23. febrúar 2004 | Minningargreinar | 2526 orð | 1 mynd

BIRNA EGGERTSDÓTTIR NORÐDAHL

Birna Eggertsdóttir Norðdahl fæddist í Hólmi í Reykjavíkursókn í Kjósarsýslu, 30. mars 1919. Hún lést á Akranesi 8. febrúar síðastliðinn. Foreldra hennar voru Eggert Guðmundsson Norðdahl, f. í Langholti, V-Skaft. 18. júní 1866, d. 14. janúar 1963 og Ingileif Magnúsdóttir, f. í Bessastaðasókn, Gullbringusýslu, 2. desember 1882, d. 17. mars 1976. Albróðir Birnu var Magnús Bruno Eggertsson Norðdahl, f. 3. jan. 1909, d. 5. maí 1997. Samfeðra systkini Birnu eru Hrefna Eggertsdóttir, f. 10. ágúst 1893, d. 20. feb. 1972; Rannveig Eggertsdóttir Norðdahl, f. 12. sept. 1895, d. 9. júní 1980; Karl Viggó Eggertsson Norðdahl, f. 8. apríl 1898, d. 5. okt. 1983 og Guðrún Eggertsdóttir, f. 23. september 1902, á lífi á hundraðasta og öðru aldursári.

Sonur Birnu og Bjarna Blomsterberg f. 1917, er Eggert Norðdahl Bjarnason, f. 25. júlí 1937. Maður Birnu var Ólafur Baldvin Þórarinsson, bakari í Reykjavík, f. í Bakkakoti í Gullbringusýslu 18. mars 1904, d. 28. mars 1987. Börn þeirra eru Inga Vala, f. 7. maí 1944, Þórarinn, f. 3. september 1948, Indiana Svala, f. 22. jan. 1950, Anna María, f. 1. apríl 1951, og Vaka Helga, f. 13. ágúst 1958.

Birna ólst upp á Hólmi í Gullbringusýslu, skammt austan við Rauðavatn, en bærinn nefndist þá Hólmur á Seltjarnarnesi. Hún gekk á Laugarvatnsskóla 1934. Birna og Ólafur settu saman búskap á Mel, þar sem nú er Ásvallagata 40, upp úr stríðslokum, en Ólafur vann að iðn sinni í Reykjavík. Birna byggði hús gagnstætt Hólmi við Hólmsá laust eftir 1950 og kallaði Bakkakot eftir æskuheimili bóndans. Birna sjálfmenntaði sig í olíumálningu og litablöndun og naut jafnframt leiðsagnar frænda síns, Bjarna Jónssonar listmálara. Tréskurð nam hún hjá Hannesi Flosasyni. Vann hún að þessum listgreinum til dauðadags og liggja eftir hana ótal málverk og smíðisgripir. Birna lærði skák af Karli bróður sínum á unga aldri, en mikið var teflt á bernskuheimili hennar. Þegar kvennaskákmót hófust á Íslandi varð hún tvívegis Íslandsmeistari, 1976 og 1980. Hún var frumkvöðull að þátttöku íslensks kvennalandsliðs á ólympíuskákmótinu í Buenos Aires 1978 og sigldi einnig með sama liði á ólympíuskákmótið á Möltu 1980. Reykjavíkurmeistari varð hún 1976. Birna tók þátt í sexlandamóti í Svíþjóð 1975. Hún tefldi alls sjö Íslandsþing kvenna. Birna bjó með ær og hesta í Bakkakoti vel fram yfir 1980. Hún hélt þar til fram undir árið 2000 og gaf sig mest að garðrækt. Seinustu árin dvaldi Birna löngum á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum.

