De Havilland-flugvélarnar reyndust mjög vel og voru báðar notaðar bæði í reglubundnu farþegaflugi og við síldarleit fyrir Norðurlandi um langt árabil. Hér eru kapparnir fjórir, sem flugu vélunum á sínum tíma, frá vinstri: Smári Karlsson, Karl Eiríksson, Jó
De Havilland-flugvélarnar reyndust mjög vel og voru báðar notaðar bæði í reglubundnu farþegaflugi og við síldarleit fyrir Norðurlandi um langt árabil. Hér eru kapparnir fjórir, sem flugu vélunum á sínum tíma, frá vinstri: Smári Karlsson, Karl Eiríksson, Jó
Snorri Snorrason flugstjóri, sem hefur átt heiðurinn að þessum flugsöguminjum fékk brezkan listamann að nafni Wilfred Hardy til þess að teikna þessar tvær flugvélar í íslenzku umhverfi. Myndin er af vélunum yfir Öskjuvatni með Herðubreið í baksýn.

Snorri Snorrason flugstjóri, sem hefur átt heiðurinn að þessum flugsöguminjum fékk brezkan listamann að nafni Wilfred Hardy til þess að teikna þessar tvær flugvélar í íslenzku umhverfi. Myndin er af vélunum yfir Öskjuvatni með Herðubreið í baksýn. Síðan tók Haukur Snorrason, ljósmyndari, sonur Snorra mynd af þeim fjórum mönnum, sem flugu vélunum. Þeir eru frá vinstri Smári Karlsson flugstjóri, Karl Eiríksson, forstjóri, sem lengi var formaður Flugslysanefndar, Jóhannes Snorrason, flugstjóri og Magnús Guðmundsson, flugstjóri. Allir þessir menn flugu vélunum fyrstu árin og Karl frá 1948, en hann flaug annarri þeirra síðustu ferðina haustið 1949.

Snorri Snorrason segir um málverkið, sem Wilfred Hardy málaði, að það sé svo vel gert, að þeir, sem hafi skoðað það séu dolfallnir yfir nákvæmni og fínum pensildráttum listamannsins, sem fer aldrei auðveldustu leiðina, heldur málar báðar vélarnar í sitthvorum prófílnum. Hardy er að mála fyrir Snorra fleiri gamlar flugvélamyndir, sem eru horfnar sjónum manna.

Jóhannes Snorrason, flugstjóri, sem best þekkti Rapid De Havilland-vélarnar skrifaði ágrip af sögu þeirra, sem hér fer á eftir:

"Vorið 1944 virtust úrslit styrjaldarinnar ekki langt undan og sigur Bandamanna í augsýn. Bjartsýni og áhugi Íslendinga á ferðalögum hafði aukist til muna, en önnur af tveim farþegaflugvélum Flugfélags Íslands, fjögurra sæta bátaflugvél af Waco-gerð, hafði laskast verulega í flugtaki á Hornafirði 1943. Eina farþegaflugvél landsmanna var því flugvél af gerðinni Beechcraft 18D, sem Flugfélagið hafði keypt frá Bandaríkjunum 1942 og hafði sæti fyrir 8 farþega. Þessi eina flugvél annaði ekki þörfinni nema að hluta, en eftirspurn eftir ferðalögum um landið óx hröðum skrefum, eftir því sem nær dró lokum ófriðarins.

Stjórn Flugfélagsins hafði augastað á tveggja hreyfla, átta sæta farþegaflugvélum, sem framleiddar voru í De Havilland-flugvélaverksmiðjunum í Bretlandi, en útflutningur farþegaflugvéla þaðan hafði, af eðlilegum ástæðum, verið stöðvaður þegar ófriðurinn hófst 1939. Það þótti því tíðindum sæta þegar útflutningsleyfi var veitt fyrir tvær nýjar flugvélar, De Havilland Dragon Rapide 89A, til Íslands vorið 1944. Tvennt kom til. Bresk hernaðaryfirvöld hér á Íslandi voru málinu meðmælt, en þar við bættist sérstök velvild eins af frægustu orrustuflugmönnum Breta, sem barðist í fyrri heimsstyrjöld. Hann beitti áhrifum sínum í þessu máli, og mun það hafa ráðið úrslitum.

Þessi maður var Lord Harold Balfour of Inchrye, sem var flugmálaráðherra Breta á tímum orrustunnar um Bretland og mikill áhrifamaður í flugmálum bæði fyrr og síðar.

Flugvélarnar tvær voru fluttar í kössum sjóleiðina til Íslands. Þær voru settar saman í flugskýli Flugfélagsins við Skerjafjörð af flugvirkjum félagsins.

Fyrri flugvélinni, sem hafði einkennisstafina TF-ISM, var reynsluflogið 1. maí og þeirri síðari, sem hafði einkennisstafina TF-ISO, hinn 17. ágúst. Jóhannes R. Snorrason reynsluflaug báðum og flaug síðan fyrsta farþegaflugið til Melgerðismela 2. maí, daginn eftir reynsluflugið á TF-ISM.

De Havilland-flugvélarnar reyndust mjög vel og voru báðar notaðar bæði í reglubundnu farþegaflugi og við síldarleit fyrir Norðurlandi um langt árabil.

TF-ISO nauðlenti á hafinu norðaustur af Langanesi og hafði þá lent í þoku og slæmu skyggni með takmarkaðan forða eldsneytis. Þriggja manna áhöfn var bjargað í sænskt síldveiðiskip, sem var á heimleið, og sakaði engan. Þetta var í ágústmánuði árið 1945 í síldarleitarflugi.

Flugvélinni TF-ISM var eytt þegar kom fram á sjötta áratuginn og hennar var ekki lengur þörf hjá félaginu.

De Havilland-flugvélarnar höfðu aðeins sæti fyrir einn flugmann. Þær voru búnar tveim 200 hestafla raðhreyflum af Gypsy-Queen-gerð, sem voru hljóðlátir og gangvissir. Flugvélarnar voru hæggengar og liprar í meðförum."