Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, á ráðstefnu um smásölumarkaðinn í Lundúnum í gær.
Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, á ráðstefnu um smásölumarkaðinn í Lundúnum í gær.
ÁSTRÍÐA fyrir þeim verkefnum sem ráðist er í er meginskýringin á hröðum vexti Baugs Group. Þetta kom fram í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra félagsins, á ráðstefnu um smásölumarkaðinn sem haldin var í Lundúnum í gær.
ÁSTRÍÐA fyrir þeim verkefnum sem ráðist er í er meginskýringin á hröðum vexti Baugs Group. Þetta kom fram í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra félagsins, á ráðstefnu um smásölumarkaðinn sem haldin var í Lundúnum í gær.

Jón Ásgeir greindi frá því í erindi sem hann flutti á ráðstefnunni hvernig Baugur hefði orðið til, frá því er fyrsta Bónusverslunin var opnuð. Hann sagði að eftir að þeim hefði tekið að fjölga hefðu tekið við kaup á öðrum verslunum og síðan útrás í útlöndum.

Sagði Jón Ásgeir að þrátt fyrir mikinn vöxt Baugs Group hafi stjórnendur félagsins aldrei gleymt hvaðan þeir komi. Velgengni félagsins skýrist af því að ávallt sé haft í huga að halda stjórnunarkostnaði í lágmarki. Þannig séu til að mynda einungis tólf starfsmenn á skrifstofum félagsins. Annar þáttur í velgengninni skýrist af notkun upplýsingatækninnar.

Jón Ásgeir fór í erindi sínu yfir fjárfestingar Baugs í Bretlandi. Hann sagði félagið ákjósanlegan samstarfsaðila, m.a. vegna þess að það fjárfesti ekki með það fyrir augum að fara út úr fjárfestingunni við fyrsta tækifæri sem gæfist. Baugur helgi sig þeim fjárfestingum sem félagið ráðist í og stjórnendurnir hugsi eins og smásalar og með öðrum hætti en fjárfestar.

Sagði hann að Baugur Group væri komið til að vera á breskum markaði. Félagið muni halda áfram að leita að hagstæðum fjárfestingartækifærum. Þeir sem séu að leita að samstarfsaðilum í Bretlandi geti því haft samband við félagið.

Frekari fjárfestingar í Bretlandi í skoðun

Financial Times birti í gær viðtal sem blaðið tók við Jón Ásgeir í tengslum við smásöluráðstefnuna í Lundúnum. Þar er haft eftir honum að hlutabréfamarkaðurinn sé ekki fyrir lítil smásölufyrirtæki. Segir hann að þau muni í auknum mæli fara af markaði og í einkaeigu. Lítil fyrirtæki séu að hans mati þau sem velti innan við 500 milljónum punda, eða um 65 milljörðum íslenskra króna. Lítið sé um að fyrirtæki sem velti innan við einum milljarði punda séu skráð í kauphöllinni. Ástæðan fyrir þessu sé allt það regluverk sem sé í kringum skráningu félags á markaði. Það sé svo margfalt auðveldara að reka fyrirtæki sem sé ekki skráð þegar það sé í vexti.

Jón Ásgeir sagði í samtalinu við FT að Baugur væri með í skoðun fjárfestingu í tveimur eða þremur fyrirtækjum í Bretlandi.