ÆTTLEIÐINGUM fjölgar ár frá ári og frá árinu 1970 hafa meira en 450 börn, sem fædd eru í öðru landi, verið ættleidd til íslenskra foreldra. Börnin eru frá 25 löndum, aðeins eitt eða tvö frá sumum, en flest frá Indlandi, Sri Lanka, Indónesíu og Kína.

ÆTTLEIÐINGUM fjölgar ár frá ári og frá árinu 1970 hafa meira en 450 börn, sem fædd eru í öðru landi, verið ættleidd til íslenskra foreldra. Börnin eru frá 25 löndum, aðeins eitt eða tvö frá sumum, en flest frá Indlandi, Sri Lanka, Indónesíu og Kína.

Á síðasta ári voru 30 börn ættleidd hingað, þar af 22 frá Kína. Samtals hafa 32 börn þaðan fengið íslenska foreldra frá árinu 2002.

Hagur barnsins í fyrirrúmi

Ófrjósemi er algengasta orsök þess að Íslendingar ættleiða börn en að sögn Lísu Yoder og Guðrúnar Ó. Sveinsdóttur hjá Íslenskri ættleiðingu færist í vöxt erlendis að fólk ættleiði börn af mannúðarástæðum, þ.e. til að forða þeim frá að líða skort.

Þær segja að hagur barnsins sé ætíð hafður í fyrirrúmi þegar kemur að ættleiðingu og því þurfi væntanlegir foreldrar að uppfylla margskonar skilyrði. Aðstæður þeirra og fjölskylduhagir eru kannaðir, búseta, heimili og tekjur og einnig hvort umsækjendur eru á sakaskrá. Dæmi eru um að foreldrar hafi ekki fengið forsamþykki í fyrstu atrennu, vegna þess að þeir teljast hafa skertar lífslíkur vegna ofþyngdar. Oftast tekur 4 til 6 mánuði að fá forsamþykki íslenskra yfirvalda og leyfi til að koma með barnið til landsins. Því næst tekur við ferli, sem er mismunandi eftir fæðingarlandi barnsins.

Beið hátt á þriðja ár eftir dóttur sinni

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingkona, sem er einhleyp, beið hátt á þriðja ár eftir dóttur sinni, Hrafnhildi Ming, frá Kína og komu þær mæðgur til Íslands í nóvember sl. Hún ákvað að ættleiða frá Kína af því að þar er einhleypum heimilt að ættleiða tólfta hvert barn, sem ekki hefur tekist að útvega heimili fyrir í landinu.