Unnsteinn Stefánsson fæddist í Sómastaðagerði í Reyðarfirði 10. nóvember 1922. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð að morgni mánudagsins 19. janúar og var útför hans gerð frá Fossvogskirkju 27. janúar.

Unnsteinn Stefánsson, haffræðingur, er allur og það er ekkert lítið eitt. Hann skilur eftir sig djúp spor í íslenskum sem alþjóðlegum hafrannsóknum, m.a. innan vébanda Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í Kaupmannahöfn og Menningar- og fræðslustofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í París sem og vestanhafs í Bandaríkjunum. Unnsteinn var brautryðjandi okkar á sviði hafeðlis- og hafefnafræðirannsókna, og segja má að ekki hafi fennt í sporin hans.

Ég kynntist Unnsteini fyrst á námsárunum í vorleiðangri 1958 á varðskipinu Ægi. Í leiðangrinum voru margir frumherjar íslenskra hafrannsókna, einkum á sviði umhverfisrannsókna. Auk Unnsteins voru það Hermann heitinn Einarsson, Þórunn Þórðardóttir, Ingvar Hallgrímsson og Jakob Jakobsson, sem var þeirra yngstur. Fyrir óreyndan námsmanninn var þetta ævintýralegur og lærdómsríkur leiðangur um norðurmið á björtum sumardögum í júní þegar hlýsjórinn ríkti á miðunum í öllu sínu veldi og Norðurlandssíldin var og hét. Viðkomur í landi voru margar eins og til Ísafjarðar, Siglufjarðar á þjóðhátíðardegi og til Akureyrar. Síldarsöltun hófst á Siglufirði í blíðviðri að morgni 18. júní að loknum dansleik og Skálarferð.

Það voru annars árlegir vorleiðangrar sjötta áratugar síðustu aldar sem lögðu til efniviðinn í doktorsritgerð Unnsteins við Kaupmannahafnarháskóla 1962 - North Icelandic Waters - og er ritgerðin grunnurinn að því sem á eftir hefur komið.

Síðar kynntist ég Unnsteini betur í alþjóðlegum rannsóknaleiðangri á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja sumarið 1960. Þá var ég enn við nám í Þýskalandi en kom til Færeyja til þátttöku í leiðangri, sem af Íslands hálfu var farinn á varð- og björgunarskipinu Maríu Júlíu undir stjórn Unnsteins. María Júlía var minnsta skipið í níu skipa flota margra landa sem þátt tóku í verkefninu. Við vorum fjórir saman rannsóknamennirnir, auk okkar Unnsteins voru það Birgir heitinn Halldórsson og Heimir Þorleifsson, sagnfræðingur. Stóðum við þrír sólarhrings stöðvarvaktirnar, tveir og tveir saman, en Unnsteinn vann að greiningu á söfnuðum sýnum. Þetta var kappsamt lið, bæði leiðangursmenn og skipshöfn. Við vorum reyndar í tveimur yfirferðum um svæðið fyrstir að ljúka verki í þeirri fyrri og aðrir í þeirri síðari. Svo var hvílst í Vestmanna í Færeyjum og bornar saman bækur við fögnuð í skipum og á bryggjuballi bjartra sumarnátta.

Á þessum námsárum naut ég þess að eiga tvo lærifeður sem voru iðnir við að birta greinar um rannsóknir sínar. Þeir voru aðalkennari minn í Kiel í Þýskalandi, prófessor Günther Dietrich, og Unnsteinn Stefánsson. Skrif þeirra beggja um Íslandsmið og nálæg hafsvæði voru mér mikilvæg hvatning til fyrirmyndar við að koma athugunum á blað. Þeim gat ég þakkað þennan mikilvæga þátt fyrir nemendur í fræðslustarfi kennara, þ.e.a.s. að nemandi eigi sér haldgóða fyrirmynd þar sem kennarinn er.

Í mörgum spennandi leiðöngrum öðrum en að ofan gat fylgdi ég Unnsteini eins og í Grænlandssund og í Grænlandshaf 1963 og 1965 og á gosstöðvarnar við Surtsey 1963. Ávallt skiluðu sér hjá Unnsteini leiðangrarnir í ritrýndum fræðigreinum innan lands og utan. Hafísárin svonefndu hér við land 1965-1971 voru svo í samskiptum okkar Unnsteins sérstaklega frjó hvað varðar skilning á breytilegu ástandi sjávar á Íslandsmiðum. Minnisstæðar eru einnig samverustundir á mikilli alþjóðaráðstefnu haffræðinga í Edinborg 1976. Þar vorum við með betri helmingum okkar, eiginkonum, í góðri innbyrðis sambúð ásamt Jóni Ólafssyni, haffræðingi. Fræg matgleði Unnsteins með tilheyrandi útskýringum er mér sérstaklega minnisstæð úr þeirri ferð.

