Mikið spurt eftir lánum Íslandsbanka

Að sögn Jóns Þórissonar, forstöðumanns útibúasviðs hjá Íslandsbanka, hefur bankanum borist fjöldi fyrirspurna um lánin sem Íslandsbanki sagði frá í gær. Hann segist gera ráð fyrir að mest eftirspurn sé eftir lánum af þessu tagi hjá þeim sem eru að leita að fjármögnun á fasteign til viðbótar við þá sem Íbúðalánasjóður býður.

Um gengisáhrifin segir Jón að lækki gengi krónunnar um 2% megi gera ráð fyrir að höfuðstóll lánsins hækki um 1%, miðað við blandað lán í körfu af erlendum myntum og krónunni.

Fyrirsjáanlegt að bankar bregðist við

Hallur Magnússon hjá Íbúðalánasjóði segir ekki koma á óvart að bankar séu farnir að bjóða lán til húsnæðiskaupa. "Þetta er jákvætt og kemur okkur ekki á óvart, enda fyrirsjáanlegt að bankar myndu bregðast við tillögum félagsmálaráðherra um 90% almenn húsnæðislán á lægstu mögulegu vöxtum. Ein leið bankanna er að bjóða upp á lán í erlendum myntum sem þeir hafa þegar nokkra reynslu af í gegnum bílalán," segir Hallur.

Hann segist telja nýja lánakosti mjög mikilvæga og jákvæða þróun á húsnæðisbréfamarkaði. "Þetta eykur fjölbreytni. Almenningur fær þarna fleiri valkosti og getur vegið og metið kosti og galla hverrar leiðar fyrir sig. Eftir stendur að Íbúðalánasjóður er áfram að bjóða traust lán á lágum vöxtum til allra húskaupenda óháð búsetu. Áhættan sem fylgir þessum lánum felst í öðru en áhættan af lánum Íbúðalánasjóðs," segir Hallur.