Páll Vilhjálmsson
Páll Vilhjálmsson
Umgengni Baugsmanna um fjölmiðlamarkaðinn undirstrikar nauðsyn þess að almannavaldið setji reglur til að hamla gegn fámennisvaldinu.

FJÖLMIÐLAR eru vettvangur umræðu og skoðanaskipta samtímis sem þeir hafa dagskrárvald opinberrar umræðu í hendi sér. Með dagskrárvaldi er átt við að fjölmiðlar eru í miklum mæli ráðandi um hvaða mál eru til umræðu á hverjum tíma. Þegar eignarhald á fjölmiðlum færist á færri hendur verður auðveldara að misnota dagskrárvaldið.

Fyrirtækjasamsteypan Baugur hefur á tiltölulega skömmum tíma eignast Fréttablaðið, DV og Stöð 2/Norðurljós. Umgengni Baugsmanna um fjölmiðlamarkaðinn undirstrikar nauðsyn þess að almannavaldið setji reglur til að hamla gegn fámennisvaldinu.

Dagskrárvald fjölmiðla Baugs hefur m.a. verið notað til að saka forsætisráðherra um að handstýra lögreglu- og skattayfirvöldum vegna rannsóknar á meintum lögbrotum Baugs og aðstandenda samsteypunnar. Ásökunin á hendur forsætisráðherra birtist í Fréttablaðinu og var tímasett þannig að hún átti að valda hámarks pólitískum skaða. Ekki stóð steinn yfir steini þegar efnisatriði fréttarinnar voru skoðuð. Fréttablaðið þverbraut meginreglur viðurkenndrar blaðamennsku og var verkfæri samsæris eigenda og ritstjórnar til að hafa áhrif á þingkosningarnar síðastliðið vor.

Þá hefur dagskrárvaldinu verið beitt til að þagga niður í umræðu sem er óþægileg Baugi og samstarfsfyrirtækjum. Þegar bók kom út um eigendaskipti á Húsasmiðjunni og rakin var saga svika og vélráða sneyddi Fréttablaðið hjá málinu. Ritstjóri blaðsins sagðist aðspurður ekki sjá neitt fréttnæmt við útkomu bókarinnar, sem aðrir fjölmiðlar fjölluðu þó ítarlega um. Síðar kom í ljós, þegar hulunni var svipt af eignarhaldi á útgáfufélagi Fréttablaðsins, að Húsasmiðjan og aðstandendur hennar eiga hlut í útgáfufélaginu.

Þau eru léttvæg rökin sem forstjóri Baugs, Jón Ásgeir Jóhannesson, færir gegn því að lög verði sett um eignarhald á fjölmiðlum, sbr. grein hans í Morgunblaðinu 7. janúar sl. Meginsjónarmið Jóns Ásgeirs er að hagkvæmi krefjist þess að sami aðilinn eigi fleiri en einn fjölmiðil. Hvorki Jón Ásgeir, né nokkur annar, getur sagt hvar þessi hagkvæmni hefst og hvar hún endar. Er hagkvæmninni náð þegar Jón Ásgeir er búinn að ná yfirtökum á þremur fjölmiðlum eða þarf hann að bæta við sig einum eða tveimur í viðbót? Er pláss fyrir ríkisútvarp og -sjónvarp samkvæmt hagkvæmnismati Jóns Ásgeirs?

Í greininni gerir Jón Ásgeir töluvert úr því að bæði DV og Stöð 2/Norðurljós stóðu illa og því sé gustuk að sameina þessa fjölmiðla öðrum rekstri. Rétt er að minna á að DV skilaði eigendum sínum, feðgunum Eyjólfi og Sveini R. Eyjólfssyni, ágætis hagnaði í mörg ár sem fór til spillis í gæluverkefni og óraunhæfa stórveldisdrauma. Stöð 2 var líka skuldsett úr hófi til að standa undir kaupsýslu eigendanna, sem var óskyld fjölmiðlarekstri.

Enginn kvarði er til sem segir til um hve margir fjölmiðlar geti þrifist á tilteknu markaðssvæði. Ef við myndum flytja inn erlendar mælistikur yrði niðurstaðan á þá leið að hér mætti reka eitt héraðsfréttablað og eina sjónvarpsstöð. Sama mælistika myndi raunar segja okkur að hér ætti ekki að vera háskóli, aðeins þrjú kvikmyndahús, eitt leikhús og þar fram eftir götunum.

Verði Jóni Ásgeiri að ósk sinni og engin lög taki gildi um fjölmiðlaeign er Baugur búinn að eignast svo stóran hluta fjömiðlamarkaðarins að nánast ógerningur er fyrir aðra að reyna þar fyrir sér. Ekki aðeins er Baugsveldið eigandi þriggja fjölmiðla á landsvísu heldur stjórna Baugsmenn stórum hluta auglýsingamarkaðarins en auglýsingatekjur ráða lífi og dauða fjölmiðla. Tvöföld völdun Baugs á fjölmiðlamarkaðnum er algjörlega ótæk í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Tillaga Jóns Ásgeirs í Morgunblaðsgreininni um skipan fjölmiðlaráðs, til að sefa áhyggjur manna, er tilraun til að drepa málinu á dreif. Rökstuðningurinn fyrir tillögunni er kauðslegur og maður fær á tilfinninguna að einhver sé að gera grín að forstjóra Baugs; látið hann fá texta sem forstjórinn skrifar upp á en orðin eru bara himinblámahjal. Á eftir málsgrein um að fréttastjórar hinna þriggja fjölmiðla Baugs eigi að gæta ,,hlutleysis" og ,,réttlætis í fréttaflutningi" kemur þessi fyrirvari: ,,Það ber þó að hafa það í huga að hlutverk fréttastofu er að flytja fréttir en ekki breiða út hugmyndir sínar um hlutleysi og réttlæti." Hugmyndin um ,,réttlæti í fréttaflutningi" er ný af nálinni og svo fullkomlega framandi höfundi textans að hann skýtur hana niður í fyrirvaranum.

Samfélagið þarf að verjast fámennisvaldi á fjölmiðlamarkaði. Til þess höfum við Alþingi að setja leikreglur til almannaheilla. Tiltölulega einfalt er að setja lög sem banna að sami aðili eigi prentmiðla og ljósvakamiðla. Það væri skynsamlegt fyrsta skref.

Páll Vilhjálmsson skrifar um fjölmiðla

Höfundur er blaðamaður.