Unnsteinn varð prófessor í haffræði við Háskóla Íslands 1976 og lauk þá formlegu starfi hans á Hafrannsóknastofnuninni. Ferill hans verður ekki rakinn nánar hér, það gera væntanlega aðrir.

Unnsteins skal aftur minnst sem frumkvöðuls, nestors, íslenskra sjórannsókna. Hann markaði djúp spor á ferð sinni sem ekki hefur fennt í og seint verður. Við hinir, "hydro-mafían" svokölluð, höfum reynt að feta í sporin hans, að vera sporgöngumenn við æ betri aðstæður til rannsókna til að tryggja áframhaldandi stöðugleika á þeim grunni sem Unnsteinn lagði. M.a. á þetta við um þróun reglubundinna sjórannsókna til úrvinnslu og túlkunar, þ.e. vöktun á ástandi sjávar á hafinu umhverfis Ísland. Í þeim gagnagrunni er margs að leita, bæði m.a. hvað varðar áhrif umhverfis á lífverur hafsins og svo í tengslum við hinar hnattrænu veðurfarsbreytingar, sem eru í deiglunni á líðandi stundum.

Að lokum, Unnsteinn var gustmikill og stjórnsamur skapmaður með mikið sjálfstraust. Hann þoldi lítt gagnrýni eða andmæli, enda langt yfir flesta hafinn í fræðilegu mati, famtakssemi og ritfærni. Hann var bróðir í leik sem í mótleik, og þótt stundum hafi á móti blásið þá lygndi á eftir storminum áður en yfir lauk.

Og nú hefur lygnt að fullu hjá Unnsteini hérna megin, en orðstír hans og minning mun lifa eins lengi og land byggist í ritverkum hans og ævistarfi.

Ég votta börnum hans, Kristínu, Einari og Stefáni, ásamt afkomendum og skylduliði, dýpstu samúð mína við fráfall Unnsteins.

Guð blessi minninguna um Unnstein Stefánsson.

Svend-Aage Malmberg.

Fundum okkar Unnsteins bar fyrst saman norður á Siglufirði árið 1947. Hann var þá nýkominn frá námi í Bandaríkjunum og vann sem efnafræðingur hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, en ég var í sumarvinnu hjá fiskideildinni og átti að sjá um seltumælingar á sjóprufum. Þótt ég kynni eitthvað til verka á þessu sviði gekk ýmislegt hálfbrösótt og bæði hendurnar og fötin urðu svört af silfurnítrati, nokkuð sem bar ótvírætt vitni um viðvaningshátt á sviði efnagreiningar. En Unnsteinn bjargaði mér úr kröggunum svo lítið bar á.

Síðan ferðuðumst við saman á fiskibátum og skipum Landhelgisgæslunnar og tókum sjóprufur, mældum hita, seltu, súrefni og næringarsölt sjávar umhverfis landið og allt norður til Grænlands og Jan Mayen. Seinna notaði Unnsteinn þessi og önnur skyld gögn í doktorsritgerð sína "North Icelandic Waters" sem hann varði við Kaupmannahafnarháskóla við góðan orðstír og sem er tvímælalaust eitt af því merkasta, að öllu öðru ólöstuðu, sem hefur verið skrifað um hafið umhverfis Ísland. Meðal annars sýndi hann fyrstur manna fram á að hlýsjórinn að sunnan kæmist fyrir Horn síðsumars og inn á hafsvæði fyrir Norðurlandi.

Einhverntíma hafði ég orð á því í gamni við vin minn Unnstein að við hefðum báðir litið þennan heim undir sama fjalli, Hólmatindi við Reyðarfjörð. Munurinn væri bara sá, að hann hefði fæðst sólarmegin en ég skuggamegin við það mikla og tignarlega fjall. En með sinni góðmennsku og lítillæti huggaði hann mig með því að skuggasveinar væru vænlegir til stórræða ekki síður en sólskinsbörn.

