Frá Frankfurt. Húsnæðismálasaga Vestur-Þýskalands eftir síðari heimsstyrjöld einkenndist mjög af hinu þýska efnahagsundri, segir greinarhöfundur.
Frá Frankfurt. Húsnæðismálasaga Vestur-Þýskalands eftir síðari heimsstyrjöld einkenndist mjög af hinu þýska efnahagsundri, segir greinarhöfundur.
EFTIR 30 ára stríðið á 17. öld skiptist Þýskaland um tveggja alda skeið í fjölda smáríkja og furstadæma.

EFTIR 30 ára stríðið á 17. öld skiptist Þýskaland um tveggja alda skeið í fjölda smáríkja og furstadæma. Prússland reyndist öflugast þessara ríkja og undir forystu járnkanslarans Otto von Bismarcks sameinaðist Þýskaland, eftir hernaðarsigra gegn Dönum, Austurríkismönnum og Frökkum, árið 1871 í nýju evrópsku keisaradæmi.

Gamla smáríkjaskipanin lifir þó með vissum hætti áfram í núverandi sambandslýðveldisformi Þýskalands, sem felur í sér víðtæk völd og sérstakar ríkisstjórnir einstakra sambandsríkja.

Efnahagslega voru árin fram að fyrri heimstyrjöldinni gífurlegur uppgangstími í Þýskalandi og iðnvæðing og borgamyndun feikilega ör. Í stærstu borgunum skapaðist mikill húsnæðisvandi, sem er gömul og ný saga í öllum löndum sem gengið hafa í gegnum slíkar þjóðfélagsbreytingar. Leiguíbúðir sem byggðar voru og reknar í hagnaðarskyni - oft mjög óvandaðar - urðu ríkjandi húsnæðiskostur alþýðu, svo sem Friedrich Engels, samstarfsmaður Karls Marx, lýsti í frægu riti sínu, "Um húsnæðismálið, Zur Wohnungsfrage".

Mótandi áhrif tveggja heimsstyrjalda

Tvær Evrópustyrjaldir liðinnar aldar höfðu líklega meiri áhrif á þróun húsnæðismála í Þýskalandi en í nokkru öðru landi álfunnar. Efnahagshrun eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar gerði erfitt um vik að auka íbúðabyggingar í samræmi við fyrirliggjandi íbúðaþörf.

Eftir lok óðaverðbólgutímabilsins í byrjun þriðja áratugarins skapaðist á ný nokkur efnahagslegur stöðugleiki og lagður var sérstakur skattur á eldra leiguhúsnæði sem notað var með góðum árangri til þess að fjármagna nýbyggingar. Fljótlega fjaraði þó undan efnahagsbatanum og um 1930 skall á sú efnahagskreppa í Þýskalandi sem árið 1933 fleytti Adolf Hitler og hinum illræmda nasistaflokki hans til valda.

Tekin var upp hörð miðstýring efnahagslífisins, ekki síst vinnuaflsins. Atvinnuleysi hvarf með þessum hætti og voru verkamenn einkum skikkaðir í vegagerð, hergagnaframleiðslu - og í byggingarvinnu, við að reisa nýtt íbúðarhúsnæði. Fjórði áratugurinn varð því tími mikilla íbúðabygginga í Þýskalandi, en eyðilegging íbúðarhúsnæðis átti hins vegar eftir að verða miklu meiri en þessu nam á síðari hluta valdatíma nasista.

Húsnæðisvandinn í Þýskalandi við lok síðari heimsstyrjaldarinnar var án efa víðtækari en í nokkru öðru landi álfunnar. Hvort tveggja kom til að um það bil fjórðungur alls íbúðarhúsnæðis hafði eyðilagst í sprengjuárásum herja bandamanna og sömuleiðis var flóttamannastraumurinn gífurlegur frá landsvæðum sem Þjóðverjar misstu við stríðslokin. Fljótlega bættist straumur frá Austur-Þýskalandi til Vestur-Þýskalands við.

Staða hinna tveggja þýsku ríkja var þó frá byrjun æði ólík, því Vestur-Þýskaland naut mjög góðs af Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna, á sama tíma og Austur-Þjóðverjar voru þvingaðir til að greiða Sovétríkjunum gífurlegar stríðsskaðabætur. Á móti kom að byggingarþörfin var mun minni í Austur-Þýskalandi vegna viðvarandi landflótta vestur yfir járntjaldið, er aðskildi hin þýsku ríki til ársins 1989.

