15. nóvember 1991 | Innlendar fréttir | 163 orð

Banaslys á Breiðadalsheiði: Snjóflóð hreif með sér snjóblásara

Banaslys á Breiðadalsheiði: Snjóflóð hreif með sér snjóblásara BANASLYS var skömmu eftir hádegi í gær á Breiðadalsheiði, sem er milli Skutulsfjarðar og Önundarfjarðar.

Banaslys á Breiðadalsheiði: Snjóflóð hreif með sér snjóblásara

BANASLYS var skömmu eftir hádegi í gær á Breiðadalsheiði, sem er milli Skutulsfjarðar og Önundarfjarðar. Slysið varð með þeim hætti að snjóflóð hreif með sér stóran snjóblásara niður snarbratta hlíð, 50-70 metra, og var stjórnandi tækisins látinn þegar að var komið, að sögn lögreglunnar á Ísafirði.

Maðurinn vann við að opna veginn um svonefnda Kinn, rétt vestan við háheiðina. Þar féll um 100 metra breitt flekaflóð sem hreif snjóblásarann og bar hann með sér niður snarbratta hlíð.

Lögreglunni var tilkynnt um slysið rétt fyrir kl. 15. Snjóblásarinn var að hluta til undir snjó þegar að var komið. Stjórnandi hans var einn að störfum þegar slysið varð. Hjálparsveit skáta aðstoðaði lögreglu á vélsleðum við að flytja lík mannsins til byggða. Maðurinn sem lést var frá Ísafirði. Ekki er hægt að birta nafn hans að svo stöddu.

Morgunblaðið/Úlfar

Snjóblásarinn lá á hliðinni fyrir neðan snarbratta hlíðina, um 50-70 metra fyrir neðan veginn.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.