ANDRÉS minn Magnússon.
Inn í langa grein í Morgunblaðinu í gær um meinta þjónkun Fréttablaðsins við einn af eigendum sínum blandar þú DV af einhverjum ástæðum og vilt setja blaðið undir sama hatt. Dæmin sem tilgreind eru, þau eru aftur á móti fáfengilegri en svo að þér sé sómi að.
Í fyrsta lagi að við skulum hafa birt viðtal við annan forsvarsmann Kaupþings Búnaðarbanka þegar kaupaukamálið stóð sem hæst!
Góði Andrés! Það er að vísu orðið voða langt síðan þú vannst sem blaðamaður, en ertu alveg búinn að gleyma hvað er hlutverk blaða? Að birta m.a. viðtöl við þá sem eru í fréttum?
Í öðru lagi, að við skulum hafa birt nafn á starfsmanni Bónuss sem var samsekur ræningjum er réðust inn í eina af verslunum fyrirtækisins. Þetta átti - og detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði - að sanna "símasamband" milli Bónuss og DV!
En Andrés minn - við höfum bara alls ekki birt nafn þessa ógæfupilts! Kanntu ekki að lesa lengur?
Síðasta "dæmið" bendir líka til að lestrarkunnáttunni fari hrakandi. Þá ferðu að endurtaka "ásakanir" um að Mikael Torfason meðritstjóri minn hafi í grein í DV líkt Davíð Oddssyni við Júdas Ískaríot og hvatt hann til að ganga út og hengja sig. Þetta er absúrd túlkun á viðkomandi grein. Mikael var einfaldlega að bera saman viðbrögð Davíðs annars vegar við kaupaukamáli Kaupþings og hins vegar við sínu eigin eftirlaunafrumvarpi. Í fyrra tilvikinu hafði forsætisráðherra lesið þungorður úr Passíusálmi sem fjallaði um iðrun Júdasar, og Mikael velti því fyrir sér hvort Davíð hefði hugsað þá samlíkingu til enda. Talaði bara hreint út.
Má það nú ekki heita afgreitt mál?
Illugi Jökulsson svarar Andrési Magnússyni
Höfundur er ritstjóri.