Útför Birnu fer fram frá Árbæjarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Hún var þriðja konan sem ég kallaði ömmu í þessum heimi. Fyrst kom skilgetin móðuramma mín, en önnur í röðinni föðursystir mín. Þá kom amma í Bakkakoti. Þar útfærði ég hugtakið tengda-amma. Síðan eru fjórtán ár. Mér fannst á einhvern hátt ankannalegt að kalla hana Birnu, það gerði enginn. Ég bar þetta undir hana. "Hann Erlingur kallar mig alltaf gömlu," var svarið. Þetta hugleiddi ég í nokkra daga, en það gekk ekki. Eftir það var hún amma. Þá var amma í Bakkakoti mætt á sjónarhóli mínum.

Þetta sumar, nánar tiltekið 1990, var stóra stelpan mín níu ára. Hún kom í Bakkakot og rótaðist þar heilan dag með ömmu, annars búandi í Svíþjóðu. Niðurstaða: "Ég ætla að verða amma í Bakkakoti þegar ég verð stór," sagði stelpan. Hún var jafnvel að hugsa um að verða heimilislæknir og amma í Bakkakoti samtímis. Svona er nú lífið. Af hverju sagði stelpan þetta? Jú, þarna gat hún valsað fram og aftur, sýslað í garðinum með ömmu og sullað í mannskæðu vatnsfalli að vild sinni. Sama var upp á teningnum þegar Birna yngri var í sumareldi hjá ömmu á fyrri hluta áttunda áratugarins. "Ég bjó fyrir vestan en var í sveit í Reykjavík á sumrin," segir hún. Ég hef spurt hana um kosti og ókosti. Eiginlega engir ókostir. Ekkert mulið undir mann af veraldlegu drasli, en varla telst það til ókosta. Kostir ótvíræðir: Að geta vaðið þarna upp og niður túnið og vesenast í nánast hvaða hugdettum sem vera skyldi. Mokað mold. Sett saman bú á holtinu. Hjálpað ömmu að gefa ám og hestum. Poppað fyrir sig og kindurnar sem borðuðu poppið með bestu lyst. Farið einsömul upp í fjárhús og gert hrútinn brjálaðan svo hann ætlaði að brjóta grindurnar. Amma hafði einhverja óljósa hugmynd um það athæfi en lét óátalið. Það var ekki fyrr en þau systkinin dönsuðu á koppakofanum hans Valda svo kopparnir sungu og glumdu yfir höfði eigandans, sem kom út æði fasmikill. Og báru gúmmíhamarinn hans út á Hólmsá svo hann mátti vaða í klyftir að sækja hann, og var mikið niðri fyrir. Þá tók amma í afturendann á krökkunum. Henni var ekki gefið um að vegið væri að mönnum sem standa höllum fæti.

Amma hafði mikið gaman af að tala um sjúkdóma, en hún hafði ekki áhuga á litlum sjúkdómum. Hún sagði mér oft frá viðskiptum sínum við læknana Frosta og Jón Níelsson uppi á Borgarspítala, sem skáru hana bæði langsum og þversum að eigin ósk. Hún teiknaði af þeim snilldarlega mynd. Þar er Frosti mjög ábúðarmikill, líkt og stormsveipur. En Jón er hægur og allt að því viðkvæmur í viðmóti. Myndin hangir uppi á Reykhólum. Hún sagðist hafa verið eina kerlingin í veröldinni sem hefði gert Frosta kjaftstopp, en orðaskiptin eru ekki eftir hafandi. Bæði firnalega skapstór.

Amma sagði mér frá skarlatsóttinni á Laugarvatnsskóla 1934. Þær bjuggu á vist sem þekkt er undir nafninu Efri burstir. Þar voru þær í einangrun nokkrar vikur. Þegar einangrun lauk var frægur rithöfundur, seytján árum eldri en amma, sestur við að skrifa skáldsögu niðri í kennslustofunni Babýlon. Hann gegndi nafninu Halldór. Sagan gerist á einhverri heiði. Á balli einu í Babýlon dansaði amma við rithöfundinn heilt kvöld. Hún sagði að hann hefði dansað eins og símastaur.

