4. febrúar 2004 | Íþróttir | 467 orð | 1 mynd

Íslandsmeistararnir í handknattleik karla þjálfaralausir

Viggó er hættur með Haukana

VIGGÓ Sigurðsson er hættur sem þjálfari Íslandsmeistara Hauka í handknattleik aðeins tveimur dögum áður en flautað verður til leiks í úrvalsdeildinni þar sem Haukar hefja titilvörn sína gegn bikarmeisturum HK.
VIGGÓ Sigurðsson er hættur sem þjálfari Íslandsmeistara Hauka í handknattleik aðeins tveimur dögum áður en flautað verður til leiks í úrvalsdeildinni þar sem Haukar hefja titilvörn sína gegn bikarmeisturum HK. Viggó, sem tók við þjálfun Hauka af Guðmundi Karlssyni árið 2000, var samningsbundinn Haukum til ársins 2005 en Eiður Arnarson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, tilkynnti Viggó að stjórnin hefði ákveðið að nýta sér uppsagnarákvæði í samningnum og að hann hætti eftir tímabilið. Viggó ætlar hins vegar að láta af störfum strax og hefur óskað eftir starfslokasamningi við félagið.

Eiður Arnarson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, tilkynnti mér skyndilega að þeim fyndist nóg komið með mig í starfi og þeir ætluðu að segja upp samningi mínum eftir tímabilið. Ég varð gjörsamlega forviða þegar ég heyrði þetta og ég spurði á móti; nóg af hverju? Af titlum? Velgengni? Haukar hafa unnið níu titla undir minni stjórn, liðið hefur staðið sig geysilega vel í Evrópukeppninni og ég held að það sé varla hægt að gera betur," sagði Viggó við Morgunblaðið í gær.

"Formaðurinn bar vantraust á mig frá stjórninni og hann sagði að einhverjir leikmenn hefðu kvartað undan mér. Ég hef hins vegar kvartað undan leikmönnum sem hafa að mínu viti verið með vinnusvik."

"Glæsilegur afmælispakki sem ég get ekki opnað"

Viggó sagði að ekki hefði komið til greina hjá sér að að stýra liðinu út tímabilið og því hefði hann óskað eftir því að gerður yrði starfslokasamningur við sig.

"Ég sagði við formanninn að þau rök sem hann hefði borið við gerðu það að verkum að hann gæti ekki ætlast til þess að ég sæti áfram við stjórnvölinn eins og ekkert væri að og að ég ætti að draga liðið áfram sem deildar- og Íslandsmeistari en vera svo kvaddur með það að ég væri orðinn svo þreyttur. Ég gat ekki tekið þessi rök gild og því átti ég ekki annarra kosta völ en óska eftir starfslokasamningi. Þetta er glæsilegur afmælispakki sem ég fæ frá Haukum en málið er að ég get ekki opnað hann," sagði Viggó sem heldur upp á 50 ára afmæli sitt miðvikudaginn 11. febrúar.

Viggó skilur við Hauka með glæsilegan árangur en undir hans stjórn hafa Haukarnir unnið níu titla. Íslandsmeistaratitlarnir eru tveir, 2001 og 2003, bikarmeistaratitlarnir tveir, 2001 og 2002, deildarmeistaratitlarnir tveir, 2002 og 2003, og þrívegis hafa Haukar orðið meistarar meistaranna. Þá er óupptalinn frábær árangur liðsins í Evrópukeppninni undanfarin ár þar sem hæst ber að liðið komst í undanúrslit í EHF-keppninni fyrir tveimur árum og í vetur gerðu Haukarnir mjög góða hluti í Meistaradeildinni þar sem þeim tókst meðal annars að ná stigi gegn Barcelona á útivelli og leggja Vardar Skopje frá Makedóníu í tvígang.

Páll Ólafsson hefur verið aðstoðarmaður Viggós undanfarin þrjú ár og þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gærkvöldi vildi hann sem minnst tjá sig um málið en taldi afar ólíklegt að hann yrði áfram við störf hjá Haukum.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.