Við sátum saman fjölmarga vísindafundi, meðal annarra, fyrsta alþjóða haffræðifundinn, sem haldinn var í sölum Sameinuðu þjóðanna í New York árið 1959 og svo þann áttunda af sama toga í Acapulco árið 1988, þar sem við gengum í fyrirdrátt með körlunum á ströndinni snemma á morgnana, áður en við fórum að blanda geði við marga af mestu haffræðingum nútímans. Þetta var okkar máti að minnast æskuáranna fyrir austan, á Fáskrúðsfirði og Eskifirði.

Árið 1969 starfaði ég um skeið sem verkefnisstjóri á sviði haffræðikennslu hjá UNSECO í París, en fékk mig lausan til að komast aftur til vettvangsstarfa vestanhafs. Þegar ég var spurður hvort ég gæti mælt með einhverjum til að taka við starfinu, var ég ekki í neinum vafa: Dr. Unnsteinn Stefánsson frá Íslandi. Hann tók svo við af mér hjá UNESCO og gekk að því starfi með krafti og glæsileik, svo segja má að UNESCO fór ekki varhluta af skiptunum.

Oft hefur mér dottið í hug, að taka mig til og þýða á spænsku og staðfæra bækur Unnsteins, Haffræði I og II, en slíkt þætti kannske mörgum fremur hjákátlegt, því ef nokkur á heiður skilið fyrir að snúa útlendum haffræðiorðum yfir á íslensku, er það Unnsteinn og að þessu leyti má segja, að hann hafi átt hæg heimatökin því hann var stúdent bæði úr stærðfræði- og máladeild Hins almenna menntaskóla, nú MR. Nú kæmi það í minn hlut að endurþýða flessi ágætu orð á frummálið, latínu.

Með Unnsteini er horfinn einn af mestu frumherjum í íslenskri haffræði og verk hans munu lengi standa sem verðugur minnisvarði um góðan dreng og nýtan þegn í okkar fámenna þjóðfélagi.

Með þessum orðum kveðjum við Ása ógleymanlegan vin og vottum afkomendum Unnsteins og öðrum ættingjum innilegustu samúð okkar vegna fráfalls hans. Blessuð sé minning hans.

Ingvar Emilsson.

Unnsteinn Stefánsson, sem í dag er kvaddur hinstu kveðju, var í senn vinur, samstarfsmaður og lærifaðir. Leiðir okkar lágu saman er ég kom í sumarvinnu á Hafrannsóknastofnun 1967. Allar götur síðan naut ég vináttu hans, góðra ráða og uppörvunar. Reyndar sat ég aldrei formlega kennslu Unnsteins, sem orð hefur farið af vegna þess þess hve skilmerkileg og vönduð hún var. Hins vegar fékk ég einn og einn fyrirlestur svona prívat. Mér er minnisstætt að dag einn fyrsta sumarið útskýrði hann fyrir mér, í eitt skipti fyrir öll, hvað það væri mikilvægt að gera sér glögga grein fyrir áhrifum blöndunar og strauma í hafinu. Þetta snýst, svona nokkurn veginn, um muninn á því sem gerist í fiskabúri og því sem gerist úti á opnu hafi. Honum var svo einlægt að fræða og kenna. Í minningunni um dagleg störf með honum hljómar hvellur hlátur, glettni hans og skemmtilegar frásagnir.

Unnsteinn var eldhugi, kappsamur og gekk hiklaust og af mikilli atorku til verka. Vífilengjur eða úrtölur voru honum lítt að skapi. Á þessum árstíma ólgar Atlantshafið við Ísland og byltist um. Það breytist og aðstæður í hafinu eru sífellt að taka á sig nýja mynd. Íslenskt þjóðfélag er á ótal vegu háð eða tengt hafinu og "duttlungum" þess. Reyndar er hér ónákvæmt orðað því með störfum sínum sýndi Unnsteinn Stefánsson þjóð sinni, að það eru ekki dyntir hafsins eða tiktúrur sem ráða aðstæðum, heldur eru þær afleiðing ferla sem skilja má og skýra á grundvelli raunvísindanna. Að það er samspil margra breytilegra þátta sem gerir hafið hér við land gjöfult. Nú á dögum sýnist ljóst að aukin gróðurhússáhrif valdi hlýnun á jörðinni en spurningar eru uppi um það hvernig Atlantshafið muni bregðast við og aðstæður þróast hér við land. Í því felst áskorun á íslenskar hafrannsóknir og henni verður að taka á kappsfullan hátt, að hætti Unnsteins.