Á útmánuðum árið 2000 sagðist amma vera eiginlega alveg að koðna niður. Á heimili okkar hanga víða málverk af kindum og hestum eftir hana. En ég hef hvorki áhuga á kindum né hestum. Ég vissi hins vegar, að á bakvið hurð í Bakkakoti hékk skissa af bráðgóðri landslagsfantasíu, risastórri. Ég lýsti áhuga á málverkinu. Skipti engum togum, að amma tók til við að fullgera verkið með svo miklum látum að ég hélt hún myndi slasa sig. En árangurinn lét ekki á sér standa. Myndin er forkunnargóð og hangir yfir píanóinu. Amma sagði að málningarvinnan hefði bjargað líftórunni hjá sér þetta vor.

Naglarnir í veggjum okkar, sem ekki bera málverk hennar, halda flestir uppi tréskurðarmyndum. Þessa kúnst lærði amma af Hannesi á Bárugötunni og reifst við hann svo Bárugatan gekk í bylgjum. Hún vildi haga tréskurðarmunstrinu á sinn veg. Ég nefni þetta, því það segir mér, að amma skar tréð af innlifun síns eigin höfuðs, enn ekki upp úr dauðri bók.

Eitthvað var það svipað með skákina. Hún sagði að alþjóðlegir meistarar hefðu tapað fyrir sér, af því hún fór svo gjörsamlega eigin leiðir. Þeir vissu ekki sitt rjúkandi ráð.

Nú er amma lögð af stað í hina miklu austurför, eins og Kýros. Ég óska henni velfarnaðar á þeirri braut.

Stefán Steinsson.

Kæra amma.

Jæja, þá ertu farin í ferðina miklu sem bíður okkar allra. Líf þitt hefur gefið mér margt að minnast og á svona stundu koma minningarnar allar upp í huga minn. Þær hafa gefið mér gott veganesti í lífinu. Þú varst stór og mikill persónuleiki. Átti ég því láni að fagna að vera hjá þér í Bakkakoti á sumrin og stundum á veturna. Þú varst mikið náttúrubarn og elskaðir dýrin þín. Ég hef oft hugsað um það hversu næm þú varst á dýrin. Til dæmis gleymi ég aldrei þegar þú sagðir einn daginn við mig að nú þyrftum við að fara upp í heiði til að athuga með rollurnar því þú hefðir það á tilfinningunni að það væri eitthvað að. Við fótum á jeppanum með Óla afa. Þegar upp í heiði var komið fórst þú út úr bílnum og kallaðir á hverja rollu fyrir sig með nafni. Þær svöruðu, en síðan var ein sem svaraði ekki kalli þínu og leituðum við um alla heiði. Fundum við rolluna sem ekki svaraði, var hún afvelta og hafði verið það einhvern tíma. Við tókum hana og lambið í bílinn og ókum heim. Þú hlúðir svo vel að henni að hún náði sér að fullu. Einnig gleymi ég aldrei hvað þú brást fljótt og rétt við þegar við vorum á skautum á Hólmsánni og ég skautaði með litlu systur, Helgu, á skíðasleða og við duttum niður um vök á ánni. Ég komst sjálf upp úr, en Helga flaut undir ísinn og Eddi frændi náði henni upp um aðra vök neðar á ánni. Ég hljóp heim og náði í þig. Þú komst hlaupandi niður að á og tókst Helgu upp á fótunum, sem þá var hætt að anda, og hristir hana og barðir alla leiðina heim á hlað. Þá fyrst komu fyrstu andartökin hjá henni. Þessa lífsbjörg þína og Edda frænda hef ég geymt í hjarta mínu og verður aldrei fullþakkað.

Ég vil þakka þér fyrir tilvist þína og allt sem þú hefur kennt mér og gefið. Góða ferð, kæra amma.

Unnur.

Við viljum minnast frænku okkar Birnu Norðdahl í fáeinum orðum.

