Sigurvin GK rak upp í brimgarðinn en mönnunum var bjargað úr sjónum.
Sigurvin GK rak upp í brimgarðinn en mönnunum var bjargað úr sjónum.
TVEIMUR mönnum af bátnum Sigurvin GK, sem hvolfdi í innsiglingunni að Grindavíkurhöfn rétt fyrir hádegi á föstudag, var bjargað um borð í gúmmíbát björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.
TVEIMUR mönnum af bátnum Sigurvin GK, sem hvolfdi í innsiglingunni að Grindavíkurhöfn rétt fyrir hádegi á föstudag, var bjargað um borð í gúmmíbát björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.

Björgunarsveitin fékk tilkynningu um að Sigurvin hefði hvolft klukkan rúmlega ellefu um morguninn og fór strax á staðinn á björgunarskipinu Oddi V. Gíslasyni og gúmmíbátnum Hjalta Frey.

Fljótlega tókst að bjarga öðrum skipverjanum sem hélt sér í björgunarbát Sigurvins rétt við brimgarðinn. Björgunarmennirnir komu honum í land og fóru síðan aftur út til að ná í hinn skipverjann sem hafði lent í sjónum er bátnum hvolfdi.

Báðir mennirnir voru í björgunarvestum og telja björgunarmenn þeirra að það hafi haft mikið að segja.

Mennirnir voru orðnir mjög þrekaðir og kaldir er þeim var bjargað og voru þeir strax fluttir til Reykjavíkur á sjúkrahús.

Mikið brim var í innsiglingunni er Sigurvin hvolfdi. Fólk sem var í landi og sá slysið segir að báturinn hafi farið "kollhnís" og endað á hvolfi. Við það hafi annar maðurinn farið í sjóinn en hinum tókst að halda sér einhverja stund um borð í bátnum. Hann reyndi síðan að komast um borð í gúmmíbát en hékk utan í honum þegar hann bjargaðist.