ILLUGI Jökulsson, minn gamli vinur og ritstjóri DV, gerði í gær athugasemdir við skrif mín um fjölmiðla Baugs í Morgunblaðinu á þriðjudag. Hann svarar vitaskuld aðeins fyrir DV, en það er athyglisvert að honum mislíkar það helst að blaðið skuli sett undir sama hatt og Fréttablaðið hvað áhrif eigandans áhrærir. Að því leyti er gleðilegt að hann skuli í raun viðurkenna að eitthvað kunni að vera að hinum megin við ganginn í Skaftahlíðinni.
Af dæmunum, sem ég tók um DV, finnst Illuga það lélegt dæmi að nefna viðtal við einn af forráðamönnum KB banka þar sem kaupaukamál þeirra hafi staðið sem hæst. Nú er það að vísu svo að mestur vindur var úr því máli þegar þar var komið við sögu, en athugasemd mín snerist um það að viðtalið hefði verið í silkihanskastílnum og hún stendur. Það er hins vegar rétt hjá Illuga að ég hljóp á mig þegar ég fullyrti að starfsmaður Bónuss, sem var í vitorði með ræningjum í desember, hefði verið nafngreindur í blaðinu. Svo var ekki, heldur voru ræningjarnir tveir ítrekað nafngreindir í ýtarlegri umfjöllun blaðsins svo dögum skipti og enn sér raunar ekki fyrir endann á. Það er þá leiðrétt. En mér finnst með ólíkindum að Illugi skuli taka vörn Mikaels Torfasonar þegar kemur að áskorun meðritstjórans til forsætisráðherra um að ganga út og hengja sig að hætti Júdasar Ískaríots. Illugi segir það "absúrd túlkun", en það er engin túlkun, maðurinn skrifaði þetta fullum fetum og allt annað er túlkun.
Jón Ásgeir Jóhannesson hefur aðeins gefið DV út í tvo mánuði, svo við skulum sjá til hvernig úr rætist. En sporin frá Fréttablaðinu hræða og DV deilir útgefanda og ábyrgðarmanni með því. Þegar stefna blaðsins endurspeglar svo sömu afstöðu: að deila á óvini eigandans, skjalla vini hans og fjalla helst ekkert um hann og hans umsvif, þá er tæpast skrýtið þótt ég haldi því fram að hann sé óhæfur til þess að eiga fjölmiðla, hvað sem annað má segja um færni hans í að reka fyrirtæki eða ráða sér starfsmenn.
Andrés Magnússon svarar Illuga Jökulssyni
Höfundur er blaðamaður.