Eftir stúdentspróf 1942 hélt Unnsteinn til náms í efnafræði við Wisconsin-háskóla í Bandaríkjunum og sem efnafræðingur hóf hann rannsóknastörf hjá Fiskifélagi Íslands 1947. Árni Friðriksson fiskifræðingur mun hafa átt þátt í því að áhugi Unnsteins beindist að sjórannsóknum en að þeim tók hann að vinna 1949 hjá Fiskideild Atvinnudeildar Háskólans, forvera Hafrannsóknastofnunar. Þar með hefjast skipulegar íslenskar haffræðirannsóknir. Hann aflaði sér reynslu og þekkingar, dvaldi við hafrannsóknasetur austan hafs og vestan. Unnsteinn skrifaði doktorsritgerð um rannsóknir sínar á Norðurmiðum, North Icelandic Waters, og varði við Kaupmannahafnarháskóla 1962. Í það verk er oft vitnað og það er mikilvægur grunnur til skilnings og mats á breytilegu ástandi sjávar frá einum tíma til annars. Haffræðin í þessu riti er að mestu á grunni eðlisfræðinnar en Unnsteinn efldi aðstöðu til efnarannsókna, hóf rannsóknir á næringarsöltum og fléttaði þá saman eðlis- og efnafræði til að skýra undirstöður að frjósemi hafsvæða.

Hér verða ekki talin frekar þau fjölmörgu viðfangsefni í hafrannsóknum sem Unnsteinn fékkst við og ritaði um, en flest voru nýbreytni sem í má finna vísbendingar um það hvert skuli stefnt. Þó verður að geta frumkvæðis Unnsteins í rannsóknum á vötnum landsins, fyrst Meðalfellsvatni, síðar Mývatni og svo lyfti hann hulunni af sérkennum vatna, t.d. Miklavatns í Fljótum og Ólafsfjarðarvatns, sem hafa samgang við sjó og eru fersk við yfirborð en sölt við botn.

Unnsteini var ljóst að mannkyni er nauðsyn að nýta höfin en jafnframt vernda, og að fræðsla og þekking væri grundvöllur að hvoru tveggja. Að þessum málefnum starfaði hann 1970 til 1973 hjá UNESCO í París og fór síðar á vegum þeirrar stofnunar til Íraks, Líbýu og Nígeríu til að vinna að skipulagningu hafrannsókna í þessum löndum. Áður hafði hann kennt haffræði við Duke-háskóla í Norður-Karólínu hluta áranna 1965 til 1970. Nemendur hans þar og samstarfsmenn minnast Unnsteins sem einstaks kennara og góðs félaga. Landanum hefur hlotnast stærstur skerfur frá fræðaranum. Fyrst má nefna bókina Hafið sem Almenna bókafélagið gaf út 1961. Hafið var tímamótaverk sem bar þekkingu um eðli heimshafanna og sjávar við Ísland inn á heimili landsins. Hann endurritaði þessa bók og önnur útgáfa kom út hjá Háskólaútgáfunni 1999.

Unnsteinn vann ötullega að því að hefja kennslu í haffræði við Háskóla Íslands og 1975 var hann skipaður prófessor í haffræði við raunvísindadeild Háskóla Íslands og kenndi fræðin til starfsloka þar 1992. Háskólanámsefni Unnsteins spannaði alla meginþætti haffræða, en með sterkum skírskotunum til aðstæðna við Ísland. Það setti hann í tveggja binda verk, Almenn haffræði I og II, sem kom út 1991 og 1994, samtals um 950 síður. Þetta var mikið verk, hvorki Norðmenn, Danir né Svíar eiga sambærilegar bækur.

Í tilefni 75 ára afmælis Unnsteins var ákveðið að efna til hátíðarútgáfu, Festschrift, á tímaritinu Rit Fiskideildar. Það lýsir vel viðhorfi samtímamanna í fræðunum til Unnsteins hve auðsótt var að afla vandaðs efnis í ritið. Í því birtust 23 greinar sem fjalla um niðurstöður margvíslegra rannsókna á hafinu og auðlindum þess. Í ritinu er einnig birt skrá um öll rit Unnsteins.