Hún ólst upp frá barnæsku á Hólmi og var nágranni okkar í Bakkakoti frá 1955.

Birna var mikill bóndi í sér, henni þótti vænt um öll dýr og, var jafnan kölluð til ef eitthvað amaði að einhverri skepnu, því hún var mikill dýralæknir í sér.

Búskapur var í áratugi bæði í Bakkakoti og á Hólmi, samgangur mikill og góður, Líflegir dagar í heyskap, réttum og mannamótum koma upp í hugann, hjálpsemi Birnu gagnvart sínu frændfólki var ætíð mikil.

Listræn var hún, teikning, olíumálverk, útskurður lék í höndum hennar.

Málverk hennar jafnt úr náttúrunni sem og teikningar af hestum þóttu okkur framúrskarandi og sýndi hún okkur myndir sínar af stolti.

Bakkakot var jafnan líflegur staður þar sem vinir og ættingjar þáðu kaffibolla, spáðu í tilveruna, spiluðu á spil og marga skákina tók hún við föður okkar.

Ef sá gamli fannst ekki var hann eflaust búin að gleyma sér yfir skákinni hjá Binnu.

Birna hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum og lét þær óspart í ljós. Hún var sterkur persónuleiki og talaði jafnan tæpitungulaust yfir hausamótunum á okkur krökkunum ef henni sýndist svo og uppátæki okkar gáfu tilefni til.

Eftir orðum hennar var jafnan tekið.

Eftir að maður hennar Ólafur Þórarinsson féll frá varð garðyrkja og trjárækt henni hugleikin og þar hafði hún svo sannarlega græna fingur, og lét hendur standa fram úr ermum.

Á fáum árum gerði hún vöxtulegan skrúðgarð við Bakkakot, þar sem áður var nauðbitið af skepnum gróðursetti hún mikið af trjám og jurtum.

Jafnvel eftir að heilsan bilaði var harðfylgi hennar í garðinum jafnt í gróðursetningu og grjóthleðslu með ólíkindum.

Birna var einnig mikil skákkona og var Íslandsmeistari kvenna í skák um árabil. Tók hún til dæmis þátt í alþjóðlegu skákmóti í Buenos Aires á 8. áratuginum Síðustu árin dvaldi Birna á vetrum mestu leyti á Reykhólum í Barðastrandarsýslu bæði hjá Indíönu dóttur sinni og á dvalarheimili aldraða en var á sumrin í Bakkakoti.

Með söknuði og þakklæti kveðjum við frænku okkar og allar góðu stundirnar.

Fjölskyldu hennar og börnum vottum við samúð núna að leiðarlokum.

Megi minning hennar lifa í guðs friði.

Fjölskyldan á Hólmi.

Mín mæta vinkona Birna Norðdahl, merk kona og mikil hetja, kvaddi þennan heim 8. febrúar síðastliðinn.

Birna var alveg einstök manneskja. Hún var bæði bóndi og listamaður: bjó lengst af í Bakkakoti fyrir utan Reykjavík, hafði þar hesta sem hún heyjaði fyrir, málaði myndir, vann úr leðri, skar út í tré auk þess sem hún gerði alla hefðbundna handavinnu og alla smíðavinnu innanhúss sem og utanhúss. Síðast en ekki síst var hún skákkona og á því sviði frumkvöðull að því að íslenskar konur tefldu fyrir Íslands hönd á Ólympíumótum í skák.

Birna tók þátt í sínu fyrsta skákmóti árið 1940, þá 21 árs að aldri. Þá var hún eina konan sem tefldi á mótinu. Þegar kvennadeild Taflfélags Reykjavíkur var stofnuð 1975 kom Birna fram á sjónarsviðið aftur. Sem ein fyrsta konan á Íslandi sem tefldi á opinberum skákmótum mátti Birna oft þola neikvætt viðhorf frá karlpeningnum. Hún minntist þess að karlmenn sýndu oft sterk viðbrögð ef þeir töpuðu fyrir henni og að einu sinni vorkenndi hún svo strák einum sem hún hafði mátað, því hann var alveg niðurbrotinn eftir skákina, mest þó vegna þess að félagar hans stríddu honum svo mikið fyrir það "að hafa tapað fyrir kerlingunni" eins og Birna orðaði það.

