Á Biblíudaginn, sem að þessu sinni ber upp 15. febrúar, er venja að líta sérstaklega til heilagrar ritningar. Af því tilefni rifjar Sigurður Ægisson upp eitt og annað tengt íslenskri mynd hennar, ekki nema lítið brot þó, prentað efni sem og óprentað.

Enginn veit nákvæmlega hvenær saga íslenskra biblíuþýðinga í raun hefst. Þrátt fyrir getgátur manna um að Biblían hafi öll verið þýdd á norrænu fyrir árið 1200, hefur engin slík þýðing varðveist. Hins vegar benda líkur til, að búið hafi verið að þýða Nýja testamentið fyrir þennan tíma, og að sjálfsögðu mörg hin þekktari rit Gamla testamentisins, s.s. Davíðssálma, er voru snar þáttur í helgihaldi kirkjunnar. Vera má, að ákveðinn texti, sem nefndur hefur verið Stjórn, og hafði m.a. að geyma þýðingu á sögubókum Gamla testamentisins, eigi einhvern hlut að máli í vangaveltum um áðurnefnda Biblíu, en mörg handrit þeirrar "bókar" voru glæsilega lýst og vönduð í alla staði.

Eftirfarandi punktar eru hugsaðir til fróðleiks, en ættu jafnframt að gefa örlitla innsýn í þennan mikilvæga heim, sem þýðing á ritum Biblíunnar á móðurmálið hefur verið og er íslenskri þjóð:

Í ýmsum fornum ritum hafa varðveist tilvitnanir í allar bækur ritningarinnar nema sex, þ.e.a.s. Esra, Obadía, Nahúm, Haggaí, Fílemonsbréfið og 2. Jóhannesarbréf. Hvað Nýja testamentið snertir er oftast vitnað í guðspjöllin, og er Matteus í fylkingarbrjósti, þá Lúkas, síðan Jóhannes og loks Markús. Af bréfunum eru Rómverjabréfið og Korintubréfin vinsælust.

Oddur Gottskálksson þýddi Nýja testamentið á íslensku og fékk það prentað í Hróarskeldu í Danmörku. Það er elst prentbóka á móðurmálinu, sem um er vitað, og er þetta verk Odds almennt talið ein af vörðum íslenskrar bókmenntasögu. Prentun lauk 12. apríl 1540. Bókin var um 330 blöð og í litlu broti (8vo). Ekki er vitað um upplag hennar, en talið líklegt að Oddur hafi ætlað sérhverjum presti á Íslandi eintak.

Biblían öll kom fyrst út á prenti hér á landi 6. júní 1584, í 500 eintökum. Hún er löngum kennd við útgefanda sinn, Guðbrand Þorláksson biskup á Hólum, og nefnd Guðbrandsbiblía. Nýja testamentið er þar næstum óbreytt frá Oddi Gottskálkssyni komið, en margir unnu að þýðingu Gamla testamentisins, þ.ám. Oddur Gottskálksson, Gissur Einarsson og Guðbrandur sjálfur, og e.t.v. Ólafur Hjaltason og Gísli Jónsson. Ef pappír hefði ekki verið kominn til sögunnar á þeim tíma, hefði þurft 311 kálfskinn í hvert eintak bókarinnar. Til nýjunga heyrði það í íslenskri bókagerð, að Guðbrandsbiblía var myndskreytt.

Næsta biblíuútgáfa kom út 60 árum síðar, 1644, og hefur verið nefnd Þorláksbiblía, í höfuðið á útgefanda sínum, Þorláki Skúlasyni biskupi. Upplag hennar var 1.000 eintök. Þarna er í fyrsta sinn notuð tölumerkt versaskipting. Kaflaskipting á bókum ritningarinnar þekkist árið 1214, í Vulgatahandriti einu (latnesku), skrifuðu í París. Er mælt, að Stefán Langton, erkibiskup af Kantaraborg (d. 1228), eigi heiðurinn af því. Versaskipting er síðar til komin og eignuð Santes Pagnini (d. 1541), og í fyrsta sinn notuð í Lyon í Frakklandi, í Biblíu sem þar kom út árið 1527.

Oddur Oddsson á Reynivöllum þýddi Jobsbók úr hebresku rétt fyrir miðja 17. öld, og Brynjólfur Sveinsson biskup í Skálholti hóf um svipað leyti að þýða Nýja testamentið úr grísku. Eru þeir tveir fyrstir Íslendinga til að þýða eitthvert rita Biblíunnar úr frummálunum, að vitað sé. Brynjólfur lauk einungis við þýðingu Matteusarguðspjalls.

Séra Páll Björnsson í Selárdal mun fyrstur Íslendinga hafa þýtt Nýja testamentið allt úr grísku, um og eftir 1680. Auk þess snéri hann nokkrum bókum Gamla testamentisins úr hebresku. Ekkert af þessu var samt prentað.

Um 1710 er Jón Vídalín Skálholtsbiskup líka búinn að þýða Nýja testamentið allt úr grísku. Þýðingin lá tilbúin undir prentun hjá Árna Magnússyni í Kaupmannahöfn, þegar Jón lést, en komst svo ekki lengra en það.

Þriðja biblíuútgáfa okkar er Steinsbiblía, 1734, kennd við Stein Jónsson biskup í Skálholti, útgefanda sinn. Hún var í töluvert minna broti en Guðbrandsbiblía og Þorláksbiblía, og að auki tvídálka. Talið er, að Nýja testamenti Jóns Vídalíns geti verið að finna þar að einhverju leyti. Upplag Steinsbiblíu er óþekkt.

Á Landsbókasafni er varðveitt handrit Nýja testamentisins alls, þýtt úr grísku af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðardal. Ritunartími er um 1750. Oddur Oddsson á Reynivöllum, áðurnefndur, var langafi hans.

Fjórða biblíuútgáfa okkar er Vajsenhússbiblía, 1747, kennd við staðinn þar sem hún var prentuð, Vajsenhús í Kaupmannahöfn. Er hún að mestu leyti endurprentun Þorláksbiblíu. Upplag hennar var 1.000 eintök.

Næstu biblíuútgáfur okkar eru Hendersonbiblían 1813, oft nefnd Grútarbiblía, vegna meinlegrar prentvillu á einum stað í Gamla testamentinu, upplag 5.000 eintök; Viðeyjarbiblía 1841, upplag um 1.400 eintök; Reykjavíkurbiblía 1859, upplag 2.000 eintök; og Lundúnabiblía 1866, upplag óþekkt. Svo kom Biblían út 1908, endurprentuð 1912 með nokkrum lagfæringum, og síðast 1981; upplög beggja útgáfna eru gríðarleg.

Frá 1988 hefur verið unnið að nýrri útgáfu Biblíunnar á íslensku og má lesa um það á vefslóðinni www.biblian.is. Hún gengur undir nafninu Biblía 21. aldarinnar.

sigurdur.aegisson@kirkjan.is