Vínlandskortið umdeilda. sem sýnir lönd við vestanvert Atlantshaf.
Vínlandskortið umdeilda. sem sýnir lönd við vestanvert Atlantshaf. — AP
OFT hefur verið sagt að Vínlandskortið sem fannst árið 1957, sé of gott til að geta verið satt. Kortið er um 35 sinnum 48 sentimetrar að stærð og á pergamenti sem talið er fullvíst að sé gamalt, frá 15. öld.
OFT hefur verið sagt að Vínlandskortið sem fannst árið 1957, sé of gott til að geta verið satt. Kortið er um 35 sinnum 48 sentimetrar að stærð og á pergamenti sem talið er fullvíst að sé gamalt, frá 15. öld. Sé það ósvikið er það elsta kort í heimi sem sýnir ekki aðeins Ísland, Grænland heldur líka hluta af Norður-Ameríku, að vísu eins og um stóra eyju sé að ræða. Haldin verður ráðstefna fræðimanna í Kaupmannahöfn í maí til að fjalla um kortið, að sögn danska blaðsins Berlingske Tidende og má búast við að þar verði heitt í kolunum.

Grænland er á Vínlandskortinu sýnt í fyrsta sinn sem eyja, eins og bent er á í grein í bandaríska blaðinu sThe Washington Post. En Kirsten Seaver, norskfæddur kortafræðingur sem býr í Kaliforníu, er meðal efasemdarmanna. Hún bendir á að jafnvel þótt frásagnir af ferðum Leifs Eiríkssonar og fleiri Grænlendinga/Íslendinga/Norðmanna hafi getað borist frá Íslandi til evrópskra kortagerðarmanna sé útilokað að þeir hafi vitað að Grænland hafi verið eyja. Vissulega hafi loftslag verið nokkru hlýrra en nú en ekki svo að menn hafi getað siglt umhverfis Grænland á farkostum þeirra tíma.

En vísindamenn hjá Smithsonian-stofnuninni í Bandaríkjunum segja, að rannsóknaniðurstöður sem birtust í fyrra um að Vínlandskortið svonefnda væri falsað, byggist á röngum ályktunum sem dregnar hafi verið af fyrirliggjandi vísbendingum um efni í blekinu á kortinu. Fram kemur á vefnum innovations-report.com að vísindamennirnir segja að einnig sé hægt að nota rannsóknir á blekinu til að styrkja þá trú að kortið sé ófalsað.

Vínlandskortið er geymt í bókasafni Yale-háskóla og er metið á um 20 milljónir dala, um 1.500 milljónir króna. "Margir fræðimenn eru sammála um að ef Vínlandskortið sé ófalsað sé það eina kortið sem sýni Norður-Ameríku áður en Kólumbus kom þangað," segir Jacqueline Olin, sérfræðingur hjá Smithsonian. "Dagsetning þess er því mikilvæg til að staðfesta að Evrópubúar hafi vitað af landsvæðinu vestan Norður-Atlantshafsins og varpa fram spurningum um hvort Kólumbus hafi vitað af því," er haft eftir Olin á vefsíðunni innovations-report.com.

Gamalt bókfell en blekið?

Í júlí í fyrra birtust tvær vísindagreinar um Vínlandskortið, önnur í tímaritinu Radiocarbon þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að pergamentið eða bókfellið, sem kortið er teiknað á, sé frá árinu 1434 eða þar um bil, og hin í ritinu Analytical Chemistry, þar sem því var haldið fram að kortið sé fölsun frá 20. öld en teiknarinn hafi notað bókfell frá miðöldum.

En Olin, sem átti hlut að greininni í Radiocarbon, hefur nú skrifað nýja grein í Analytical Chemistry. Segir hún, að þar sem ekki sé deilt um aldur bókfellsins, liggi lausnin á deilunni um aldur kortsins í sjálfu blekinu, ekki bókfellinu. Fyrir tíma prentverksins, sem kom til sögunnar seint á 15. öld í Evrópu, voru handrit skrifuð með bleki. Í greininni, sem birtist í Analytical Chemistry í fyrra, og skrifuð var af vísindamönnum við University College í Lundúnum, var niðurstaðan sú að efni í blekinu sanni að kortið hafi verið gert eftir árið 1923. Eldri rannsóknir hafa bent til sömu niðurstöðu en deilt hefur verið um umrætt efni í blekinu þar sem það finnst einnig í náttúrunni.

Olin segir, að þvert á móti bendi rannsóknir á blekinu til að kortið sé ófalsað og rökstyður það með ýmsum hætti. Hún segir m.a. að kopar, ál og zink, sem finnast í bleki Vínlandskortsins, finnist einnig í miðaldableki. Segir Olin að engir falsarar á fyrri hluta 20. aldar hafi getað búið yfir svo nákvæmri þekkingu á slíku bleki. Aðrir hafa auk þess bent á að kortið á bókfellinu hafi verið bundið inn í bók úr pappír sem sannanlega hafi verið framleiddur í Basel í Sviss á 15. öld.

Dularfullur uppruni

Kirsten Seaver telur að þýskur jesúíti og frægur kortasérfræðingur, Franz Fischer, sem lést 1944, hafi viljað gera nasistum grikk með því að falsa kortið. Nasistar vildu í áróðri sínum ávallt ýta undir hugmyndir um hið merka framlag þýskra og norrænna manna til sögunnar, þ. á m. varðandi landafundi. Fischer hafi notað gamalt bókfell sem nóg sé til af, dregið upp sitt eigið kort og áletranir og sett í textana fjölmargar vísanir til kaþólskra trúboða og Rómarkirkjunnar. Þá kæmust menn að þeirri niðurstöðu við nánari skoðun að Páfagarður hafi í reynd staðið fyrir landafundunum en ekki norrænu ofurmennin. Einnig segir hún að hæfir kortafræðingar sjái fljótlega að Fischer hafi verið að stríða mönnum, sumir textarnir séu þess eðlis.

Áðurnefndur Fischer fann á sínum tíma elsta kort sem vitað er um með nafninu America er seinna varð heiti heimsálfunnar allrar. Heitið er dregið af skírnarnafni Ítalans Amerigo Vespucci sem ritaði mikið um landafundina.

Deilt hefur verið um Vínlandskortið frá því á sjöunda áratug síðustu aldar. Paul nokkur Mellon gaf þá Yale-háskóla í Bandaríkjunum kortið. Það hafði Mellon keypt á sjötta áratugnum af manni í Connecticut í Bandaríkjunum. Sá upplýsti aldrei hvernig kortið komst í hendur hans.