Þegar ég kynntist Birnu á Skákþingi Íslands í apríl 1976 var hún þegar orðin margföld amma og bjó ein í Bakkakoti. Við tefldum af og til næstu árin og vorum svo í kvennasveitinni sem tefldi á Ólympíumótinu á Möltu 1980. Birna tefldi þar á sínu öðru og síðasta Ólympíumóti 61 árs og var hún þá orðin langamma. Birna sýndi þar sem fyrr að hún var mikil baráttukona, einnig á skákborðinu, því hún tefldi ætíð til síðasta peðs og henni var í rauninni illa við jafntefli. Henni fannst "spenningurinn, hvort maður lifir eða deyr" það skemmtilegasta við skákina.

Á árunum 1980 til 1985, eða þangað til ég fluttist af landi brott til fjölda ára, vorum við Birna oft í sambandi, bæði heimsótti ég hana í Bakkakot og svo töluðumst við oft við í síma. Ég gat alltaf borið undir hana allar mínar vangaveltur um lífið og tilveruna og hún var ætíð góður hlustandi og sýndi mér skilning og hafði sjálf frá svo mörgu að segja. Birna var afar skemmtilegur ferðafélagi og sumarið 1983 tókum við tvær upp á því að fara með ferju til Bremenhaven í Þýskalandi með einungis tveggja tíma stoppi í höfninni þar og svo tilbaka. Við höfðum taflið með og tefldum báðar leiðirnar uppi í veitingasalnum og vorum að sjálfsögðu aðalskemmtikraftarnir á skipinu fyrir bragðið.

Alla tíð sem ég man eftir átti Birna við heilsubresti að stríða en hún gerði nú sjálf oftast gys að sínum veikindum og sagði frá þeim eins og um gamansögur væri að ræða. Miðað við hennar sjúkdómssögu í gegnum öll herrans árin hefur hún án efa snúið á læknavísindin og storkað læknunum oftar en einu sinni. Það kom nefnilega fyrir að hún fór rakleiðis eftir uppskurð til útlanda á skákmót í trássi við læknana. En hún vildi jú tefla og fór því til útlanda á skákmót hvað sem öðru leið og svo eftir á sagði hún sigri hrósandi: "Auðvitað hafði ég rétt fyrir mér og ég vissi að ég myndi koma lifandi til baka!"

Birna var ein af glöðustu manneskjum sem ég hef kynnst um ævina. Hún hló dátt og innilega. Það geislaði af henni orka og áhugi. Hún var fordómalaus gagnvart fólki og sýndi dýrum og gróðri umhyggju og ég er sannfærð um að hún skildi dýr betur en flestir aðrir, einkum kindur og hesta, það sýna hin fjölmörgu málverk af þessum dýrum sem hún málaði. Birna sýndi mér ógleymanlegan vináttuvott þegar hún vorið 1982 gaf mér málverk af hryssu með folaldið sitt sem hún hafði málað og tileinkað mér.

Ég þakka forsjóninni að vegir okkar Birnu Norðdahl lágu saman í gegnum skákina, því annars hefðum við - með okkar 42 ára aldursmun - sennilega aldrei hist.

Innilegar samúðarkveðjur frá kvennalandsliði Íslands í skák til fjölskyldu Birnu Norðdahl. Við drúpum allar höfði yfir andláti Birnu og munum ætíð minnast hennar sem einnar fremstu og mestu skákkonu Íslands.

Sigurlaug Regína

Friðþjófsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.