Húsnæðismálasaga Vestur-Þýskalands eftirstríðsáranna einkenndist mjög af hinu þýska efnahagsundri, sem byggðist á hugmyndum manna eins og Ludwigs Erhards um félagslegan markaðsbúskap. Í húsnæðismálum fólst hann ekki síst í því að einkaaðilar voru með opinberum niðurgreiðslum hvattir til þess að byggja leiguhúsnæði; oft var þar um að ræða vel stæða einstaklinga úr fagstéttum, svo sem lækna og lögfræðinga, sem t.d. byggðu sér hús með nokkrum aukaíbúðum sem leigðar voru út.

Til þess að njóta opinbers stuðnings voru leigusalarnir skuldbundnir til þess að láta þessar íbúðir í té sem félagslegar leiguíbúðir. Þegar lánið var greitt upp, hvarf þessi kvöð og heimilt varð að leigja íbúðina á almennum markaði.

Einnig nutu húsnæðisfélög með tengsl við verkalýðshreyfinguna mikils opinbers stuðnings. Leiguíbúðir urðu því áfram ríkjandi húsnæðisform á eftirstríðsárunum og náðu lengst af til meira en 60% þjóðarinnar og var það hlutfall mun hærra í stærri borgunum. Hlutfall leiguhúsnæðis er enn í dag hvergi hærra í Evrópu en í Þýskalandi, ef Sviss er undanskilið.

Lagarammi félagslegra íbúðabygginga allan eftirstríðstímann byggðist reyndar á sérstökum lögum - á þýsku "Wohnungsgemeinnützigkeitsgesetz" - sem sett voru á árum Þriðja ríkisins. Sveitarfélögin gáfu út svonefnd leiguréttarskírteini til handa leigjendum undir ákveðnum tekjumörkum, sem síðan gátu sótt um húsnæði hjá hvaða félagslegum leigusala sem var.

Nýjar áskoranir um árþúsundamót

Vestur-þýsk húsnæðisfélög sköðuðu mjög orðstír sinn á árunum upp úr 1980, þegar það kom í ljós að stærsta húsnæðisfélagasamsteypan, Neue Heimat, var gegnsósa af illkynja spillingu og fjárdrætti æðstu stjórnenda. Þetta leiddi til þess að félagsíbúðaákvæði eldri laga voru afnumin og starfsumhverfi húsnæðisfélaganna gerbreytt. Vestur-Þýskaland virtist vera á leið inn á svipaðar frjálshyggjubrautir og t.a.m. Bretland á Thatcher-tímanum.

Hrun Berlínarmúrsins árið 1989 og endursameining Þýskalands ári seinna átti hins vegar eftir að gerbreyta öllum forsendum þýskrar húsnæðisstefnu. Enn á ný opnaðist ný flóðgátt fólksflutninga frá austurhluta landsins til vesturhlutans, auk þess sem fólki af þýskum uppruna er búið hafði í fyrrverandi kommúnistaríkjum var leyft að flytja til Þýskalands.

Aftur þurfti að beita svipuðum aðferðum og við lok seinni heimsstyrjaldar, þ.e. grípa til stórfelldra opinberra niðurgreiðslna og virkja að nýju bæði einkaaðila og húsnæðisfélög til þess að framkvæma snöggt og öflugt byggingarátak.

Þetta nýja þýska byggingarátak hefur ekki síst snúið að hinum nýju sambandsfylkjum sem áður tilheyrðu hinu svonefnda Þýska alþýðulýðveldi, þar sem húsnæðisástandið reyndist jafnvel enn verra en búist hafði verið við.

Eftir fjögurra áratuga samkeppni tveggja ólíkra efnahagskerfa blöstu yfirburðir vestræns markaðsbúskapar við; meðalrými á mann var aðeins 18 fermetrar í Austur-Þýskalandi, samanborið við 35 fermetra í Vestur-Þýskalandi og stór hluti þess húsnæðis sem byggt hafði verið á vegum austur-þýska ríkisins var við endursameininguna dæmdur óíbúðarhæfur.