Unnsteinn naut þeirrar gæfu að eiga Guðrúnu Einarsdóttur að lífsförunaut, öndvegiskonu sem bar með sér mildi og hlýju. Guðrún andaðist 1995. Þau voru samhent í lífi og starfi og stuðningur hennar við fræðastörf Unnsteins var áreiðanlega heilladrjúgur. Það mat Unnsteinn vissulega og þakkaði. Það var ætíð gott að koma á heimili þeirra Guðrúnar í Hrauntungu 19. Vinátta Unnsteins hefur verið mér og mínum sönn og mikilvæg. Í minningunni eru góðir sumardagar með þeim Guðrúnu í náttúru landsins. Og svo ferðirnar á vatns- eða árbakka þar sem rennt var fyrir silung. Þeim fylgdi einhver magnaður galdur, Unnsteinn veiddi alltaf mest.

Við Sigrún og börn okkar vottum öllum ástvinum Unnsteins dýpstu samúð á skilnaðarstund. Að Unnsteini gengnum er okkur þakklæti efst í huga, við segjum: Vertu nú ljósinu falinn.

Jón Ólafsson.

Það er með innilegu þakklæti og virðingu sem ég kveð Unnstein Stefánsson.

Fyrstu kynni mín af Unnsteini voru fyrir rúmum áratug þegar hann kenndi námskeið í haffræði við Háskóla Íslands. Það orð fór af honum að hann væri nokkuð strangur en jafnframt mjög góður kennari. Því var haldið fram, í gamni, að hann leiddi út diffurjöfnur í tímum þar til nemendafjöldinn í námskeiðunum væri orðinn hæfilegur. Hvað svo sem var til í því, þá var Unnsteinn hreint frábær kennari, afar skipulagður og gerði miklar kröfur til sjálfs sín og annarra. Hann kveikti áhuga nemenda á þessari heillandi fræðigrein, haffræðinni, og námskeiðin hans voru, að öðrum ólöstuðum, þau bestu sem undirrituð tók í háskólanum. Það var ekki fyrr en seinna sem mér varð ljóst hve stóru hlutverki hann gegndi í rannsóknum og þróun fræðigreinarinnar á alþjóðlegum vettvangi. Mikil verðmæti eru fólgin í bókum hans um hafið og haffræði. Ég hef verið beðin um að flytja innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina Unnsteins frá prófessor Peter Wadhams, Cambridgeháskóla, og prófessor Graham Shimmield, forstjóra skosku hafrannsóknastofnunarinnar, og þeir minnast einmitt á hversu frábær fræðimaður Unnsteinn var og miklum mannkostum búinn. Unnsteinn var heiðursmaður, heilsteyptur, með góða kímnigáfu en umfram allt mikill mannvinur. Það sýndi sig ekki síst þegar hann var deildarforseti raunvísindadeildar og taka þurfti á erfiðum og oft viðkvæmum málum. Hann lagði sig fram við að finna lausn sem allir gátu unað við og þar sem allir héldu virðingu sinni.

Unnsteinn hvatti mig áfram í námi og var mér ómetanleg stoð í doktorsnámi mínu. Hann las ritgerðina mína yfir og ýmsar greinar og kom með mjög góðar ábendingar. Við fengum okkur gjarnan kaffisopa og spjölluðum um alla heima og geima áður en kom að því að fara yfir leiðréttingar og athugasemdir sem hann hafði við kaflann sem hann hafði þá farið yfir. Það var frábært að heyra Unnstein lýsa æskuárum sínum fyrir austan og einkennandi fyrir hann að minnast ætíð þeirra sem veitt höfðu honum aðstoð eða hjálpað honum á einn eða annan hátt. Á uppvaxtarárum hans var það ekki sjálfgefið að menn gætu farið í skóla til Reykjavíkur, hvað þá til útlanda. Það var einnig heillandi að heyra hann lýsa störfum sínum víða um lönd á vegum Sameinuðu þjóðanna. Það var samt fjölskylda Unnsteins sem var honum hugleiknust, hann sagði stoltur frá börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum, og afrekum þeirra. Hann saknaði konu sinnar mjög, en hún lést fyrir nokkrum árum eftir erfið veikindi. Hann hafði ætíð mynd af þeim tveimur uppivið, þar sem þau eru brosmild í tjaldútilegu saman í íslenskri náttúru. Þannig sé ég hann nú fyrir mér.

Börnum Unnsteins og fjölskyldum þeirra votta ég samúð mína, missir þeirra er mikill.

Ingibjörg Jónsdóttir.